„Helvítis hjólafólkið!“

Þríþrautarfélagið mitt, 3SH, stóð fyrir æfingabúðum frá föstudagsmorgni til sunnudagssíðdegis þar sem við syntum, hjóluðum og hlupum frekar mikið. Bestir eru morgnar til hjólreiða þegar umferðin er lítil og hún var það í rauðabítið í morgun þegar við fórum 26 í skipulagðri halarófu út á Álftanes. Við fórum frá Krísuvíkurvegi um ýmsa stíga og jaðargötur og um Herjólfsgötuna, sem er værðarleg gata skammt frá Norðurbakkanum í Hafnarfirði, stráð hraðahindrunum og sennilega er hámarkshraðinn 30.

Ákveðnar reglur gilda þegar hjólað er í svona lest. Fólk notar óspart bendingar til að gefa stefnu til kynna, veifa bílstjórum ef vill (sumir víkja svo vel fyrir okkur) og fremstu menn í halarófu benda líka aftur fyrir sig til að sýna bílstjórum sem eru á leið út úr stæði að fleiri séu á leiðinni. Þar sem um 3 metrar eru að jafnaði á milli fólks er hópurinn þéttur og hraðinn var þarna á Herjólfsgötu um 25 km. Og þarna var miðaldra maður sem sat í bifreið sinni, hafði skrúfað niður rúðuna sín megin og leit út, sá okkur koma, enda er sýnileikinn mikill þegar flestir eru í neongrænum jökkum eða appelsínurauðum.

DSC01751Hann hefði getað beðið þessar 15-30 sekúndur meðan við vorum að bruna fram hjá honum. Hann gaf ekki stefnuljós, stakk vinstra framhorni bifreiðarinnar út fyrir stæðið, bremsaði, færði sig örlítið lengra og bremsaði aftur, meðan hjólað var framhjá en ákvað loks að keyra út í hópinn og hafði að auki hugsað sér að taka 180 gráðu beygju í leiðinni.

Þessu átti enginn von á og fólk nauðhemlaði sitt á hvað en bifreiðin lenti á þeim sem næstur var og hann féll harkalega í götuna. Fólki var nóg boðið og sendi bílstjóranum tóninn, sumir töluðu beint úr pokanum en hann reif stólpakjaft og amaðist einkum við „helvítis hjólafólkinu“ sem ætti ekkert erindi út á götur og ætti ekki að þvælast fyrir umferð. Þá var þjálfara vorum nóg boðið, greip símann sinn og hringdi í lögregluna. Aðrir hvesstu sig þokkalega og ökuþórinn forðaði sér inn í bílinn og læsti. Lögreglan kom, tók skýrslu af manninum og lét hann að sögn blása í blöðru. Við fengum síðan lögreglufylgd einn hring um Álftanesið og fannst það ekki leiðinlegt.

Upp úr hádeginu hringir síðan lögreglumaður í þann sem datt. Samtalið hófst á því að honum var kynntur réttur hans sem sakbornings. Ekki var annað að skilja af samtalinu en bílstjórinn hefði kært hinn fallna fyrir gáleysi á reiðhjóli! Þetta heitir að bíta höfuðið af skömminni.

Þetta hefði getað farið mjög illa. Hjólaskórnir eru spenntir fastir á pedalana og maður er nokkrar sekúndur að losa sig en í svona tilviki er enginn tími til þess og því verður fallið á malbikið þeim mun þyngra. Fólk hefði getað lent saman og dottið hvert á annað með tilheyrandi afleiðingum. Það þarf ekki að hugsa þá hugsun til enda. Við þekkjum nógu margar slysasögur.  Þessi framkoma bílstjórans er dólgsháttur af verstu sort og verðskuldar umfjöllun. Því fylgir hér mynd af bílstjóra og bíl.

Viðbót: Vegna margra fyrirspurna um hjólastíga, gangstéttir, umferð og lög, tók ég saman ákvæði umferðarlaga sem varða hjólreiðafólk. Þetta er fróðlegur lestur. Ítrekað skal að mín reynsla er sú að 95% ökumanna séu tillitssamir og skilningsríkir. Það hlýtur að vera hægt að hækka þessa tölu.

63 athugasemdir við “„Helvítis hjólafólkið!“

 1. Mér finnst að bílstjórinn á að fá sekt og að þetta var rangt hjá honum en mér finnst líka frekja að hugsa sér að svona æfingar ættu að vera út á götu.

 2. Til skýringar: Við vitum mætavel að svona stór hópur þarf svæði við hæfi. Við æfum oftast á Krísuvíkurveginum á helgarmorgnum, því þar er svotil engin umferð. Við erum þar að auki bara í svona halarófum þegar við flytjum okkur milli svæða. Þarna lá leiðin út á Álftanes, þar sem við sáum bara einn bíl fyrir utan lögreglubílinn sem fylgdi okkur. Almennt dreifist svo mikið úr hópnum að það er útilokað að við tefjum umferð.

