Öfgar eða róttækni?

„Hafa skal það sem hljómar verr.“

Fréttir íslensku netmiðlanna af frægum leikurum eru yfirleitt yfirborðskenndar og kjánahrollsvekjandi með áherslu á útlit, klæðnað eða klæðleysi og skreyttar tittlingaskít sem viðkomandi hefur látið frá sér fara á fésbók eða tvitter. Tilvitnanir eru slitnar úr samhengi og útkoman í anda Gúgul Transleit, en fingraför þessa lipra sumarliða sjást víða á miðlunum. Og jafnvel þegar Gúgull fær gott efni upp í hendurnar, er útkoman hörmung.

Kanadíska leikkonan Ellen Page er eins ólík Kim Kardashian og hugsast getur. Hún er róttæk og tjáir skoðanir sínar umbúðalaust á hitamálum samfélagsins, hefur lítinn áhuga á að tjá sig um kjóla, skó, förðun og mataræði eins og vinsælt er að ræða við stöllur hennar vestanhafs og víðar.  Þetta endurspeglast í viðtali við hana í Guardian fyrir skömmu. Þarna er margt vel mælt og ástæða til að hvetja til lesturs. En það eina sem visir.is fannst ástæða til að birta var þessi klausa:

„Ég skil ekki af hverju fólk er tregt til að viðurkenna að það sé femínistar. Kannski er sumum konum alveg sama…. En það er augljóst að við búum enn við mikið feðraveldi þar sem orðið femínismi þykir skammaryrði,“ segir leikkonan og bætir við: „Femínismi er oft tendur (sic) við öfgahreyfingar – gott. Þetta á að vera öfgafullt. Ég er sammála mörgu sem femínistar áttunda áratugarins sögðu.“

Þetta er þýðingin. Frumtextinn er svona:

„But how could it be any more obvious that we still live in a patriarchal world when feminism is a bad word?“ she asks in her quiet voice that belies the firm opinions it is often expressing. „Feminism always gets associated with being a radical movement – good. It should be. A lot of what the radical feminists [in the 1970s] were saying, I don’t disagree with it.“

Það hlálega við þetta litla textabrot er að sá eða sú sem snaraði því, svarar eiginlega spurningunni í fyrstu línunni. „Ég skil ekki af hverju…“. Hugsjón femínista er jafnrétti, gagnkvæm virðing og fleira sem kenna má við hálsaskógarleg viðhorf. Þetta pirrar marga ósegjanlega sem eyða ómældum tíma í að draga upp neikvæða mynd af jafn sjálfsögðum hlut og til er fólk sem hefur helgað líf sitt því að finna femínisma allt til foráttu. Einn liður í því eru gildishlöðnu orðin. Það er jákvætt að vera róttækur, eins og Ellen Page segir í viðtalinu. Að kalla viðhorf hennar öfgafull er gildishlaðin „þýðing“ fréttamannsins.

Þessi færsla átti upphaflega að vera um lélegar þýðingar en meðan beðið er uppstyttu er tilvalið að svara því af hverju þeim sem skrifa tugi pistla til höfuðs femínisma er ekki svarað oftar en raun ber vitni. Ástæðan er umburðarlyndi. Vantrúarfólk reynir ekki að snúa Gunnari í Krossinum. Heilbrigðismenntað fólk sér engan tilgang í að ræða við Jónínu Ben um dítoxið og Snorri í Betel má hafa skoðanir sínar á samkynhneigð í friði. Ég held að alþýða manna sjái gegnum bullið. Það dæmir sig sjálft, eins og þeir sem undir það taka.

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Öfgar eða róttækni?

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.