Mánakaffi í Caldeshreppi

Hér í Caldeshreppi er vinsæll matsölu-og drykkjarstaður sem selur tapas og annað gúmmilaði, svo sem soðna kýrvömb, en eftir henni er lítil spurn. Við höfum smakkað margt annað á boðstólum þar og einn rétturinn varð til þess að nú köllum við staðinn Mánakaffi.

Í árdaga var rekinn greiðasala á Ísafirði sem nefndist Mánakaffi. Þar var hægt að kaupa franskar kartöflur í vaxhúðuðum ýsuflakakassa og var væn sletta af kokkteilsósu í horninu. Þetta afgreiddi í æskulýð bæjarins Bernharð veitingamaður sem var hinn vænsti maður. Hann var jafnan í snotrum framreiðslujakka sem hefur eflaust verið hvítur í byrjun janúar en þegar ég fékk minn fyrsta kartöflukassa í hendur, var farið að vora og Bernharð bar iðju sinni glöggt vitni, sem og nánum kynnum af djúpsteikingarfeitinni. Þetta voru skikkanlegar kartöflur, hugsanlega hrærðar úr dufti og skildu eftir fituskán í efri gómi. Mánakaffi seldi drjúgt af þeim þetta vor.

pat brav
Þetta rifjaði ég upp fyrir nokkrum kvöldum þar sem ég bað um Patatas Bravas með svaladrykknum mínum. Þær komu á borðið næstum eins og hér sést á myndinni, sagðar vera með kryddaðri tómatsósu, en sú reyndist vera kokkteilsósa að íslenskum hætti. Þetta voru alvöru kartöflur, vel kryddaðar og bragðmiklar og mér fannst við fyrsta bitann að ég væri aftur kominn að Mánakaffi á Ísafirði, bara með betri kartöflur.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.