  • Þetta finnst mér þá allt öðruvíssi. Ég vissi ekki að þið voruð í fygld með lögreglunni. Ég vissi ekki að þetta var óvenjulegt að þið hjóluðu í svona stóran hóp og fóruð í gegnum íbúahverfi. Ég var að leggja inn komment um það sem stendur í póstinum að ofan. Mér sýnist að þetta er faglega gert hjá ykkur og ég dreg til baka gagnrýnið mitt.

   Eitt sem ég lærði af þessari grein er það að þegar ég sé hjólamann sem beindir aftur fyrir sig að þar er hjólahópur á ferð. ég hef ekki séð það áður og hafi hugsanlega ekki skilið hvað meint með því merki.

   • Lögreglufylgdin kom í kjölfar árekstursins og var held ég meira til gamans. Annars vona ég að þessi færsla verði til aukinnar umræðu um sambúð hjóla og bíla á götum bæjarins.

 3. Gilda semsagt engar reglur um hóphjólreiðar? Er í þessu sambandi að hugsa um þegar t.d keppnir eru, þá er götum lokað fyrir umferð í öryggisskyni fyrir keppendur. Eins mun það vera í hóphlaupum. Ég verð að segja, að mér finnst þessi myndbirting í ætt við nornaveiðar. Í umferð gildir gagnkvæm tillitssemi og svona færsla stuðlar ekki að henni. Með fullri virðingu fyrir þeim sem lentu í þessari uppákomu

  • Jú, það gilda reglur, skrifaðar og óskrifaðar. Þær koma fram í textanum. Við erum afar meðvituð á ferð um umferðargötur og gætum okkar vel. Ef maðurinn hefði hagað sér öðruvísi og ekki rifið kjaft eða kært félaga okkar fyrir gáleysi, hefði þessi mynd og þessi færsla varla birst.

   • Þetta er líka spurning um hraða Gísli. 25 km/klst á hjóli er allt annað en 25 km/klst á bíl. Viðbragðið er allt annað. Ég þekki það sjálfur þar sem hjólreiðar eru minn lífsstíll og hafa alltaf verið. Ef þið hafið þurft að nauðhemla fyrir bíl sem svínaði á ykkur við þessar aðstæður þá bendir það til þess að hjólað hafi verið á of miklum hraða miðað við aðstæður. Just my 2 cents

  • ÉG held að Jóhannes sé ekki að skilja það sem þarna fór fram, ökumaður bifreiðarinnar keyrði inni í miðjan hóp af hjólreiðafólki. Hann sá fólkið og tók af stað inn í hópinn. Það var ekkert svínað fyrir hópinn (fremst), það var keyrt inn í hann viljandi.

 4. Árétting: Þetta var spurning um 20 sekúndur. TUTTUGU SEKÚNDUR! Sá sem getur ekki beðið í stæðinu sínu í svo stuttan tíma, á ekki að hafa bílpróf. Að aka beint út í hóp hjólreiðafólks er dólgsháttur. Punktur. Ekki afsaka þetta eða væla.

  • 20sek hefðu engu breytt fyrir akút aðgerð á slysadeild og réttlæta engan veginn að setja líf hjólreiðafólks í hættu sem á ekki von á öðru en tillitssemi í umferðinni.

   Kveðja,
   læknir á slysadeild og hjólreiðamaður

 5. Það er enginn að væla nema þú. 20 sekúndur geta skipt sköpum ef um líf eða dauða er að tefla. Hvað ef dólgurinn hefði verið skurðlæknir sem hefði verið ræstur út vegna neyðartilviks á slysadeild?

  • Jóhannes, er spurninginn sú hvor það sé í lagi að slasa marga til að bjarga hugsanlega einum? Yfirleitt eru svona heimspekilegar vangaveltur á hinn veginn, þ.e. hvort það sé í lagi að fórna einum fyrir fjöldann.

  • Skurðlæknir sem ræstur er út!
   Það hefði líka belja getað hafa fallið úr himni ofan og haft áhrif á atburðarrásina.
   En hættum þessu bulli og lítum á staðreyndirnar.
   Að maður keyrir glæfralega inn í hóp hjólreiðamanna án þess að gefa stefnuljós og nokkuð augljóslega viljandi.
   Það er óverjandi hegðun og þín afstaða þykir mér óskiljanleg!

  • Jóhannes. Ertu að grínast!? Ertu virkilega að réttlæta hegðunina hjá þessum manni vegna þess að kannski vill svo til að hann sé Skurðlæknir sem er að flýta sér?

   Ja… ef svo er, hvað er hann þá að eyða lífsnauðsinlega tímanum sínum að rífast við hjólreiðamenninna, fyrst hann þarf að flýta sér svona mikið?

