Vændiskaup og viðskiptasiðferði

Miklar umræður hafa orðið um úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sem var kærður til Hæstaréttar, staðfestur þar á mettíma og saksóknari snupraður frekar óblíðlega í leiðinni. Umræðan hefur einkum snúist um einn málsaðilann, 16. ára stúlku, en þegar rýnt er í dómsúrskurðinn kemur fleira í ljós. Til að enginn þreytist á lestri lagagreina, eru helstu atriðin feitletruð.

Hinn 21. janúar 2013 höfðaði ríkissaksóknari mál á hendur þremur einstaklingum.
Fyrsti kafli ákærunnar er á hendur tveimur einstaklingum þar sem ákært er fyrir rán samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga.

252. gr. Hver, sem með líkamlegu ofbeldi eða hótun um að beita því þegar í stað tekur af manni eða neyðir út úr manni fjármuni eða önnur verðmæti, kemur undan hlut, sem verið er að stela, eða neyðir mann til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, sem hefur í för með sér fjárhagstjón fyrir þann mann eða aðra, skal sæta fangelsi ekki skemur en 6 mánuði og allt að 10 árum. Hafi mjög mikil hætta verið samfara ráninu, getur refsingin þó orðið allt að 16 ára fangelsi.

Í 2. lið ákærunnar er ákærða (stúlkan)  ákærð fyrir hlutdeild í fjársvikum og hylmingu
eins og nánar er lýst í ákæruliðnum. Er háttsemi hennar talin varða við 248. sbr. 20. gr. og 1. mgr. 254. gr. almennra hegningarlaga.

248. gr. Ef maður kemur öðrum manni til að hafast eitthvað að eða láta eitthvað ógert með því á ólögmætan hátt að vekja, styrkja eða hagnýta sér ranga eða óljósa hugmynd hans um einhver atvik, og hefur þannig fé af honum eða öðrum, þá varðar það fangelsi allt að 6 árum.

Vísað er í 20. greinina:
20. gr. Hver sá, sem tekið hefur ákvörðun um að vinna verk, sem refsing er lögð við í lögum þessum, og ótvírætt sýnt þann ásetning í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að framkvæmd brotsins, hefur, þegar brotið er ekki fullkomnað, gerst sekur um tilraun til þess.
Fyrir tilraun til brots má dæma lægri refsingu en mælt er um fullframin brot. Skal það einkum gert, þegar af tilrauninni má ráða, að brotamaðurinn sé ekki eins hættulegur og vilji hans ekki eins harðnaður og ætla má, að sé um menn, sem fullfremja slík brot.
Ef hagsmunum þeim, sem verknaður beinist að, eða verknaðinum sjálfum er svo háttað, að tilraunin hefði ekki getað leitt til fullframins brots, má ákveða, að refsing skuli falla niður.

254. gr. Ef maður heldur, án þess að verknaður hans varði við ákvæði 244., 245. eða 247.–252. gr., ólöglega fyrir eigandanum hlut eða öðru verðmæti, sem aflað hefur verið á þann hátt, er í þeim greinum segir, tekur þátt í ávinningnum af slíku broti, aðstoðar annan mann til þess að halda slíkum ávinningi eða stuðlar að því á annan hátt, að halda við ólöglegum afleiðingum brotsins, þá skal honum refsað með allt að 4 ára fangelsi. (Úr hegningarlögum)

Mál þetta var skilið í sundur og hefur þáttur þeirra tveggja einstaklinga sem ákærðir eru samkvæmt 1. lið ákæru verið lokið með dómi.
Hinn 21. janúar 2013 gaf lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu út ákæru á hendur ákærðu þar sem ákært er ,,fyrir fjársvik með því að hafa, mánudaginn 1. október 2012, mælt sér mót við A utan við […] í […] í því skyni að ná fjármunum af honum en X hafði fyrr um kvöldið verið í samskiptum við hann á vefsíðunni einkamal.is og boðið honum vændi gegn greiðslu fjármuna. Fjársvikin framkvæmdi hún með þeim hætti að hún óskaði eftir að hann myndi greiða henni kr. 20.000.- í reiðufé í gegnum glugga á bifreið hans en eftir að hann hafði reitt fjárhæðina fram tók hún til fótanna og hljóp á brott.“(Úr dómsúrskurði)

Eftir allar þessa tilvitnanir má rýna í atburðarásina.Þetta er tilgáta: 3 ungmenni eru kærð fyrir að hafa 20.000 kr af manni sem hann réttir einu þeirra út um bílglugga. Tvö þeirra  hirða peningana og eyða þeim. Stúlkan er peðið í málinu, sem er því tekið í sundur og hin eru dæmd sér og þeirra máli er þegar lokið með dómi. Ákæruvaldinu finnst ótækt að sleppa stúlkunni alfarið og því er hún kærð fyrir tvíþætt brot og það er dómtekið. Ef aðdragandinn er tekinn út úr jöfnunni, rændi hún 20.000 krónum.  Fyrir dómi bendir verjandinn á það sem fram kemur í úrskurðinum. Halda mætti að saksóknara hafi ekki komið þessi túlkun laga til hugar í undirbúningi málsins.

