Úr skjóðu þýðandans -III -Útþynnt ást

Villur sjá og vilja þá
vitanlega að gert sé betur.
Ef ég má, þá mun ég þrá
Margréti, en elska Pétur.

Svona var kveðið haustið 1995 þegar íslenskufræðingarnir á Lynghálsi höfðu skólað mig til vegna þýðinga á ensku sögninni to love. Á þessum árum var aðhald fyrirtækisins við þýðendur gott. Handrit voru lúslesin og útkrotuð og stundum var efnt til kaffifunda þar sem rædd voru brýn móðurmál. Ég man enn eftir sjóðheitum umræðum um fjölda hikpunkta. Öll smáatriði skiptu máli og fyrsta árið mitt lærði ég þokkalega til verka. Til dæmis að þýða fyrrnefnda sögn. Því miður er nú skarð fyrir skildi því prófarkalesarar á Lynghálsi voru reknir fyrir nokkrum árum og mér vitanlega les enginn yfir handrit eða segir óreyndu fólki fyrir verkum. Fyrr eða síðar gætir þess í skjátextum. Veldur hver á heldur.

Fíll fer á klósettEn aftur að kjarna málsins.  Love, love, love. Ef marka má dægursíður blaðanna, viðtöl við ungt fólk á öllum aldri, þýðir þessi sögn bara eitt. Að elska. Fólk elskar að fara í gönguferðir, elskar að borða hamborgara, humar með hvítvíni eða fylltan lakkrís, elskar að vera mamma, elskar að vera í eldhúsinu, elskar að lesa bækur, elskar að fara á klósettið, elskar maka sinn, börnin, köttinn, hundinn, golfsettið, bílinn, sólstólinn, teppið, götuna, hverfið, búðina og sjoppuna. Allt er elskað. Allt lagt að jöfnu. Enginn stigsmunur… (Hér tók sjálfvirkur þushemill í taumana).

Einhæft mál er leiðinlegt. Hægt er að hafa mætur á, vera hrifinn af, hafa gaman af, njóta, unna, þykja vænt um, þykja skemmtilegt.og elska. Þetta og eflaust fleira kemur að gagni við þýðingu á sögninni margumtöluðu, miðað við samhengið hverju sinni. Þá elskar maður ekki að fara á klósettið, en þykir gaman, notalegt, jafnvel skemmtilegt að sitja á postulíninu, lesa blað eða bók, spjalla við kettina eða berja saman vísu í dagsins önn.

Ég elska flest sem elska kann
elska kött að líta.
Kisi elskar eigandann
þeir yrkja nú og skíta.

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Úr skjóðu þýðandans -III -Útþynnt ást

  1. Ég skil ekki þránna eftir því að þýða orðið „love“ á fleiri en einn máta. Fyrir nær hvert dæmi sem þú nefnir (hafa mætur á, vera hrifinn af, hafa gaman af…) er til enska sem lýsa sama hlut (I prize, am keen on, enjoy …).

    Love þýðir að elska. Við getum rætt um að enskumælandi fólk noti orðið of mikið og á einhæfan hátt. En af hverju þýða orðið á mismunandi hátt?

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s