   Maðurinn keyrir úr hliðarstæði og tekur 180° beygju inn í hóp af fólki og gaf ekki einu sinni stefnuljós um að hann væri að fara af stað. Þá skiptir engu hvort um sé að ræða fólk á hjóli, bifreið eða fótgangandi. Ef lítil bílalest kæmi akandi niður götuna, myndir þér þá finnast í lagi að keyra inní hliðina á þeim? Helvítis bílar alltaf að þvælast fyrir manni.

 6. Það skiftir engu máli hvort þeir sem áttu leið um götuna voru á reiðhjóli, bifreið eða hesti, bílstjóra sem er að fara útá götuna ber að taka tillit til aðstæðna og sýna tillitssemi.

 7. Þetta er náttúrulega bara dónaskapur- og algjör óþarfi að haga sér svona einsog þessi maður gerði- spurn um smááá tillitssemi
  en ein spurn. til ykkar hjólafólks, – eru ekki reglur um það að þið eigið að hjóla í halarófu- en ekki 3-4 hlið við hlið á götunum ?

  Ég nefnilega var að keyra í Grafarvogi í morgun og þar var hópur hjólafólks – (kannski ykkar hópur) nema hvað að það voru fáir í halarófu- heldur voru flestir hlið við hlið- 3-4 og blokkeruðu ALGJÖRLEGA götuna.

  • Viðmið umferðarlaga er að hjól hafi sama rétt og bifreið. Ég vona að þessi hópur hafi ekki tekið báðar akreinarnar undir sig og þekki hjólreiðafólk annars að því að vilja frekar hleypa bílum fram hjá en að tefja umferð að óþörfu.

 8. Þetta er klárlega dónaskapur hjá manninum, en mér finnst að hjólafólk ætti að halda sér á gangstéttini, og þarna á herjólfsgötu er hjólastígur sem hefði alveg verið hægt að nota

  • Samkvæmt umferðarlögum á hjólreiðafólk að vera á götunni. Þarna er merktur hjólastígur og góður til síns brúks en frekar þröngur fyrir svona stóran hóp. Þar að auki eins og kemur fram í færslunni, var þetta spurning um 15-30 sekúndur meðan við drifum okkur eftir götunni.

 9. http://www.althingi.is/lagas/nuna/1987050.html
  Svona fljótt á litið þá virðist sem ökumaður þessarar bifreiðar hafi gerst brotlegur við þau umferðalög sem gilda í landinu. Skv. grein 25 hefði viðkomandi ökumaður átt að „…veita umferð í veg fyrir leið hans forgang“. Auk þess virðist sem þessi ökumaður hafi virt að vetugi greinar 4, 10 og 17 sömu laga.

 10. Það er alveg ljóst að samkvæmt umferðarlögum eiga reiðhjól sama rétt og bílar á götunni… Þ.a. Það er glórulaust að kæra reiðhjólamanninn sem er í fullum rétti, hvort sem um 10sek eða mínútu bið er um ræða fyrir þann akandi.

 11. Það verður gaman að sjá hvernig sú dómsmál mun þróast, þegar þessi skúfur þarf að standa gegn 26 vitnum að atvikinu.

 12. Ég bý í Mosfellsdal og hér hjóla menn stundum tveir saman hlið við hlið, ég sé ekki betur en það skapi stórhættu. Er það eitthvað sem mælt er með meðal ykkar hjólamanna

  • samkvæmt umferðarlögum á reiðhjól sama rétt í umferð og bíll og má taka heila akrein eins og bíll. Okkar kjörorð er annars mikil árvekni nálægt bílum eins og kemur reyndar fram í færslunni.

   • Gísli, en hvað finnst þér um þau umferðalög?

    Hugmyndin er góð; í umferðinni skulu allir vera jafnir og allt á þeim nótunum. Í útfærslu er raunin þó allt önnur.

    Ef ég væri ökumaður á götu þar sem að hámarkshraði er 60 km/klst, en tæki þó upp á því að keyra á 20 km/klst. Eflaust yrðu margir stórkostlega vondir út í mig og myndu reyna allt sem þeir gætu til að komast fram úr mér og skapa þ.a.l. mikla hættu í umferðinni. Ef lögreglan yrði var við þetta uppátæki mitt, þá veit ég vel að ég þyrfti að svara fyrir og halda mér við umferðahraða ef ég ætlaði yfir höfuð að vera hluti af henni.

    Afhverju breytist þetta þá skyndilega þegar að ég er kominn á reiðhjól? Það er oft ekkert einfaldara að taka fram úr reiðhjóli, sérstaklega þegar tveir eða fleiri hjólagarpar eru komnir saman hlið við hlið, eða þegar að hjólamaðurinn tekur sitt pláss á götunni (eins og er hans réttur skv. umferðalögum). Þar að auki er vegið virkilega að öryggi þeirra hjólreiðamanna sem haga sér svona í umferðinni.

