Ekkert svar

Tvo vetur var ég í Útsvarsliði Hafnarfjarðar, mér til mikillar skemmtunar og vonandi öðrum. Þá gekk á ýmsu, við gerðum mistök og stóðum reglulega á gati og fyrri veturinn ruglaðist ég á Emil í Kattholti og Línu langsokk og liðið mitt tapaði 15 stigum út af því þegar upp var staðið. En við unnum samt í það skipti og því slapp ég við aðkast nærsamfélagsins þegar heim var komið. Við vorum álíka klaufsk í látbragðsleiknum og sumir eru núna í samhljóðasúpunni en allt slapp þetta til og við komumst alltaf í þriðju umferð. En fyrst og fremst var þetta gaman, líka þegar við töpuðum. Við vorum alltaf til stuðsins.

Í haust var margt stokkað upp í Útsvarinu og inn komu nýir liðir, orðarugl og samhljóðasúpa, sem báðir eru góðir og fyrir augað.  Að öðru leyti hafa spurningar þyngst til muna og oft er dansað á narðarlínunni þegar viðkomandi fróðleiksmoli er á fárra vitorði. Þetta bitnar á þættinum, sem uppfyllir ekki lágmarkskröfur um afþreyingargildi hér við Sædýrasafnið.

Fyrir viku náðu liðin að svara 3 spurningum af 10 í fyrsta hluta. Núna gekk þeim örlítið betur í byrjun en eftir það skildi á milli. Það er ógaman að sjá fólk standa á gati hvað eftir annað því það er niðurdrepandi og fyrir þættinum fer eins og kviðsíðri Fokker á flugvelli, kemst aldrei á loft og farþegarnir óska þess í hljóði að þeir hefðu ekki farið suður til að taka þátt í þessum ósköpum.  Mér hefði liðið þannig í gærkvöldi í liði Ísafjarðarbæjar sem náði 10 stigum með harmkvælum. Þetta var vont sjónvarp. Ég hef verið í skemmtilegri jarðarför.

Svona spurningaþáttur á næstbesta útsendingartíma á að vera á léttum nótum þar sem fólk hlær og kankast á og áhorfendur heima í stofu vita slatta af svörum og fylgjast spenntir með.  Spurningarnar eiga að vera léttar framan af. Það eykur á spennuna,  brúnin léttist á keppendum og áhorfendum í sal og stjórnendur  hafa minna fyrir að halda uppi  fjörinu.  Undir lokin mega spurningarnar  þyngjast til að skilja á milli liðanna. Stigaskor má vera frekar hátt því það er mælikvarði á skemmtigildið. Það er engin skömm að tapa ef maður nær sínum 50-60 stigum (Útsvarsmælikvarði). Allir fara hressir heim.

Í Útsvörum liðinna ára hefur verið venjan að þyngja spurningarnar þegar á líður og færri lið eru eftir. Verði þeirri reglu fylgt í vetur, er næsta víst að stigaskorið lækki með tilheyrandi áhrifum á skemmtigildið og ákveðnu hástigi verður náð þegar spurningahöfundur er sá eini á landinu sem veit svarið.

19 athugasemdir við “Ekkert svar

 1. mikið er ég sammála þér…. Útsvar er ekki nándar nærri eins skemmtilegt og það var, og sannarlega ekki fyrir alla fjölskylduna…. Vonandi verður þessu breytt aftur!!

 2. Sammála. Ég held að aukið áhugaleysi á Gettu betur keppnunum sé líka af sömu ástæðu. Maður vill geta svarað einhverjum spurningum heima í stofu

 3. Algjörlega sammála,voða lítið gaman að horfa á fólk standa á gati í lengri tíma.Stundum lítill munur á tveggja stiga spurningum og 15 stiga. Mikil afturför.

 4. Allt rétt hér að ofan. Útsvarsþátturinn er gjaldþrota. Grunnhugsunin að gera skemmtiþátt er farinn og hafa þetta alþýðulegt,- gufað upp. Skemmtanagildið er ekki síst falið í því að við sem heima sitjum glímum við spurningarnar með þeim í sjónvarpssal. Nú er það farið .. fyrir löngu. Verðu ekki að breyta þessu strax..!

