Úr skjóðu þýðandans -IV Tvíræðni

Clinton Monica

Fegurð hrífur hugann meira
ef hjúpuð er
svo andann gruni ennþá fleira
en augað sér. (HH)

Sumt á ekkert erindi í skjátexta en ratar þangað samt. Meðan prófarkalesarar 365 fóru haukfránum augum yfir handritin okkar, var stundum látið reyna á hvað slyppi í gegn. Í samskiptum kynjanna kom fyrir að piltar „fengju sér á broddinn“ og fór það athugasemdalaust á skjáinn en þegar lostafullir læknar í Anatómíu Greys vildu „fá sér á snípinn“ varð uppi fótur og fit meðal áhorfenda, aðallega þó fit, og hringdu miðaldra konur unnvörpum í Lynghálsbændur og kvörtuðu. Þýðandinn lofaði bót og betran en fögur heit gleymdust ári síðar þegar læknarnir voru enn við sama rúmhornið.

Íþróttaþættir gefa sjaldan kost á tvíræðni en sumarlangt voru sýndir sportpakkar á einhverri rás 365 þar sem kappreiðum í Evrópu voru gerð góð skil. Þar bar hæst textann: „Þýsku hestarnir voru aftarlega á merinni.“

Árið 1998 var mál Bills Clinton og Monicu Lewinsky í hámæli og á fréttastofu RÚV þótti enginn fréttatími skikkanlegur nema fjallað væri um það.  Þetta var gósentíð fyrir tvíræða orðaleiki en ekkert slíkt átti erindi í skjátexta því flírulæti forseta og lærlings hefur maður ekki í flimtingum og vammlausum fréttamönnum var hugað um að orðalagið væri eins hlutlaust og mögulegt væri. Ég man eftir löngu samtali við vaktstjóra, gegnheilan framsóknarmann og hlutlausan eins og best gerðist á RÚV, sem þráspurði mig hvort ekki væri  þýðingarvilla að kalla Monicu Lewinsky “greiðvikna.” Þá hafði gúglið ekki verið fundið upp og orðabókin var besti vinur aðal.

Kvöld eitt í miðri viku bárust þau tíðindi á öldum ljósvakans að Clinton ætlaði að gefa yfirlýsingu í beinni útsendingu vestanhafs og ákveðið var að sýna hana textaða í heild sinni eftir ellefufréttir. Við MK vorum báðir á vakt í tilefni þessa, fengum upptökuna um hálftíu og þýddum án handrits 25 mínútur hvor á 80 mínútum. Við vorum vanir að vinna hratt en um leið mátti hvergi gera villur, því málfarsið var farið heim og senda átti textann út beint. Forsetinn var og er afar skýrmæltur og okkur sóttist verkið furðu vel.

Í mínum hluta var farið fögrum orðum um ungfrú Lewinsky og mér fannst sjálfsagt að verða þjóðlegur um stund og þýddi ein ummæli Bills á þessa leið: “Hún var vel að sér til munns og handa.” 
Þeir sem muna hvernig samskipti þeirra voru á kynferðissviðinu geta lesið sitthvað út úr þessum orðum. Tvíræðnina í þessu uppgötvaði ég ekki fyrr en að verkinu loknu en þá var orðið of seint að gera eitthvað. MK var sestur við útsendingartölvuna og spólan farin af stað. Enginn tók eftir þessu á fréttastofunni í þetta sinn en úti í bæ herma heimildir að fólk hafi rekið upp stór augu og höfum við oft verið minntir á þetta síðan.

Auglýsingar

4 athugasemdir við “Úr skjóðu þýðandans -IV Tvíræðni

  1. Ég fylgdist ekki með þessu máli á sínum tíma og sá ekki þessa útsendingu en ég heyrði sagt frá því því að Clinton hefði sagt um Monicu að hún hafi verið vel að sér til munns og handa. Og mikið hlegið. Ekki fylgdi sögunni að þetta væri frá þýðandanum komið. Gaman væri að vita hvernig þetta hljómaði á ensku.

    • Ég get viðurkennt núna að þarna var kominn kvöldgalsi í mannskapinn eftir langan vinnudag og þetta er frekar langt frá því að vera orðrétt þýðing ; )

  2. Takk fyrir að ég frussaði brennheitu kaffinu yfir bæði lyklaborð og skjá. „Vel að sér til munns og handa“ er auðvitað kórrétt þegar Mónikka er annars vegar og ekki hægt að segja það skýrara. Farin að þrífa lyklaborð. Skammastín.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.