Samleið íþrótta og áfengis

Football Fans drink beer-1709748Frétt dagsins þarfnast samhengis og eftirfylgni sem hefur skort tilfinnanlega hjá fréttamönnum sem hafa rakið gang þessa áfengisátaks íþróttafélags í Reykjavík. Menn nota ýmsar aðferðir til að auka skemmtanagildi íþrótta og vanda umfjöllun um þær, eins og handboltasíðan Fimmeinn.is, varð alræmd fyrir. Þróttarar hafa róið á önnur og votari mið:

Reykjavíkurborg hafnaði í dag síðari umsókn Þróttara um staðsetningu bjórtjalds í Laugardalnum fyrir landsleik Íslands og Slóveníu á föstudaginn. Þróttarar dóu hins vegar ekki ráðalausir.

„Við höfum samið við Laugardalshöll um aðstöðu og þar eru öll leyfi til staðar. Það verður viðamikil og vonandi fjölmenn upphitun í anddyri gömlu hallarinnar,“ segir Jón Kaldal formaður Þróttar. Skemmtunin mun hefjast klukkan 16 og standa í tvær klukkustundir. Leikurinn sjálfur hefst á Laugardalsvelli klukkan 19.“

Í handbók ÍSÍ um gæðaviðurkenningu til félaga stendur meðal annars þetta:

„Mikilvægt er að íþróttahreyfingin sé trúverðug í fræðslu- og forvarnastarfi.
Áfengis- og eða tóbaksneysla á ekki að eiga sér stað í tengslum við íþróttastarf,
s.s.:
• áfengissala í tengslum við íþróttakeppni
• áfengisneysla í lokahófum
• reykingar og munntóbaksneysla á íþróttasvæðum
• áfengisauglýsingar á eða við velli“

Þróttur heyrir undir ÍSÍ og stefna sambandsins í forvörnum er á allra vitorði. En þar sem ljóst þykir að Þróttarar telja óþarft að taka mark á svona tittlingaskít, hafa þeir ákveðið að normalísera notkun áfengra drykkja í tengslum við kappleiki í íþróttum.

Nær alls staðar í grannlöndum okkar er barist gegn áfengi og neyslu þess á íþróttakappleikjum. Flestir fastagestir á leikjum þekkja vandræði sem fylgja ofdrykkju áhorfenda og meðfylgjandi hömluleysi. Jafnvel í bjórlandinu Þýskalandi er ekki seldur bjór á knattspyrnuvöllum og samkvæmt vitnisburði þeirra sem þar hafa farið á völlinn, er leitað á áhorfendum og bjór gerður upptækur.

Áfengi er „hluti af leiknum“ að sögn framleiðenda og seljenda þess og þar sem vitað er að lengi býr að fyrstu gerð, er auðvitað nauðsynlegt að ná neytendunum ungum. Ég fer stundum að horfa á dótturdóttur mína, rúmlega tólf ára, keppa í handbolta. Nú má ég kannski gera þá kröfu að geta keypt bjór fyrir leik og komist í góðan fíling fyrir leikinn. Þróttarar fá örugglega prik þegar fram líða stundir fyrir að hafa rutt brautina í þessum efnum.

Auglýsingar

8 athugasemdir við “Samleið íþrótta og áfengis

 1. Hér reyndar verður að taka fram að Íþróttafélagið Þróttur er ekki fyrirmyndarfélag ÍSÍ og því á þessi tilvísun í kröfur til fyrirmyndarfélaga ekki við. Til þess að fá slíka viðurkenningu þurfa íþróttafélög að sækjast eftir henni og uppfylla skilyrði sem sett eru til slíkra félaga.

 2. Sæll Gísli,

  fyrst að staðreyndum. Það er rangt hjá þér að ekki sé seldur bjór á knattspyrnuvöllum í Þýskalandi. Evrópumeistarar Bayern München eru með það sem þeir kalla bæverskar knæpur á heimavelli sínum Allianz Arena. Og þar er að sjálfsögðu drukkinn bjór (sá t.d. hér http://www.allianz-arena.de/en/fan-gastronomie/fan-treff/index.php)

  Annað Bundesliga lið, Schalke 04, hefur nefnt heimavöll sinn eftir bjórframleiðanda: Veltins Arena. Völlurinn tekur 60.000 manns í sæti og á leikdegi er meðalsala á bjór 52.000 lítrar. (sjá t.d. hér: http://en.wikipedia.org/wiki/Veltins-Arena).

  Og þá hingað heim. Íþróttahreyfingin hefur nú þegar drjúgar tekjur af samkomum þar sem áfengi er haft um hönd. Þekktasta dæmið er Þjóðhátíð í Eyjum, sem ÍBV stendur fyrir um verslunarmannahelgina. Auk þess má nefna mannmörg þorrablót og dansleiki sem íþróttafélög standa fyrir í húsakynnum sínum á hverju ári.

  Að horfa á fótbolta er fyrir löngu orðin afþreying á alþjóðlega vísu. Íslendingar geta keypt sér áfenga drykki þegar þeir sækja ýmsa aðra afþreyingu. Til dæmis þegar þeir fara í leikhús, á balletsýningu, í bíó eða á sinfóníutónleika. Það er einkennilegt ef fólki er síður treyst til að fara með áfengi í tengslum við fótboltaleik en þegar það fer á þessa viðburði.

  Þeir sem eru til ófriðs vegna áfengisneyslu á mannamótum eru það ekki vegna þess að þar er selt áfengi, heldur vegna þess að þeir eiga í vandræðum með áfengi.

  Það er svo rétt að minna á að ætlunin er ekki selja bjór á sjálfum leikvanginum, heldur í nágrenni hans í takmarkaðan tíma áður en leikur hefst.

