Samleið íþrótta og áfengis -II

Ég var með vottorð í leikfimi og sundi á menntaskólaárum mínum, aðallega vegna leti og ómennsku. Þegar ég þroskaðist, fékk ég áhuga á íþróttum og hef boðað fagnaðarerindi þeirra leynt og ljóst. Þá er stutt í klisjur eins og „Heilbrigð sál í hraustum líkama“ og annað ungmennafélagslegt. Í tilefni af harðfylgni Þróttara í stóra bjórmálinu, (sjá fyrri færslu) fannst mér einboðið að minna á stefnu ÍSÍ og vitnaði í hana:

Mikilvægt er að íþróttahreyfingin sé trúverðug í fræðslu- og forvarnastarfi.
Áfengis- og eða tóbaksneysla á ekki að eiga sér stað í tengslum við íþróttastarf,
s.s.:
• áfengissala í tengslum við íþróttakeppni
• áfengisneysla í lokahófum.“

Við nánari skoðun kom í ljós að þetta er tilvitnun í handbók ÍSÍ fyrir félög sem vilja fá gæðavottun. Fjölmargar ábendingar bárust mér eftir ýmsum leiðum um samleið áfengis og íþrótta sem bentu til þess að gæðavottun væri ekki eins eftirsóttur stimpill og halda mætti. Heilbrigða sálin í hrausta líkamanum þarf greinilega að vökva lífsblómið af og til, svo henni líði betur. Ég viðurkenni einfeldni mína og saga af mér fótinn.

Að öllu gamni slepptu, fannst mér athugasemd SM við fyrri færsluna nógu merkileg til að taka hana hér orðrétt upp:

„Stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um forvarnir og fíkniefni má lesa hér (http://isi.is/fraedsla/forvarnir/). Þegar þetta plagg var til umræðu á Íþróttaþingi 1997 lauk afgreiðslu þess með því að út var felldur kafli með fyrirsögninni “Styrkja þá ímynd að íþróttaiðkun og fíkniefnaneysla séu andstæður”, en þar var að finna eftirtalda liði:

1. virkja afreksfólk í íþróttum sem fyrirmyndir barna og unglinga í heilbrigðu líferni
2. vinna gegn áfengisneyslu iðkenda, þjálfara og leiðtoga í íþróttastarfinu, t.d. í æfinga- og keppnisferðum og áfengisneyslu áhorfenda í tengslum við íþróttakeppni
3. vinna gegn neyslu áfengis, tóbaks og fíkniefna á skemmtunum sem fram fara á vegum íþróttahreyfingarinnar
4. virða bann við auglýsingum á áfengi og tóbaki og birta ekki dulbúnar áfengis- og tóbaksauglýsingar í íþróttamannvirkjum, á keppnisbúningum eða á annan hátt er tengist íþróttum

Þetta var sem sagt fellt út. Þar með lýsti ÍSÍ því yfir (sjá stefnuyfirlýsinguna) að neysla áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna eigi aldrei samleið með iðkun íþrótta, hvatti aðildarfélög sín til að festa í lög sín einarða afstöðu gegn allri slíkri neyslu og fól þjálfurum sínum að fræða þá iðkendur sem þeir þjálfa um áhrif (væntanlega skaðleg!) áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna á heilbrigði þeirra og árangur í íþróttum.

Samtímis hafnaði ÍSÍ því hins vegar (sjá það sem fellt var út) að vinna gegn áfengisneyslu iðkenda, þjálfara og leiðtoga, t.d. í æfinga- og keppnisferðum, áfengisneyslu áhorfenda í tengslum við íþróttakeppni og neyslu áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna á skemmtunum sem fram fara á vegum hreyfingarinnar og lýsti sig óbeint reiðubúið til að fjármagna íþróttastarfið með birtingu dulbúinna áfengis- og tóbaksauglýsinga. Þetta flutti auðvitað þau skilaboð að íþróttahreyfingin vildi geta haldið áfram þeim tvískinnungi sem henni hefur verið legið hvað mest á hálsi fyrir í forvarna- og fíkniefnamálum; að lýsa göfugri stefnu á tyllidögum en hika ekki við að breyta á annan veg ef það hentar betur og ekki síst ef það skilar peningum í budduna.“ (SM)

Viðbót frá lesanda sem var á íþróttaþinginu og fylgdist með afgreiðslu þessa máls:

„Ég hef sjaldan séð íþróttaforystuna engjast jafn mikið yfir nokkru máli eins og þegar verið var að afgreiða þetta plagg á Íþróttaþingi. Mörgum var sjálfsagt ljós tvískinnungurinn, en menn þorðu ekki að standa beinir í baki þegar peningar gátu verið í húfi, auk þess sem sumir þeirra þingfulltrúa sem beittu sér hvað mest fyrir því að fella þennan kafla út áttu beinna fjárhagslegra hagsmuna að gæta.“

Mér fallast hendur.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.