    Ég hef þó gert heiðarlega tilraun til þess að hjóla í vinnuna, en til þess þurfti ég að hjóla meðfram Reykjanesbrautinni u.þ.b. 1 kílómeter. Ég hjólaði á öxlinni, eins nálægt brúninni og ég gat – var ásamt því vel merktur. Þrátt fyrir þetta upplifði ég mikinn ótta og fann fyrir óöryggi sem ég hef aldrei fundið fyrir í umferðinni. Ég held að ég þyrfti að vera svellkaldur til að hjóla eins og sumir Íslendingar gera.

    Annars vona ég að þessi framkoma hafi verið einsdæmi í ykkar hjólaferðum. Svona uppátæki er með öllu ófyrirgefanlegt og stórhættulegt, jafnvel þó að ökumaðurinn hafi ekki verið himinlifandi ástfanginn af uppátækjum ykkar. En ég vil þó benda á eitt: lögreglan sá ástæðu til að fylgja ykkur eftir um talsverðan spöl. Undirstrikar það eitt ekki óöryggi svona hjólahópa, sama hversu mikil tillitssemi er sýnd af meðlimum hópsins?

    Farið varlega!

 13. Það veitti ekki af því að fara af stað með herferð á Íslandi um hjólamenningu. Í dag vantar mikið upp á að tekið sé tillit til hjólamanna og einnig að fólk virði stíga og merkingar fyrir reiðhjól. Hafandi búið í Danmörku og ferðast þar daglega til og frá vinnu á hjóli og koma svo í hjóla „ómenninguna“ á Íslandi er hálfgert sjokk, þó finnst mér aðstaðan hafa batnað mikið sl.árin. Ofangreind saga er dapurleg og ekki á að líða svona hegðun frá bílstjóra !

 14. Hah, magnað að fólk reyni að afsaka þessa hegðun. Bílstjórinn er í órétti hvort sem hann hafi þurft að bíða í 2 sekúndur eða 2 klukkutíma. Það væri gaman ef þið leyfðuð okkur að fylgjast með framgangi þessa máls.

 15. Svakalegt að lesa um þessa framkomu. Er þetta algengt viðhorf hjá bílstjórum? Eða undantekning? Að hjólandi fólk sé fyrir og til óþurftar á götunum?

  Gísli, þarf ekki að eiga sér stað vitundarvakning hjá bílstjórum svo sambúð þeirra og hjólafólks verði betri? Þyrfti ekki einhvers konar áróðurs- og auglýsingaherferð í því sambandi? Ekki veit ég alveg af hverra hálfu. Umferðarráðs kannski, íþróttahreyfingarinnar og/eða fyrir tilstilli hjólabúðanna, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er hættulegt viðhorf sem maðurinn endurspeglar og ég kannast bara ekki við svona þar sem ég hjóla þúsundir kílómetra ár hvert, í Frakklandi, nú síðast í morgun rúmlega hundrað. Vandræðalaust.

 16. Þetta finnst mér fáránlegar umræður. Hjólafólk á að fylgja umferðarreglum, rétt eins og bílar. Mig minnir að hjólrieðafólk megi hjóla tveir og tveir saman. Það eru í gildi alveg fáránlegar reglur, um að hjólreiðafólk megi hjóla á göngustígum, og ég held að Ísland sé eina siðmenntaða landið með þessar reglur. Það er spurning hvort hjólreiðafólki sé skylt að hjóla á merktum hjólastígum, samkv 16. grein umferðalaga, eða ekki. Ég tel að hjólafólk eigi, og megi hjóla á öllum götum, og hafi sama rétt og önnur ökutæki. Bílstjórinn í þessu tilviki, brýtur öll lög og reglur með framferði sínu, og veldur óhappi, og ætti sem slíkur að svara fyrir það. Það gefur honum engann rétt til að haga sér eins og api, að hjólafólkið hafi hugsanlega brotið einhverjar reglur, ( sem ég held að þau hafi ekki gert).

 17. Treysti Gísla fullkomlega til að leyfa okkur að fylgjast með. Styð birtinguna og á ekki orð yfir þessum manni. Ótrúlegt hvað fólk leyfir sér (einu sinni var keyrt á manninn minn þar sem hann stóð inni í bílastæði fyrir utan húsið okkar og var að bíða eftir gámi – bílstjóri sem var svo brjálaður að mega ekki nota stæðið. Forðaði sér þegar ég var búin að hringja á lögregluna).

 18. Ath. að lögreglan kynni reiðhjólamanninum réttarstöðu lítur illa út en er formsatriði og til að gæta að réttindum hans. Veit ekki betur en þetta sé regla í öllum umferðaróhöppum.

 19. Ég hef alltaf sagt að 95% bílstjóra séu tillitssamir og athugulir og þannig er mín upplifun af umferðinni. Þessi fimm prósent slæmu eru ekki fulltrúar allra ökumanna. Mikil fjölgun hjólreiðamanna á götum kallar á aukna aðgæslu allra.

