Úr skjóðu þýðandans -X- Hundraðogellefta meðferðin

Gott mál er gott mál. Lestur góðra bóka fyllir mig ánægju og vellíðan og sjaldan er góð vísa of oft kveðin. Að sama skapi eru lélegar bækur tímasóun og leirburður á hvorki erindi á blað né í munn. Góð kvikmynd er augna yndi og vel unnin þýðing eykur ánægjuna. Prúðuleikarnir urðu t.d. vinsælir á sínum tíma vegna frábærrar þýðingar Þrándar Thoroddsen. Fleiri dæmi mætti nefna. Þannig er vönduð þýðing virðisaukandi fyrir alla.

Sl. föstudagskvöld var ég einn heima framan af og ákvað að horfa á mynd með Frost lögregluforingja á Stöð 2 Gull. Fljótlega fóru skjátextarnir að ergja mig og ég sótti skrifblokk og penna og hóf skráningar á því sem betur mátti fara. Þýðingin var svo slæm að ég var ekki viss um efni myndarinnar fyrr en eftir rúman hálftíma. Niðurstöður rannsóknarvinnu eru þessar:

  • Þetta er aðkeypt þýðing hjá 365 sem kemur tilbúin og kóðuð í hús. Svona þýðingar fást fyrir lítið, þykja spara tíma og peninga, en sanna hið fornkveðna að verð endurspeglar gæði. Áður fyrr var farið yfir svona handrit innanhúss, þau prófarkalesin og villur lagfærðar í tugatali og ef þýðingin þótti ónothæf, var verkið falið einhverjum þýðanda fyrirtækisins. Ég tók svona verkefni oft að mér og hef því gott viðmið, get jafnvel sagt að ég þekki „verstu“ þýðendur landsins betur en mig langar. En nú er svona endurskoðun ekki stunduð og engir haukfránir prófarkalesarar með pennann á lofti í Skaftahlíðinni.

Í þessari mynd voru um 900 skjátextar (áætlun). Ef allt er talið, málvillur, innsláttarvillur, stafsetningarvillur, rangar þýðingar og greinarmerkjavillur, færði ég alls 308 villur til bókar. Það er langt yfir eðlilegum villumörkum og ljóst að meintur þýðandi kann hvorki ensku né íslensku svo vel sé.

Rangar þýðingar eru eins og hundraðogellefta meðferðin. Þær valda misskilningi og koma í veg fyrir að áhorfandi njóti efnisins sem skyldi. Í þessari tilteknu mynd var ein persónan „lögreglumaður“ (reyndar undir fölsku flaggi) sem kemur sér í mjúkinn við alvörulöggurnar, spilar billjarð/snóker með þeim og verður tíðrætt um áhuga sinn á að komast í „læknaliðið“. Ég hélt því fyrst að hann væri læknir, mögulega í einhverri sérsveit bráðaliða eða lækna,  en heyrði loks að hann sagði Met. Það er stytting á Metropolitan Police í London eða lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, eins og við myndum segja hér heima þegar það á við. Skoðum önnur dæmi:

a)      „Mér skilst að hamingjuóskir séu skylda“ „I understand that congratulations are in order.“ Þarfnast ekki frekari skýringa.

b)      „Trail bike“: Þetta var þýtt sem „finnahjól, móterhjól og torfæruhjól“. Í síðasta tilvikinu sást hjólið á skjánum og frekar erfitt að tilgreina það með röngum hætti.

c)      „You bring him up to speed“: „Þú setur þetta í forgang.“

d)     „Nothing much to gain in these quarters“(Sagt um mann sem Frost taldi lítið á að græða varðandi upplýsingar): „Það er lítið að hafa í þessum stundarfjórðungum.“ (Ritað eftir minni).

e)      Varðstjórinn í lögreglunni var líka gerður að liðþjálfa, sá sem sagður var stupid, var dofinn, og „joyriders“ hétu skemmtiþjófar. „He was seen“ varð: Hann var séður.

Þetta eru sýnishorn. Af nógu var að taka.

Stafsetningarvillur eru sem eitur í beinum gamalla kennara. Dæmi: „Bíst, yndæll, kynkvöt, nýji, leyta, hálviti, ein hverru, hrisstingur, gerðiru, Fiestna, næi, afhverju, tilbaka, einhverru, þroskahefur……“ Og fleira og fleira. Greinarmerkjavillur voru of margar.

 

Kvikmyndin Die Hard 1 er alræmd meðal áhugafólks um slæmar þýðingar og ég þekki fólk sem notar hana sem hjálpartæki í drykkjuleik, þ.e. fær sér sopa við hverja ambögu. Ég mæli ekki með þessari mynd um Frost lögregluforingja í slíkan samkvæmisleik, því 308 sopar af áfengi á 100 mínútum fara víst illa með lifur og fleiri líffæri.

 

Auglýsingar

4 athugasemdir við “Úr skjóðu þýðandans -X- Hundraðogellefta meðferðin

  1. Ég hef dálítið gaman af nýyrðinu „skemmtiþjófur“ fyrir „joyrider“. Joyrider er einmitt einhver, oftast unglingur, sem stelur bíl bara til að keyra hann sér til skemmtunar, ekki til að selja eða nota við annan glæp.

  2. Bakvísun: Ný rannsóknarskýrsla | Pistlar Evu

  3. Bakvísun: Fagurgali forstjórans | Málbeinið

  4. Bakvísun: Ný rannsóknarskýrsla | Dindilhosan

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s