Úr skjóðu þýðandans -I

Fyrirsögnin gefur ýmis fyrirheit. En í tilefni af yfirvofandi tímamótum á starfsferlinum er við hæfi að líta yfir farinn veg og rifja upp. Þar er af mörgu að taka, innan þeirra marka sem trúnaður við verkkaupa bindur hendur manns. Þetta er fyrsta færslan, vonandi af mörgum, úr téðri skjóðu.

Eins og sjá má hér á síðunni, hef ég dundað mér við að safna gullkornum þýðenda undanfarna áratugi, einkum fyndnum villum, því þegar þýðendur hrasa á málfarssvellinu, hafa margir af því mikið gaman og hlæja en sökudólgurinn grætur yfir lyklaborðinu.  Ég hef oft skotið á starfsbræður mína og systur í góðu við misjafnar undirtektir þeirra og hef til allrar hamingju fengið nokkrar pillur á mig á móti. Það lækkar í manni rostann, að minnsta kosti fyrir hádegi. Villu dagsins á ég skuldlausa.

dothrakiÞáttaröðin Game of Thrones( Valdatafl, Krúnuleikar) hefur verið sýnd á Stöð 2 undanfarin ár og er þriðju syrpunni að ljúka. Mikið kapp hefur verið að sýna þættina sem fyrst og hefur Ísland verið frumsýningarlandið utan Bandaríkjanna. Skjátextun þeirra er kapphlaup við tímann því handritin eru misjöfn og skoðunareintak þýðandans kemur stundum daginn fyrir frumsýninguna. (Það er með vatnsmerki og litabrenglun til að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu þýðandans á myndefni, sem hefur reyndar aldrei gerst og aldrei staðið til). Þetta innskot taka þeir til sín sem eiga.

Flökkuþjóðin Dóþrakar er áberandi í þáttunum, fer þar víða um gresjur og merkur, lifir af landsins gæðum, en einkum af hestum sínum. Samband manns og hests er náið og fram kemur að illar tungur væna Dóþraka um að það gangi of langt, eins og segir í handriti: “Is it true the Dothrakis lie with their horses?

Þýðingarmöguleikar eru nokkrir.  Best er að segja að þeir liggi með hestum sínum, því þá er nægilega mikið gefið í skyn. Óreyndur skjáþýðandi með graðhúmor gæti sagt þá ríða hestum sínum (skáletra „ríða„), jafnvel sofa hjá hrossunum, sem er algengt veigrunarorð. Berorður þýðandi gæti notað sagnir eins og að beðja, serða, makast, hafa mök við, og miðað við það sem fréttamaðurinn Gúgul Transleit hefur birt á dægurmiðlum, ætti fátt að koma á óvart í þessum efnum. En ég fór Krísuvíkurleiðina og setti í skjátextann: Er það satt að Dothrakar ljúgi með hestum sínum?”

Ég gæti borið við tímahraki eða textablindu, sem slær oft þann sem les yfir eigin texta. En það breytir ekki orðnum hlut. Ég sá villuna þegar ég horfði á þáttinn í sjónvarpinu um kvöldið, rauk að tölvunni og sendi boð til flutningsdeildar 365 að laga þetta fyrir endursýninguna. Síðan nagaði ég handarbak vinstri handar upp að olnboga. Í kjölfarið fékk ég slatta af bréfum, nokkur meinleg, en flest vinsamleg og fróðleg frá aðdáendum bókanna með góðum ábendingum varðandi næstu þætti.  Ég varð mér úti um fyrsta bindið og las það spjaldanna á milli til að vera betur í stakk búinn fyrir framhaldið. Það hefur gengið skikkanlega en lengi getur gott bestnað.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.