 20. Er ekki allt í lagi. Haldið þið að maðurinn hafi bara ætlað að keyra ykkur niður af því hann hafi hugsað „helvítis hjólreiðafólk“. Ég er nokkuð viss um að hann hefur látið ljót orð falla eftir að þetta gerðist(þekki hann aðeins) en ég er líka nokuð viss um að það hafi nokkur ljót orð fallið úr ykkar hóp líka ekki satt? Ég tek það fram að þetta er eldri maður, ekki miðaldra. Ég veit fyrir víst að hann einlæglega hélt að allir væru farnir fram hjá. Í ljósi þess þá finnst mér full hart að ætla birta mynd af þessu. Að lokum langar mig líka að spyrja hvort hjólreiðastígurinn sem liggur um Herjólfsgötu sé ekki nógu góður fyrir ykkur?

  • Þeir sem voru aftarlega í röðinni fylgdust með bílnum því ljóst var að þar var ökumaður sem vildi komast af stað. Bil milli fólks í okkar hópi var ekki mikið, hópurinn litríkur og áberandi og það var ekki á honum að heyra annað en hann teldi sig vera í rétti. Við vorum á staðnum. Ekki þú.
   Hjólreiðastígurinn um Herjólfsgötu er ágætur til síns brúks og ég fer hann oft. En þegar um stóran hóp er að ræða sem er eingöngu að færa sig á milli svæða, er eðlilegt að nota götuna eins og umferðalög kveða á um. Við fórum að öllu leyti eftir lögunum og kappkostum að sýna aðgát. Eins og fram kemur í færslunni, hefði þessi færsla ekki birst, ef viðkomandi bílstjóri hefði reynt að gera gott úr þessu, biðjast afsökunar og álíka. Því var ekki að heilsa.

  • Hjólreiðastígurinn sem liggur um Herjólfsgötu er ekki hjólreiðastígur heldur blandaður stígur fyrir allskonar umferð hjólandi, gangandi, fólk með hunda og börn og því mjög hættulegt að hjóla þar á 25-35 km hraða. Þá er gatan mun öruggari fyrir heildina. Þarna er 50km hámarkshraði fyrir bíla og því ekki svo mikil töf fyrir ökumenn þó hjólreiðafólk noti veginn í fullum rétti.

 21. Spurning um að hafa samband við umferðarráð og fara í samstarf með þeim.
  Umferðarráði hefur akkúrat það hlutverk að koma svona upplýsingum til umferðasamfélagsins.

  Sérstaklega þegar það virðist vera svona stór hópur ökumanna sem beitir bílum sínum ógætilega í kring um hjólreiðamenn og fyrir litlar eða engar sakir telja sig hafa ástæðu til að stefna heilsu og lífi annara í hættu.
  Umferðarráð er klárlega í góðri aðstöðu til að koma upplýsingum út í umferðarsamfélagið og miðla réttum upplýsingum til beggja hópa.

  Hluti hjólreiðamanna notar reiðhjól sem leiktæki en ekki til æfinga eða samgangna, þessi hópur lætur eins og umferðarreglur gildi ekki um þá.
  Á móti er lítill hluti ökumanna lætur það fara svo mikið í taugarnar á sér að þeir stimpla alla alla hjólreiðamenn sem vitleysinga sem bera enga virðingu fyrir umferðarreglum.

  Þessir ökumenn þekkja ekki réttarstöðu hjólreiðarfólks og því er skyndilega allt sem hjólreiðafólk gerir rangt.
  Ef hjólað er á gangstétt erum við bjánar sem ógna heilsu gangandi og úti á götu erum við að fælkjast fyrir bílunum…
  Allt í einu er vitneskjuleysi þessa hóps farið að brengla dómgreind þeirra gagnvart hjólreiðafólki.

  Þetta er reynsla og upplifun mín á öfgafyllstu ökumönnum sem á vegi mínum hafa orðið…

  Það sem þarf til er að koma staðreyndum til ökumanna og hjólreiðamanna þannig að báðir hópar séu meðvitaðir um stöðu og rétt hinna í umferðinni.

  Kær kv.
  Helgi Berg.

 22. Það viðhorf virðist vera ríkjandi hér að hjólreiðar séu ekki umferð. Maður verður ekkert merkilegri við að vera í bíl.

