Mjólkurkvótinn í Skaftahlíð

Meiðyrðamál eru í tísku. Eina slíka kæru fékk ritstjóri DV í sextugsafmælisgjöf. Tilefnið var Sandkorn í DV í byrjun mánaðarins, sem fjallaði um 365.  Þar segir:  „Fréttablaðið var með ágæta umfjöllun um skuldir fjölmiðla á miðvikudag. Þar var farið ítarlega og af alúð ofan í eiginfjárstöðu einstakra miðla og lánshæfi. Athygli vekur að ekki er greining á uppblásnum efnahag 365 sem á og rekur Fréttablaðið. Þar er endursýningarréttur á sjónvarpsefni metinn á yfir milljarð króna. Sú aðferð til að auka lánshæfi félagsins með bólutækni er rakin til skuggastjórnandans, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar. Loks er Fréttablaðið metið á uppblásnu verði.“

Þessi ummæli eru metin á 4 milljónir en til að gæta sanngirni er rétt að hjálpa kæruglöðum forstjóranum að finna fleiri matarholur. Aðrir fjölmiðlar hafa fjallað um stöðuna í Skaftahlíðinni án þess að fá stefnur í afmælisgjöf. Til að gæta sanngirnis er rétt að kæra þá alla. Það eykur líkur á arðsemi og nýtir krafta lögmannsins betur.

1. október, 2013,  rýndi Mbl í rekstrarhæfi fyrirtækisins og sagði frekar pent að eignir þess dygðu ekki fyrir skuldum ef kæmi til uppgjörs og að endurskoðendur drægju rekstrarhæfi þess í efa. Rekstrarhæfi er t.d. að eiga fyrir launum starfsfólks, geta greitt birgjum og staðið í skilum með afborganir. Í grein Mbl. kemur fram að eignir 365 eru tæpir 10 milljarðar en það segir ekki alla söguna. Viðskiptablaðið rakti hana nánar haustið 2010, en fór þó ekki í saumana. Þar reyndi Stefán Hilmarsson fjármálastjóri að útskýra hvernig bókfærðar eignir 365 hækkuðu um 4,4 milljarða á einu ári. Þessi hækkun er fyrst og fremst tala á blaði því um er að ræða svonefnda viðskiptavild.

„Hækkunina má rekja til kaupa Rauðsólar (nánar ef smellt er á tengilinn)  á öllu hlutafé 365 miðla fyrir 5,9 milljarða króna,“ segir Stefán. 

„Á þeim tíma var eigið fé 365 miðla um 1,1 milljarður króna og mismunur á kaupverði og eigin fé færður sem viðskiptavild. Síðan er það svo að þegar búið er að færa viðskiptavildina með þessum hætti til bókar þá þarf að gera virðisrýrnunarpróf sem Capacent sá um fyrir okkur. Niðurstaða prófsins var sú að virði óefnislegra eigna er um 9,4 milljarðar króna. Það er rúmlega 3 milljörðum krónum hærra en þær eru metnar á núna.“

Stefán segir að hækkun óefnislegra eigna megi því rekja til þeirra viðskipta sem áttu sér stað. „Það var raunverulegur kaupsamningur og raunverulegar greiðslur. Félagið var metið á 5,9 milljarða króna þó eigið fé hafi verið um 1,1 milljarður.

Því er undirliggjandi eign í félaginu, þ.e. sjóðstreymi til framtíðar sem er grunnurinn í virðisrýrnunarprófinu,“ segir Stefán. Hann segir kaupverðið mjög hátt en ljóst af virðisrýrnunarprófi að viðskiptavildin standi undir sér.“

Heildarskuldir 365 nema 7,6 milljörðum króna. Þar telur bankalán frá Nýja Landsbankanum mest, en bankinn lánaði Rauðsól rúmlega 4,8 milljarða króna. Það lán var síðan fært yfir til 365 þegar Rauðsól var sameinað félaginu. Lánið er á gjalddaga árið 2015.“

Ég er enginn viðskiptafræðingur en þykist samt skilja hvað fjármálastjórinn á við, þótt hann reyni að klæða það í bókhaldsbuxurnar. Mig furðar líka á því að Viðskiptablaðið hafi ekki gert tilraun til að gagnrýna svona málflutning á þessum tíma. Þetta heitir á mannamáli að skúffufyrirtækið Rauðsól fékk lán til að kaupa 365 á yfirverði til að koma fé inn í reksturinn bakdyramegin.  Á pappírunum jukust eignir félagsins þegar það eignaðist í raun bara skuldir. Árið 2010 dugðu efnislegar eignir ekki fyrir skuldum og sú staða hefur frekar versnað síðan.  Kýrnar í fjósinu mjólka eins og venjulega en æ færri vilja vera í áskrift að dropanum, þykir hann dýr og fólk vill skipta við netbændur og aðra sem bjóða betur. Og þar með hriktir í verðmætagrunninum, rekstrarforsendum búsins, eins og fjármálastjórinn segir sjálfur hér að ofan í skýringum á kaupverði og hárri viðskiptavild.   Viðskiptavild er t.d það  fjárhagslega verðmæti sem felst í því að eiga hóp fastra viðskiptavina. Viðskiptavild er einnig gott orðspor fyrirtækis, gott innra skipulag og góð sambönd við verkalýðsfélög eða félagasamtök. Þetta er huglægt mat og endurspeglar álit eigenda á fyrirtækinu og meint álit viðskiptavina.  Þegar þessum föstu viðskiptavinum fækkar, liggur beint við að lækka ofmetna viðskiptavildina sem því nemur. En það verður ekki gert því þar með yrði staðfest enn breiðara bil milli eigna og skulda og þá styttist í að tæknilegt gjaldþrot verði raunverulegt. Það er ekki nóg að eiga mjólkurkvóta ef spurnin eftir mjólkinni er lítil.

Ítarefni: Um viðskiptavild í fyrirtækjum eftir Stefán Svavarsson hagfræðing.

 

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s