„Ákærða var 16 ára gömul er atburðurinn sem um getur í ákæru lögreglustjórans dagsettri 21. janúar 2013 átti sér stað. Sé lýsing ákærunnar rétt er ljóst að um svik var að ræða af hálfu ákærðu. Ástæðan er sú að hún efndi ekki kynlífsviðskiptin.
Samkvæmt 206. gr. almennra hegningarlaga varðar það sektum eða fangelsi allt að einu ári að greiða fyrir vændi. Viðsemjandi ákærðu framdi því refsiverðan verknað með vændiskaupunum en háttsemi ákærðu í þeim er ekki saknæm.
Það er mat dómsins að vændiskaup viðsemjanda ákærðu, sem var barn að aldri, njóti ekki réttarverndar 248. gr. almennra hegningarlaga þótt um vændiskaupin hafi farið eins og lýst er í ákærunni. Vændiskaupandinn gat ekki vænst verndar refsivörslunnar þótt um viðskiptin hafi farið eins og lýst er í ákærunni. Önnur skýring á efni 248. gr. almennra hegningarlaga leiddi til þess að eini möguleiki ákærðu til að losna frá refsiábyrgð hafi verið sá að standa við kynlífsþjónustuna sem um ræðir. Að mati dómsins er sú niðurstaða ótæk.“ (Úr dómsúrskurði).

Sá sem er svikinn í ólöglegum viðskiptum, getur ekki kært þau, þar sem efnd á viðskiptunum felur í sér annað brot. Um það vitnar þessi 2 ára gamla frétt. Þar er ekki stokkið til, fólk handtekið, kært og dregið fyrir dóm, heldur gerir lögreglan létt grín að öllu saman. Miðað við fjölmiðlafárið undanfarna daga hlýtur einhver hjá lögreglunni að óska þess heitt og innilega að sama leið hefði verið farin í ofangreindu máli.

Kvartaði undan lélegum fíkniefnum

Eftir allan þennan lestur stendur það eftir að fullorðinn maður vildi kaupa sér afnot af líkama barnungrar stúlku, gegn greiðslu. Stúlkan hirðir peningana og stingur af. Manninum finnst hann svikinn í viðskiptum, líkt og meinti fíkniefnakaupandinn og leitar til lögreglu. Brot eða tilraun til brots beggja blasa við. Í öðru tilvikinu er kært og málinu fylgt eftir til Hæstaréttar þar sem úrskurður á báðum dómstigum sýnir ákæruvaldið í afar neyðarlegu og skammarlegu ljósi, leiðir í ljós lélegan málatilbúnað og Hæstiréttur er enda fljótur að kveða upp úrskurð sinn.

Maður getur ekki annað en spurt hvaða áhrifamaður átti í hlut sem fær slíka flýtimeðferð í dómskerfinu og allt út af skitnum 20 þúsund krónum, sem eru rúmlega hálftíma kaup lögmanns hjá slitastjórn banka og varla tímakaup þekktra stjörnuverjenda. Sjálfsagt er hans máli lokið, eftir þessa skýlausu játningu og úrskurð tveggja dómstiga um brot hans (sjá feitletrun).

Aðrir hafa rifjað upp að hér varð hrun og í eftirmála þess sé nauðsynlegt að efla viðskiptasiðferði þjóðarinnar heilt yfir. Í því skyni hafi lögreglu og saksóknara þótt tilvalið að hirta stúlkuna fyrir framgöngu sína og að standa ekki við gefin loforð. Vörusvik eru háalvarlegur glæpur og ber að fylgja slíku máli eftir af fullum þunga í kerfinu. Til þess eru vítin að varast þau. (Óþarfi að vitna í fleiri klisjur en af nógu er að taka). En þetta sýnir fáránleika málsins og engin furða að dómstólaráð vilji draga mjög úr birtingum dóma á netinu.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.