  • Er innilega sammála ykkur, það eiga allir að sýna tillitsemi og fara eftir lögum. Sama hvort um er að ræða hjólreiðafólk eða bílstjóra. Ég var á leiðinni í vinnuna um daginn þegar hjólreiðamaður sveigði allt í einu þvert í veg fyrir mig. Leit hvorki til hægri eða vinstri heldur fór þvert yfir án þess að líta til hægri eða vinstri. Er sjálf oft á hjóli og veit að það er freistandi að skella sér yfir götuna ef maður er að flýta sér. En það getur valdið slysi og í mínu tilviki var ég svo heppin að bíllinn fyrir aftan mig náði að stoppa áður en hann lenti aftan á mér… annars hefði þetta uppátæki hjólreiðakonunnar getað valdið stórslysi.
   Sýnum öll tillitsemi og virðingu. Þá mun þetta allt ganga betur 😉

 23. Bakvísun: Umferðarlög hjólafólksins | Málbeinið

 24. Mér finnst bara rosalega mikið um ótillitssemi í umferðinni, ég er sjálf á vespu og fólk reynir að taka fram úr mér á bílum á fáránlegustu stöðum og mér finnst bara gott hjá þér að birta myndina. Hann sér vonandi að sér næst.
  kv Ásta Svavars.

 25. Ekki veit ég til þess að menn þurfi sérstaklega að sækja um leyfi til þess að keyra saman í hóp eftir götum bæjarins. smbr morguntraffíkin frá kl 7 til 9, það þyrfti kannski að kanna það.

  Það er ekkert athugavert við hóp af reiðhjólum á ferð í umferðinni, nema máske það sé á stofnleið innanbæjar þar sem hámarkshraði er yfir 50km/h, og það á alls ekki að afsaka sig og draga í land með það. Reiðhjól eru samgöngutæki sem eiga jafn mikinn rétt á því að vera í umferðinni og einkabílar eða almenningssamgöngur!

  Reiðhjól sem hluti af samgöngum, keppni, íþróttum eða áhugamáli eru komin til að vera, og íslenskir bílstjórar þurfa að fara að læra að umgangast reiðhjól af meiri virðingu. Reyndar verð ég að segja að ég hef mætt ótrúlegri kurteisi og skilning í umferðinni síðan ég valdi reiðhjól sem minn aðal samgöngumáta, þó auðvitað hafi verið einhverjir örfáir reiðir einstaklingar sem amast útí „helvítis reiðhjólapakkið!“

  kkv, Samúel Hjaltalín

 26. Hægt er að stækka myndina gríðarlega. Skelfilegur ógreiði er það við Lýðræðisvaktina að mannfýla þessi skuli vera með merkið XL í bílnum hjá sér.

 27. Það virðist of oft gleymast að engin hefur ákeyrslurétt sama hvernig málum virðist háttað og við hvaða aðstæður sem er. Og svo gleymist það jafn oft að einfaldlega bara sýna tillitsemi í umferðinni. Það á engin umferðina og ekki bílstjórar frekar en hjólreiðafólk. Svona óþokkar græða ekkert nema aukna gremju og leiðindi með háttarlagi sínu sama hver var í rétti eða ekki og lýsir hroka og heimsku viðkomandi.

 28. Þetta kemur fyrir hjólandi og gangandi fólk alla daga allstaðar alltaf. Og mun gera. Ekki eins og þetta sé eitthvað einsdæmi. Svona verður þetta bara alltaf. það eru til fífl allstaðar á öllum gerðum ökutækja . Ég sá líka einusinni fífl á reiðhjóli sem virti engar umferðarreglur og svínaði fyrir bíla og gangandi fólk. Svei mér þá ef það var ekki bara ég sjálfur.

  En þessi maður fær klárlega fávitabikar dagsins. gott að engin meiddist líkamlega í þetta skiptið.

 29. Fann þessa grein á síðuni þinni Gísli.
  spurning
  1) hvers vegna notið þið ekki hjólreiðastígurinn fyrst hann er við hliðina á götuni sem þið voruð á.???
  2) svo virðist nú vera töluvert bil fyrst bíllin getur keyrt í veg fyrir ykkur án þess að keyra yfir neinn. 3) var hjólreiða maðurinn sem lenti á bílnum á löglegum hraða fyrst hann gat ekki stopað. humm,,, það seigir einnig í umferðalögum að sína skal aðgát það á við báða aðila. er a vekja á þessu athigli þar sem þú sagðir að Þeir sem voru aftarlega í röðinni fylgdust með bílnum því ljóst var að þar var ökumaður sem vildi komast af stað.
  Gamalt fólk hefur ekki góða sjón eða fjarlægðar skin eins og börn. svo ég trúi því alveg að hann hafi keyrt af stað þegar hann hafi tali að sér væri óhætt.
  Ef hann hafði það að markmiði að keyra niður nokkra hjólreiðamenn hefði hann eflaust beðið eftir þeim síðasta sett svo í fjórhjóla drifið og keyrt allla halarófuna niður….
  Ég held að þið ættuð að skammast ykkar og fara svo heim til þessa mans á morgun og biðja hann afsökunar á þessu.
  🙂
  Helga PERMALINK
  21.4.2013 9:19 pm
  Er ekki allt í lagi. Haldið þið að maðurinn hafi bara ætlað að keyra ykkur niður af því hann hafi hugsað “helvítis hjólreiðafólk”. Ég er nokkuð viss um að hann hefur látið ljót orð falla eftir að þetta gerðist(þekki hann aðeins) en ég er líka nokuð viss um að það hafi nokkur ljót orð fallið úr ykkar hóp líka ekki satt? Ég tek það fram að þetta er eldri maður, ekki miðaldra. Ég veit fyrir víst að hann einlæglega hélt að allir væru farnir fram hjá. Í ljósi þess þá finnst mér full hart að ætla birta mynd af þessu. Að lokum langar mig líka að spyrja hvort hjólreiðastígurinn sem liggur um Herjólfsgötu sé ekki nógu góður fyrir ykkur?

