Mitt fegursta orð er fundið

Nú er boðað til leitar um land allt hjá alþýðu manna að fegursta orði íslenskunnar. Ég hef séð tugi tillagna á netmiðlum í dag og öll þessi orð eru góð fyrir sinn hatt en verða innantóm, merkingarlítil og snautleg ein og sér. Ég finn ekki fegurð í stökum orðum án samhengis, en get tárast af hrifningu yfir áhrifamiklum ljóðum, snjöllum líkingum, meitluðum og samfelldum texta og fæ enn í hnén ef ég sé vel ort sléttubönd. En af því ég er félagslyndur og mjákvæður á köflum, vil ég leggja mitt af mörkum. Þetta er mín tillaga:Nei Þetta orð er aldrei ofnotað, kemur í veg fyrir undirlægjuhátt og þóknunargirni, almenna lausung og gagnrýnisleysi sem hin eilífa jákvæðni elur á, og með markvissri notkun verður það eftirsótt aðhald og ögunartæki sem þjóðin þarf á að halda. Segjum nei. Fögnum neiinu. Finnum jákvæðnina í neiinu. Með neii hefði mátt koma í veg fyrir hrunið, ótal pólitískar ráðningar og bitlinga og ómögulega alþingismenn. Með neii myndi neyslutengdum, áunnum kvillum og sjúkdómum fækka til muna. Svo mætti lengi telja. Hefjum neiið til vegs og virðingar! Segjum NEI!

4 athugasemdir við “Mitt fegursta orð er fundið

  1. Eg aðhyllist rómantísku stefnuna og finnst að við eigum að velja á milli:
    a) vordægur
    b) sólstafir
    c) fjallalækur
    d) blámóða
    e) sóldögg

Skildu eftir svar við Eva Hauksdóttir Hætta við svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.