Sjónvarp í jarðarför

Á skokki mínu um Stór-Hafnarfjarðarsvæðið ber margt fyrir augu og eyru. Ég hleyp ekki með tónlist í eyrunum og vil geta heyrt umhverfishljóðin á öllum árstímum. Ég skil úrið eftir heima og Garmíngræjan sem mælir hjartslátt, vegalengd og allt þar á milli, rykfellur uppi í hillu. Mér finnst gaman að hlaupa/hjóla/synda með skemmtilegu fólki en þess á milli vil ég vera einn með hugsunum mínum. Meðan ég kenndi, hreinsaði síðdegisskokkið krítarrykið úr hausnum og leysti vandamál. Mér leiddist aldrei.
Þetta viðhorf er ekki allra og sjálfsagt gamaldags og þuskennt. En fyrir vikið hef ég getað skoðað umhverfi mitt ótruflaður í hartnær 30 ár og þrátt fyrir athyglisfrestinn, tek ég eftir fleiru en aðvífandi köttum. Sífellt fjölgar álúta fólkinu sem verður á vegi mínum með barnavagna, hunda, skólatöskur, matvörupoka, á heimleið úr vinnu eða skóla, að bíða eftir einhverju, einhverjum, einhvers staðar. Með símann í lófanum. Aldrei dauður tími. Engum þarf að leiðast, ekki eina einustu mínútu. Ég sé kveikt á símum í bíó til að athuga stöðuna á Fésbókinni. Í leikhúsinu slær oft ljósbláum bjarma á þreytuleg andlit leikhúsgesta sem hafa tapað þræðinum fyrir hlé en kunna ekki við að ganga út, því það er víst lágmenningarlegt athæfi. Í uppklappinu kveikja þeir æstustu á símanum og byrja að hringja á leiðinni að dyrunum („Hvar ert þú? Ég er í leikhúsi“). Snjallsímaökulagið er auðþekkt, því handfrjáls búnaður er víst ekki til fyrir smáskilaboð og takkastrokur. Og fyrir þetta fólk sem þolir ekki dauðan tíma, hefur áunninn athyglisbrest eða athyglisrest, er ný þjónusta í boði. Fullkomið afþreyingarsamfélag er framundan með tilheyrandi sælu. Þetta verður eitthvað.
Sjónvarp símans 2
Ég hef ekkert á móti því að fullnægja afþreyingarþörf óþolinmóðra og eirðarlausra en hlýt að draga mörkin einhvers staðar. Ég vil t.d. ekki að tannlæknirinn minn gleymi sér yfir Frends eða Simpson í símanum mínum og bori óvart gegnum kjálkann. Það ku vera vont.

Sjónvarp símans
Þarna eru taldar upp nokkrar góðar aðstæður til að horfa á sjónvarpið í símanum, sjálfsagt allar góðar, þótt ég sé hrifnastur af knattspyrnuleik í beinni á Listasafninu, því þar ríkir yfirleitt notaleg þögn og hana er tilvalið að rjúfa með beinni útsendingu á bikarkeppni erlendra liða. En á listann vantar fleiri tilefni. Foreldrar fermingarbarna sem verða að mæta í minnst tíu messur í vetur, geta nú stytt sér og barninu stundir með krassandi spennuþætti og löng ferming líður hratt með hjálp kvikmyndar. Við útfarir er tilvalið að horfa á Six Feet Under og bið á rauðu ljósi verður aldrei pirrandi hér eftir. Prófayfirsetur verða eftirsóttar og þegar ég fer í löggildingarprófið mitt í febrúarbyrjun, hefur yfirsetufólkið tíma til að horfa á tvær kvikmyndir í fullri lengd.

Að vísu verða alltaf einhverjir sem setja þetta fyrir sig og skilja ekki truntulegan nútímann en það er ekkert við því að gera. Ég sé ótal sóknarfæri. Þrátt fyrir langa umhugsun finn ég engar aðstæður þar sem er ekki við hæfi að drepa tíma með síma.

Auglýsingar

3 athugasemdir við “Sjónvarp í jarðarför

  1. Um þetta símaapp er það að segja að Radiotjänst í Svíþjóð, sem rukkar inn afnotagjöld þarlendra, tók upp á því fyrr í ár að rukka eigendur snjallsíma og spjaldtölva um afnotagjald þar sem hægt er að horfa á sjónvarp í þeim. Það varð talsverður hávaði en mig minnir að ákvörðunin standi. Hvað ætli íslenskir tækjaunnendur segi þegar þeim verður gert að borga nefskatt fyrir tækin sín?
    Jón

  2. Íslenskir tækjaeigendur borga nú þegar nefskatt til Ríkisútvarpsins og þar sem nefjum þeirra fjölgar ekki þótt tólunum fjölgi munu þeir ekkert finna fyrir auknum álögum.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s