  • 1. Hjólreiðastígurinn, eins og kemur fram í mörgum athugasemdum hér, er ágætur til síns brúks en ekki fyrir stóran hóp.Hann sameinast göngustíg þegar komið er að brekkunni og þá þurfum við hvort sem er að fara út á götuna.
   2. Vinstra framhorn bílsins fór inn í hópinn. Beygjustefna var 180 gráður. Þeir sem voru aftar í hópnum sáu þetta ágætlega, sáu að bílstjórinn sá hópinn því framrúðan var skrúfuð niður og hann leit út og til vinstri og reiknuðu því ekki með öðru en að hann sýndi þessa aðgát eins og þú bendir á. Hann vildi bara ekki bíða og ákvað að við ættum að víkja fyrir honum, þótt við ættum réttinn. Samkvæmt umferðarlögum eiga reiðhjól að vera á götum. Sjá nánar tengil á umferðarlögin hér fyrir ofan. Þar er einmitt fjallað um aðgát sem ber að sýna þegar ekið er úr stæði út á götu.
   3. Þeir sem hafa ekki góða sjón, nota gleraugu.Viðkomandi ökumaður var gleraugnalaus en púaði hins vegar vindil og er mögulegt að reykjarkófið hafi byrgt honum sýn.
   4, Viltu að við biðjum hann afsökunar á því að hafa verið fyrir honum á götunni? Þú ert ágætur. Þetta er leiðindaatvik og honum til lítils sóma. Ég svara þér á sama hátt og Helgu. ÞÚ varst ekki þarna. Öllum vitnum ber saman um málsatvik. Ég sé enga ástæðu til að fegra þetta en ítreka að þetta er til að læra af. Við höfum engan áhuga á að troða illsakir við bílstjóra sem eru 95% athuglir, tillitssamir og ágætir. Við erum ánægðust með að þarna varð ekki stórslys.

 30. ég hef nú tekið mikið eftir í sambandi við hjólafólk hvað það virðir ekki allmennar umferðarreglur. Hef alltof oft orðið vitni af að fólk hjólar yfir á rauðu og á Sæbraut hef ég lent í því oftar en einu sinni að það byrtist allt í einu hjólreiðarmaður fyrir framan mig þar sem ég er á grænu ljósi og sá hinn sami þeysist yfir götuna beint fyrir framan bílinn hjá mér. Er ég afar þakklát fyrir að hafa aldrei ekið á hjólreiðafólk þar sem finnst það ALLS ekki fara eftir almennum umferðarreglum og hef ég oft haft orð á að merkilegt skuli vera að ekki verði fleiri slys á hjólafólki. Ökumanni bifreiðar er yfirleitt hallmælt vegna ógætilegs aksturs gagnvart hjólafólki en hjólafólk verður að gæta sín líka að fara eftir reglum..

 31. Almennar eumferðarreglur og svo umferðarlög kveða á um að gangandi vegfarendur og vegfarendur á reiðhjólum séu ávalt í rétti…
  Prófið að „gúggla“ það…
  Lenti sjálfur í slysi þar sem ég var á hjóli og ökumaður bifhjóls var dæmdur í órétti þar sem hann keyrði á mig út af þessari reglu…

 32. Þar sem ég ákv í gær að senda inn fyrispurn hérna ( sjá hérna að neðan) reyndar kannski ekki alveg varðandi tiltekið atvik enn um hjólafólk.

  Reglugerðin nr 39. segir svo:
  Hjólreiðamenn skulu hjóla í einfaldri röð. Þar sem nægilegt rými er mega tveir þó hjóla samhliða, ef það er unnt án hættu eða óþæginda.

  Það er rétt sem ég semsagt spurði um – hjólreiðafólk Á að hjóla í einfaldri röð… nema þar sem er næganlegt rými- semsagt ekki 3-4 hlið við hlið einsog ég lenti í um helgina.
  Ég keyrði töluverðan spotta á eftir þessum hóp- mjög stór hópur og þau tóku vel eftir mér- en engum datt í hug að fara í einfalda halarófu svo ég gæti tekið framúr, það er auðveldara að taka framúr halarófu af hjólum heldur en 3-4 hlið við hlið. Svoleiðis er það bara.

