Drullureiðin mikla

BláalónsþrautkortmyndAð hjóla á malbiki er góð skemmtun.

Ég hef lítið hjólað í möl og drullu og fann það í Bláalónsþrautinni í fyrra, sem var frumraun mín utan vega,  að ég var smeykur við lausamölina, einkum niður brekkur, þar sem ég fór jafnan fetið meðan aðrir létu vaða. Samt var ég þá á grófum skófludekkjum og hefði að ósekju getað farið hraðar. Hjólið var og er þungt, sennilega um 15-16 kíló, stálfákur frá liðinni öld og hefur nú vikið fyrir Cyclocross-hjóli, léttum karbónfola með götuhjólseiginleika á grönnum en grófum dekkjum. Fátt er betri hvatning en nýtt hjól. Ég gat ekki annað en skráð mig og samkvæmt umtali verður nú fjallað um þessa fjallabaksleið, sem byrjar og endar á malbiki.

Sólarhringslöng magapest er letjandi fyrir keppni en klukkutíma fyrir startið mætti ég á staðinn með þeim fyrirvara að snúa við eftir malbikið því ekki nennir maður að hægja sér til baksins á bersvæði. Nokkur ár eru síðan ég hætti því innan borgarmarkanna. Því var ég frekar aftarlega í byrjun og hugsaði minn gang upp Krísuvíkurveginn en þegar ég sá að fyrsta brekkan var troðin og slétt eftir rigningu og akstur rallbifreiða, var ekki aftur snúið. Ég ákvað að klára og hafa til vara þann möguleika að fá húsfreyjuna til að sækja mig við Suðurstrandarveginn. Til þess kom þó ekki.

Fyrsta boðorðið í BL er: Ekki detta að óþörfu. Maður gætir sín á skorningum, heldur sig þar sem vegurinn er hæstur og þéttastur og hefur varann á niður bröttustu brekkurnar. Ég brýndi þetta fyrir vinkonu minni í fyrra og hún datt. Núna var ég örlítið hugaðri þótt enginn væri demparinn að framan en ríghélt í stýrið og lokaði augunum (eða þannig). Á sléttu köflunum naut hjólið sín vel, enda fislétt og þar náði ég þeim sem ég missti af niður brekkurnar. Fór reyndar fram úr um 30 manns eftir Djúpavatn og að brekkunni upp á malbikið. Vegurinn var mjög blautur og haugdrullugur og pollar víða. Sumir keppendur voru svo óhreinir í markinu að ég þekkti þá ekki.Bláalónsmyndpollur

Í síðustu bröttu malarbrekkunni stóð til að fara varlega en þá voru bremsurnar orðnar blautar og gripu ekkert. Fyrir vikið fórum við félagar hraðar en góðu hófi gegndi og endasentumst milli hjólfara til að lenda ekki á grjótinu. Við komumst heilir niður og ég öðlaðist nýja trú á gripeiginleikum dekkjanna. Á þessum kafla var maginn líka orðinn góður og mér leið undurvel, fannst gaman að hjóla og fara fram úr.

Þegar á malbikið kom, kláraði ég úr kókbrúsanum mínum og tíndi upp eina fimmtán sem voru á undan mér upp lengstu brekkuna og lét síðan vaða niður að Grindavík meðan hraðamælirinn sýndi 62 km. Það var ekki leiðinlegt. Eftir það náði ég öllum sem ég sá nema einum.

Niðurstaðan varð 12 mínútna bæting og 231. sæti, sem ég er mjög sáttur við. Að loknu súpuáti og stífri drykkju hjólaði ég heim í notalegri rigningu og hugsaði um hvað hefði nú verið skynsamlegt að muna eftir skóhlífunum. Ég kom nokkurn veginn tímanlega í kvöldmat, þeið býfurnar í sjóðheitu baðinu í hálftíma og fann endorfínið svella í skrokknum.

Ég reikna með að fara aftur að ári. Allir sem hjóli geta valdið, ættu að prófa þetta. Maður þarf ekki að flýta sér þótt sumir geri það.

2 athugasemdir við “Drullureiðin mikla

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.