Uppsögn á áskrift

Í vor sagði ég nokkrar sögur undir yfirskriftinni „Úr skjóðu þýðandans“.  Þungamiðja þeirra var þessi sem er enn í gildi nema niðurlagið á varla við lengur. Ég var þá beðinn að segja ekki upp formlegum samningi mínum við 365 þar sem fyrirtækið vildi geta gripið til mín, ef húsþýðendur réðu ekki við álagið. Ég féllst á það þótt það breytti engu um hlutskipti mitt og annarra verktaka. Við fengum engin verkefni. Þær breytingar urðu svo innanhúss í Skaftahlíð að deildarstjóra flutningssviðs (sem áður hét yfirmaður þýðingadeildar) var sagt upp, sjálfsagt í sparnaðarskyni. Það er lítið sem hundstungan finnur ekki.

Í gærmorgun skoðaði ég yfirlit reikninga í heimabankanum og hringdi síðan af rælni í þjónustuver 365 til að skera niður áskriftargjöld mín með uppsögn á íþróttastöðvunum sem ég horfi ekki lengur á. Þar fékk ég að vita að fyrirtækið hefði orðið fyrr til og sagt mér upp áskriftinni frá og með morgundeginum, þrátt fyrir þessa fullyrðingu starfsmanns: “ Við segjum ekki upp áskrift nema einhver hringi inn og biðji um að hætta í áskrift.“ Um leið var fullyrt að margoft hefði verið reynt að ná í mig til að segja mér frá þessu.  Það er lygi.

Í samtali við þjónustuverið kom einnig í ljós að ég hafði verið tekinn af starfsmannaskrá, sem er afgerandi viljayfirlýsing af hálfu fyrirtækis sem í vor vildi hafa mig tiltækan. Því var einboðið að slíta formlega með uppsögn á verksamningi þessu rúmlega 17 ára samstarfi, sem hófst með handsali haustið 1995.  Við sama tækifæri var afþökkuð endurnýjun á áskrift á öllu hærra verði en starfsmenn njóta. Ég tel mig seinþreyttan til vandræða en fannst nóg komið að sinni.

Í fréttum af gengi 365 staldrar maður við viðskiptavildina sem er metin á 5,5 milljarða.  Þetta er há tala. Viðskiptavild er t.d. það  fjárhagslega verðmæti sem felst í því að eiga hóp fastra viðskiptavina. Viðskiptavild er einnig gott orðspor fyrirtækis, gott innra skipulag og góð sambönd við verkalýðsfélög eða félagasamtök. Þetta er huglægt mat og endurspeglar álit eigenda á fyrirtækinu og meint álit viðskiptavina. 365 hefur yfirleitt reynt að fjölga áskrifendum að hausti. Þessi viðsnúningur kemur á óvart en það er sosum enginn héraðsbrestur þótt fækki um einn áskrifanda hér við Sædýrasafnið. Talnaspekingar geta svo spreytt sig á því að reikna út lækkun á viðskiptavild 365 sem þetta hefur í för með sér.

 

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Uppsögn á áskrift

  1. Ja, margt er skrýtið, svo ekki sé meira sagt. Mér finnst eins og Stöðvar tvö menn séu á einhverskonar sjálfseyðingarleið. Hef heldur dapurlega reynslu af viðskiptum við þá sem endaði auðvitað með því að ég skilaði afruglara og hét því að eiga ekki samskipti við þá meir.

    Ég var áskrifandi frá upphafi stöðvarinnar á grundvelli samkeppnisviðhorfa. Var svokallaður 12 m kúnni í mörg ár og gerði aldrei hlé á því fyrr en fyrir tveimur árum að ég gafst upp þegar lokað var á útsendingu, sem þó hafði verið greidd, vegna þess að eigandi afruglara hafði ekki fengið sínar kr. 500 eða 600 greiddar tímanlega. Fékk svo huggulegt símtal í fyrra einhvern tíma þar sem mér var boðin sumarbústaðaáskrift. Mjög ,,næs“ en eftir nokkra mánuði var lokað á hana. Eftirgrennslan við ákaflega fýlulegan þjónustufulltrúa leiddi í ljós að ekki væri leyfilegt að vera ,,bara“ með sumarbústaðaáskrift! Þegar ég benti viðkomandi á að mér hafði verið boðin hún skyldi blessuð manneskjan ekkert í því og sagði að það hlyti að hafa verið mistök. Semsagt, Stöð tvö leggur greinilega enga áherslu á að viðhalda samskiptum við viðskiptavini sína.

    Ég er núna hamingjusamur áskrifandi að fjölvarpi Símans og mun ekki þiggja nein ,,boð“ frá Stöð tvö eftirleiðis. Fannst niðurlægjandi að hafa verið viðtakandi mistakasímatals um þjónustu.

    Gott hjá þér Gísli.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s