  Getur verið að þetta sé sami hjólahópur og lenti í þessu leiðindaatviki?

  Linda PERMALINK
  21.4.2013 6:33 pm
  Þetta er náttúrulega bara dónaskapur- og algjör óþarfi að haga sér svona einsog þessi maður gerði- spurn um smááá tillitssemi
  en ein spurn. til ykkar hjólafólks, – eru ekki reglur um það að þið eigið að hjóla í halarófu- en ekki 3-4 hlið við hlið á götunum ?
  Ég nefnilega var að keyra í Grafarvogi u helgina og þar var hópur hjólafólks – (kannski ykkar hópur) nema hvað að það voru fáir í halarófu- heldur voru flestir hlið við hlið- 3-4 og blokkeruðu ALGJÖRLEGA götuna.

  • Ég er alveg sammmála þér í því að óþarfi er að hjóla 3-4 samhliða því það fyllir of mikið út í akreinina og hef þegar fjallað um það í annarri færslu hér að ofan að hjólreiðafólk er 95% eins og bílstjórarnir. Ég vona að við höfum jafnan gætt þess á okkar ferðum að vera aldrei fleiri en tvö samhliða. Við megum taka til hjá okkur og erum ekkert of góð til þess. Þessi færsla og eftirmálar hennar stuðla vonandi að jákvæðri umræðu um það sem betur má fara í umferðinni.

 33. „Almennar eumferðarreglur [svo] og svo umferðarlög kveða á um að gangandi vegfarendur og vegfarendur á reiðhjólum séu ávalt í rétti…“
  Þetta er náttúrlega hrein fjarstæða. Hjólriða ber að fara að umferðarlögum og geri hann það ekki er hann í órétti. Fari hann t.d. framhjá biðskyldu eða stöðvunarskyldu og lendi í árekstri við bifreið er hann í órétti og bætir því tjón ökumannsins. Veruleg spurning hvort hann er hinsvegar tryggður fyrir því og verður að greiða tjónið úr eigin vasa sé svo ekki.

 34. Hjólreiðastígurinn er „ágætur til síns brúks“. Hvaða notagildi hefur hann annað en að hjóla á honum? Til hvers erum við skattgreiðendur að borga fyrir hjólastíga ef þeir eru ekki notaðir?Þið hljótið að geta verið í halarófu, einfaldri eða tveir og tveir samhliða, þar alveg eins og á götunni?

  • Þessi hjólastígur er svo mjór að hann rúmar aðeins einfalda röð. Á honum geta hjól ekki mæst án þess að fara í veg fyrir gangandi vegfarendur. Ég veit ekki hvað þarf að endurtaka það oft hér í athugasemdum en geri það einu sinni enn. Við vorum á leið út á Álftanes, hjóluðum rétt undir löglegum hraða, töfðum enga umferð og fórum að lögum. Þú þekkir ekki aðstæður og hefur afar litlar forsendur og takmarkaða reynslu til að tjá þig um þetta. En þakka þér samt fyrir að reyna.

 35. Gísli; varstu að beina þessum orðum til mín? „Lestu lögin í heild, einkum um gildi varúðar og tillitssemi. Ekki slíta úr samhengi.“
  Sé svo vil ég taka fram að öllum ber vitaskuld að sýna varúð og tillitsemi; gangandi hjólandi eða bílandi. Það sem ég vildi koma á framfæri var að náunginn sem trúir því að hjólriðar séu ævinlega í rétti fer villur vegar; hjólriði sem svínar á bíl er í órétti, alveg eins og bílstjóri sem svínar á hjóli er í órétti. Auðvitað eiga menn svo ekki að keyra á þótt þeir séu í rétti geti þeir hjá því komist. En ef ekki verður komist hjá árekstri? Hver ber ábyrgðina? Vitaskuld sá sem reglurnar braut.
  Og enn vil ég taka fram að ég er ekki að tjá mig um þetta tiltekna mál en vil benda á að í gangi eru ýmsar hugmyndir um rétt sem eru ekki byggðar á umferðarlögunum og geta því orðið lífshættulegar.

 36. Mér finnst merkilegt hvað sumir geta orðið dómarar í málum sem þeir hafa ekki hundsvit á. Það er akkúrat sá hópur sem sýnir enga tilitlsemi,og er með heimtufrekju. Það er kominn tími á hugarfarsbreytingu hjá fólki og hætta dæma allt og alla án þess að vita nokkurn skapaðann hlut um hvað málið snýst.

 37. @Þorvaldur S. Svona til áréttingar við fyrri póst þá átti ég að vera í órétti verandi á röngum vegarhelming á mínu reiðhjóli.
  Það eitt væri nóg til að dæma mig í órétti en þar sem ég var í flokki gangandi vegfarenda eða vegfarenda á reiðhjólum þá var ég í rétti…

 38. Bakvísun: „Óvandaður og ómerkilegur blekberi“ | Málbeinið

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.