 5. Mikið er ég sammála. Allir stressaðari. Engin nær að brosa og gantast sem var svo skemmtilegt í fyrri Útsvörum.Þetta var uppáhaldsþátturinn minn en ég veit ekki í hvað hann stefnir!

 6. Spurningarnar eru alltof þungar. En ég er afskaplega fegin að bjöllukapphlaupið og leikþættirnir eru ekki lengur. Sérstakleg er gott að vera laus við þetta óskemmtilega bjöllukapphlaup. Ég gat svarað öllum spurningunum um ítölsku kvikmyndaleikkonurnar, en engri af öðrum spurningum. Kannski aðeins einhverju í samhljóðasúpunni.

 7. Algerlega sammála. T.d. er enginn erfiðleikamunur á 5, 10 eða 15 stiga spurningunum og hefur reyndar aldrei verið.

 8. Sammála og mér fannst þetta strax í fyrsta þættinum í haust. Skemmtanagildið hefur minnkað til muna með breyttum þætti. Spurningarar eru of þungar í fyrri hluta þáttar. Þær þurfa að dreifast á langan skala , m.a. til að börn og unglingar og fólk með minnkandi minni ( minnkar jú eftir 50 árin ) geti a.m.k. spreytt sig á helmingi spurninganna.

 9. Sammála þér, það er ekki lengur ætlast til þess að áhorfendur heima í stofu geti tekið þátt í að svara spurningum í þættinum, og þess vegna nenni ég ekki lengur að sóa mínum tíma í að horfa á Útsvar.

 10. Svo sammála!! Þátturinn er ekki svipur hjá sjón! Það vantar sárlega leikinn og hlaupin í þáttinn sem gerði hann að frábæru sjónvarpsefni. Til hvers að breyta því sem virkar vel? Svo er þessi spurningahöfundur alveg afleitur. Það á að breyta þessu til fyrra horfs strax!

 11. Ég er algjörlega sammála það er verið að eyðileggja þáttinn með svona erfiðum spurningum og ekki yrði ég hissa þótt sú staða kæmi upp að menn neituðu að taka þátt í, eg vil segja þessari vitleysu ,.
  Eg hringdi suður í sjónvarp í dag til að kvarta og það ættuð fleiri að gera það er synd að vinna að eiðileggingu svona góðs þáttar með því að hafa spurningarna of flóknar og erfiðar .
  vona að þið sem sjáið um þátti takið ykkur á .

  þettað VAR þáttur sem maður hlakkaði til að horfa á .

  Jón F Sigurðsson Hjarðarholt Fnjóskadal

 12. Innilega sammála, var einmitt að hugsa í gærkvöldi þessi þáttur er búinn að vera með þessu áframhaldi, Ég nenni ekki að sitja og horfa á spurningaþátt þar sem enginn getur svarað neinu booooring á „góðri“ íslensku og hvatning til að skipta yfir á aðra stöð.

 13. ég er algerlega sammála þessu. Í gær var ekki gaman að horfa á þáttinn sem við í minni fjölskyldu höfum skemmt okkur yfir og oft getað margt.

 14. Verð að viðurkenna að ég nenni ekki lengur að horfa á þetta – og var orðin doldið þreytt fyrir löngu síðan.

 15. Til að gæta sanngirni vil ég segja þetta: Stefán er ágætur spurningahöfundur, sjófróður og lesinn og ég met hann mikils. Breytingar á þættinum frá fyrri árum eru til bóta. Mér fannst látbragðsleikurinn óþarfur. Það þarf nefnilega ekki mikið til að gera þáttinn góðan. Þetta er sjónvarp og á að vera myndrænt og líflegt.

 16. Sammála! Þetta er umtalað og harðasta „Útsvarsfólk“ er farið að bölva hversu leiðinlegt þetta er orðið þegar fólk veit ekki nema brot af svörunum!

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.