Úr skjóðu þýðandans -V Bréf til 365

Síðan 1995 hef ég starfað við þýðingar í fullu starfi, alltaf sem verktaki, en hef þó talið mig hafa stöðu fastráðins starfsmanns hjá aðalverkkaupa mínum. Forsaga þessa sambands er þessi:

Í miðjum nóvember 1995 var mér bent á að hafa samband við Stöð 2 þar sem vantaði þýðendur til verktöku. Þáverandi yfirþýðandi tók mér vel en vildi helst ekki úthluta mér verkefni nema ég hefði annan mér til stuðnings. Þetta var klókt bragð hjá honum til að fá tvo fyrir einn og eftir stutt spjall gengum við félagarnir út með fyrstu þáttaröðina okkar, Bevis og Butthead, sem stóð til að sýna daglega á Sýn, sem var þá að komast á koppinn. Við höfðum báðir nokkra reynslu að baki við myndbanda-og bókaþýðingar og töldum að þetta yrði notaleg aukageta með kennaralaununum. En smám saman vatt þetta upp á sig og haustið 1997 höfðum við báðir sagt upp hjá skólanum og komnir í sjálfsmennsku. Við höfðum engan fastan samning um verkefni en treystum handsali og heiti yfirþýðanda þá og síðar. Síðan höfum við verið krummar á skjá Lynghálsbænda, sem hafa skipt oftar um nafn en ég hendi reiður á og fluttu reyndar búferlum að Skaftahlíð á liðnu ári.

Mestu samskiptin fyrstu árin voru við yfirþýðandann og prófarkalesarana. Ég taldi mig allreyndan þýðanda þegar ég byrjaði en komst að því að margt mátti betur fara. Ég lærði að draga texta saman, stytta, hnitmiða, skipta milli birtinga, hafa leshraða áhorfenda í huga og margt fleira. Þetta var góður skóli og þarfur og eftir 2 ár gat ég sagt kinnroðalaust að ég væri þokkalegur.

Skjáþýðingar hafa aldrei verið vel borgaðar og því þarf að sitja lengi við lyklaborð til að hafa meira en kennaralaun fyrir.  Að fá taxtahækkun gekk álíka vel og að kenna ketti að heilsa. Þar sem höfundarréttur fylgir þýðingum, fengum við framan af greitt fyrir endursýningar á efni en því var svo hætt skömmu eftir aldamót á Lynghálsi með einhliða skipun að ofan.

Lengi vel báðum við um samning til að tryggja stöðu okkar og þegar hann loksins kom, urðum við að afsala okkur höfundarrétti. Samningurinn var gerður með hag fyrirtækisins í huga sbr. þessa grein: „Samningur þessi tekur gildi við undirritun og er í gildi svo lengi sem 365 hefur verkefni fyrir verktaka. 365 skal leitast við að láta vita með minnst mánaðar fyrirvara ef fyrirsjáanlegt er að verktaki muni ekki fá fleiri verkefni.“  Lögmaðurinn sem kom að samningagerðinni, hefur síðar látið að sér kveða á sviði útgáfu, einkum á efni sem hægt er að fá án greiðslu til höfunda.

Í miðjum maímánuði 2013 kom síðan tilkynning um fækkun verkefna til verktaka. Sumarið hefur oft verið rýrt hjá okkur en nú kastaði tólfunum. Miðað við úthlutuð verkefni, ver ég sennilega 5 dögum í júní við skjátextagerð.  Svona bréf jafngildir uppsögn. Það lifir enginn af 20% starfi.

Í kjölfar mikillar umræðu í netmiðlum um mál Láru Hönnu, vorum við félagar kallaðir á fund sem var einkum til staðfesta orðinn hlut sem okkur var tilkynntur. Þetta er búið og gert og það eina sem maður getur gert í stöðunni er að segja álit sitt á þessum vinnubrögðum. Þótt staðið hafi til, einkum eftir á, að bjóða okkur félögum stöðu húsþýðanda, þýðir það kauplækkun um 50%. Það eru þung spor sem ég óska engum.