  Með bestu kveðjum,
  Jón Kaldal, formaður stjórnar knattspyrnudeildar Þróttar.

  • Sæll og þakka þessa skýringu.
   Varðandi Þýskaland, voru heimildir mínar fólk sem hafði búið þar og stundað velli hist og her. Ábendingar í aðra veru eru kærkomnar. Rétt skal vera rétt.

   Tekjur íþróttahreyfingarinnar af áfengissölu í tengslum við dansleiki og þorrablót eru þekktar. Það sem stakk mig í þessu samhengi var annars vegar forvarnastefna ÍSÍ og tengsl íþrótta og vímuleysis, og hinsvegar sú fyrirmynd sem gefin er með þessu. Ég geri mér grein fyrir normalíseríngu áfengisneyslu í tengslum við ótal viðburði en taldi samt að sú hreyfing sem gerir út á annað en það, gæti sleppt því. Mér fannst Þróttur sækja þetta sérkennilega stíft miðað við það.

   • Stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um forvarnir og fíkniefni má lesa hér (http://isi.is/fraedsla/forvarnir/). Þegar þetta plagg var til umræðu á Íþróttaþingi 1997 lauk afgreiðslu þess með því að út var felldur kafli með fyrirsögninni „Styrkja þá ímynd að íþróttaiðkun og fíkniefnaneysla séu andstæður“, en þar var að finna eftirtalda liði:

    1. virkja afreksfólk í íþróttum sem fyrirmyndir barna og unglinga í heilbrigðu líferni
    2. vinna gegn áfengisneyslu iðkenda, þjálfara og leiðtoga í íþróttastarfinu, t.d. í æfinga- og keppnisferðum og áfengisneyslu áhorfenda í tengslum við íþróttakeppni
    3. vinna gegn neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna á skemmtunum sem fram fara á vegum íþróttahreyfingarinnar
    4. virða bann við auglýsingum á áfengi og tóbaki og birta ekki dulbúnar áfengis- og tóbaksauglýsingar í íþróttamannvirkjum, á keppnisbúningum eða á annan hátt er tengist íþróttum

    Þetta var sem sagt fellt út. Þar með lýsti ÍSÍ því yfir (sjá stefnuyfirlýsinguna) að neysla áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna eigi aldrei samleið með iðkun íþrótta, hvatti aðildarfélög sín til að festa í lög sín einarða afstöðu gegn allri slíkri neyslu og fól þjálfurum sínum að fræða þá iðkendur sem þeir þjálfa um áhrif (væntanlega skaðleg!) áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna á heilbrigði þeirra og árangur í íþróttum. Samtímis hafnaði ÍSÍ því hins vegar (sjá það sem fellt var út) að vinna gegn áfengisneyslu iðkenda, þjálfara og leiðtoga, t.d. í æfinga- og keppnisferðum, áfengisneyslu áhorfenda í tengslum við íþróttakeppni og neyslu áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna á skemmtunum sem fram fara á vegum hreyfingarinnar og lýsti sig óbeint reiðubúið til að fjármagna íþróttastarfið með birtingu dulbúinna áfengis- og tóbaksauglýsinga. Þetta flutti auðvitað þau skilaboð að íþróttahreyfingin vildi geta haldið áfram þeim tvískinnungi sem henni hefur verið legið hvað mest á hálsi fyrir í forvarna- og fíkniefnamálum; að lýsa göfugri stefnu á tyllidögum en hika ekki við að breyta á annan veg ef það hentar betur og ekki síst ef það skilar peningum í budduna.

 3. Borið hefur á hugtakinu strámaður í íslenskri umræðu undanfarna daga. Í ofangreindum pistli má greina a.m.k. tvo slíka. Í fyrsta lagi hafa uppátæki handboltasíðunnar fimmeinn.is ekkert að gera með umrædda umsókn Þróttar um bjórtjald. Í öðru lagi er áfengissneysla á kappleikjum 12 ára barna eitt. Áfengisneysla á landsleik fullorðinna, eða í tjaldi nálægt slíkum leik, er annað.

  Og eins og þegar hefur verið bent á er bjór víst seldur á knattspyrnuleikjum í Þýskalandi. Bjórframleiðendur eru líka oft meðal styrktaraðila þarlendra knattspyrnuliða. Hér má sjá hvaða bjórtegund hægt er að kaupa á hverjum einasta velli liða í þremur efstu deildum Þýskalands: http://www.bierspot.de/bier/bier_im_stadion/fussball/bundesliga.html

  • Þýski vinkillinn hefur verið ræddur hér að ofan eins og sjá má og hafa báðir eitthvað til síns máls.
   Varðandi strámennina:
   „Menn nota ýmsar aðferðir til að auka skemmtanagildi íþrótta og vanda umfjöllun um þær, eins og handboltasíðan Fimmeinn.is, varð alræmd fyrir“. Ég geri þá lágmarkskröfu að menn lesi það sem þeir gagnrýna.
   Varðandi aldursmörkin: Sjálfsagt er einhver munur á því að börn horfi á fullorðna keppa, ásamt öðrum fullorðnum sem drekka áfengi og því að fullorðnir horfi á börn keppa, og drekki hugsanlega áfengi fyrir leikinn til að njóta hans betur. Þetta er bitamunur en ekki fjár og meginreglan í báðum tilfellum er sú sama: Áfengi og íþróttir eiga samleið því áfengisneysla eykur ánægju áhorfenda af kappleiknum.

 4. Það má kalla það ósmekklegt en verður kannski skálað fyrir Hermanni Gunnarssyni í upphituninni fyrir leikinn? Ef spurningin er ósmekkleg, veltið því þá fyrir ykkur, hvað má segja um slíka skál?

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s