Skerjafjarðarhátturinn

Ég held stundum fésbókarbulli mínu til haga og í dag varð ég þess var að skáld í Skerjafirði hafði rift sambandi okkar þar. Það væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég tel tilefnið hafa verið athugasemd mína við skammargrein hans um meintar limrur Sifjar Sigmarsdóttur.  Alvaran að baki henni var ekki mikil og daginn eftir var athugasemdin gleymd, enda er ríkjandi skammtímaminni fésbókar styttra en skott á meðalketti. Það eina sem ég gleymdi að nefna var að limran í greininni úr forðabúri skáldsins, sem á að vera Sif til fyrirmyndar, er alls ekki góð.

Af því ég hafði ekkert annað að gera meðan ég sötraði úr seinni kaffibolla dagsins, ákvað ég að kveðja skáldið með kvæði undir áhrifum af skáldskap hans, sem er oft það fyrsta sem ég les á fésbókinni í morgunsárið.  Bragarhátturinn heitir því Skerjafjarðarháttur og til að kæta skáldið er viljandi laumað ambögum og hortittum inn í kvæðið, eins og glöggir lesendur sjá. Einna mest er stungin tólg í fyrstu línunum en líkingin með vörtunni bætir það upp.

Í huga mínum fer ég yfir farin vegarsporin
fyrir framan skjáinn með sút í brotnu hjarta
og þjáningin er eins og af mér hafi varta
með illa brýndum hnífi verið burtu skorin

því við sem áttum samleið, eigum enga lengur,
annar hefur rofið á fésbókinni heitin
á lista dagsins vantar nú ex í efsta reitinn
sem áður prýddi vandaður sómakvæðadrengur

ekki kann ég utanbókar rímsins fornu fræði
og fengið hef að rogast með ambaganna byrði
en hugsa núna blíðlega til skálds í Skerjafirði
að skilnaði mun tileinka honum þetta kvæði.

Þessa færslu mína sá Jakob Bjarnar, blaðamaður á Vísi.is og spurði um tilefnið sem ég upplýsi í athugasemd. Að svo búnu fór ég af bæ til að sinna erindum en heimkominn varð ég þess var að færslan hafði orðið Jakobi að frétt á Vísi. Þar er ein athugasemd orðin að nokkurra daga deilum og framsetning þannig að halda mætti að Jakob hefði átt við mig viðtal. Hið rétta er að við Kristján höfum ekki skipst á skoðunum um þetta mál og aðspurður í fréttinni kveðst hann ekki þekkja mig. Það er líka rétt. Við höfum einu sinni verið sessunautar á hagyrðingakvöldi ónefnds stjórnmálaflokks og varla hægt að kalla okkur vini fyrir vikið. En nú er meint gúrkutíð í netmiðlum og þá er tjaldað fleiru en því sem til er. Mér er þetta græskulausa gaman Jakobs að meinalausu.

Af hverju Skerjafjarðarháttur? Mér datt nafnið í hug eftir lestur á tugum kvæða KH á fésbók sem eiga það sameiginlegt að vera eiginlega um ekki neitt. Það er galli. En kannski er ég svona skyni skroppinn að finna ekki kjarna og boðskap í því sem sett er fram í góðum hug.  Ég er hins vegar viss um að Aron nokkur Eilífs, skáld sem ég var kynntur fyrir á liðnum vetri, hefði gaman af Kristjáni. Því miður hittumst við Aron ekki lengur síðan sameiginlegur vinur okkar kvaddi þennan heim, en ég veit að hann vakir yfir mér. Það er önnur saga.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s