Þetta er meginefni bréfs sem Félag þýðenda við Stöð 2 sendi yfirmönnum 365, 28. maí.

„Það er ljóst að stjórnendur 365 eru með þessum ákvörðunum að kasta á glæ dýrmætri reynslu sem hefur byggst upp hjá þýðendum sem hafa unnið við sjónvarpsþýðingar, sumir hverjir í áratugi. Nú er ráðið reynslulaust fólk og tilgangurinn virðist vera sá einn að spara nokkra aura. Væntanlega hafa stjórnendur þó velt fyrir sér hlutum eins og launatengdum gjöldum, lífeyrissjóði, veikindadögum, starfsþjálfun, fæðingarorlofi og sumarleyfum. Það virðist ljóst að verið er að bjóða þessum nýju þýðendum miklu lægri laun en verktakar hafa fengið og hafa þeir þó ekki verið ofsælir með laun sín. 365 virðist því ekki hafa mikinn metnað hvað skjátexta varðar því nú er ætlast til þess að nýráðnir byrjendur skili sömu afköstum og þrautþjálfaðir þýðendur og tvöföldu því magni sem þaulreyndir þýðendur við t.d. norrænar stöðvar hafa skilað. Það er vart ávísun á vönduð vinnubrögð og við þýðendur trúum því ekki að þessi ráðstöfun sé til hagsbóta fyrir fyrirtækið. Flest fyrirtæki hafa auk þess lengi sóst eftir því að hafa verktaka í þjónustu sinni til þess að sleppa við launatengd gjöld og annað í þeim dúr, alveg þveröfugt við þá stefnu 365 sem birtist í þessum aðgerðum.

Nokkrir verktakar fengu einfalda uppsögn á samningi sínum í tölvupósti, hjá hinum var úthlutunin skert þannig að útilokað er að þeir geti lifað af því litla sem býðst. Það er auðvitað ígildi beinnar uppsagnar. Því er líklegt að innan skamms verði allir reyndustu þýðendur Stöðvar 2 hættir störfum.

365 reyndi að bera í bætifláka með því að lýsa því opinberlega yfir að uppsögn eins þýðandans yrði tafarlaust dregin til baka af persónulegum ástæðum. Mál viðkomandi vakti mikið fjölmiðlafár en þau viðbrögð breyta því ekki að sá þýðandi er í sama báti og við hin til lengri tíma litið.

Sú ástæða var einnig tilgreind á fundi með sviðsstjóra og yfirþýðanda að af öryggisástæðum væri ekki lengur hægt að útvista þýðingar. Nú hafa ALLIR þættir til þýðingar verið aðgengilegir ÖLLUM þýðendum (og reyndar öðrum starfsmönnum líka) í ftp-möppu á Netinu í á annað ár en ekki er vitað til þess að einn einasti starfsmaður hafi brugðist trúnaði svo þessi skýring hljómar eins og tylliástæða. Það má reyndar nefna að ætli menn að stela efni til birtingar, skiptir engu hvort um er að ræða verktaka eða fastráðinn starfsmann, leiðir finnast alltaf.“

Að lokum þetta: Staða verktakans er alltaf háð óvissu. En í hartnær 18 ár hefur ríkt sá gagnkvæmi skilningur að Stöð 2 (nú 365) sem réði okkur til starfa, nyti forgangs í verkefnaröðinni.  Við höfum haft ákveðin verkefni og gætt þess á móti að standa í skilum, vinna vel, oft utan venjulegs 9-5 vinnutíma vegna eðlis verkefnanna og virt trúnað og gerum það auðvitað áfram. Samskiptin hafa alltaf verið góð og þarna starfar gott fólk sem maður saknar. Ég efa ekki að samstarfið geti haldið áfram, bara með nýjum forsendum. Þannig er líf verktakans.

Hannes Hafstein á lokaorðin:

„Og stormur þurrkar segl í svip
þótt setji’ um stund í bleyti,
og alltaf má fá annað skip
og annað föruneyti.“

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Úr skjóðu þýðandans -V Bréf til 365

  1. Bakvísun: Uppsögn á áskrift | Málbeinið

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.