Í feldinn fyrir jólin

2013-12-10 15.19.17
Brandur Brönduson
2013-12-10 15.19.02
Depill Sigurður Högnason

Eins og flestum ungum börnum er ljóst, skipta kettir um skinn um svipað leyti og tímabært er fyrir ungviði í gistingu á kattaheimili að fara í náttföt og bursta tennur. Leiftursnöggt svipta þeir af sér dagskinninu og smeygja sér í náttskinnið. Svo skjótir eru þeir að þessu að gaumgæfa þarf hátterni þeirra að loknum kvöldverði, helst fylgjast með hverri hreyfingu og laun þolinmæðinnar eru að verða vitni að skinnskiptum. Árla morguns er síðan farið úr náttskinni og í dagskinnið. Þetta eru svo fastir liðir hér við Sædýrasafnið að heimilisfólk er hætt að taka eftir. En nú líður að jólum og þá huga kettir að jólafeldinum svonefnda, því spariskinn nefnist feldur þegar fagnað er hækkandi sól. Sumir halda upp á afmæli Jesú um svipað leyti, þó ekki með jafnmiklu sukki og á krossfestingarhátíð kappans. En það er önnur saga.

Þegar ég klíndi smjörklípu á eldri köttinn daginn sem frostið var mest og sendi hann út til þess að smáfuglarnir fengju eitthvað gott í gogginn (smjör er meinhollt), tók ég eftir því hvað hann fyllti vel út í skinnið sitt, enda löngum þótt stórbeinóttur. Sá yngri verður eins, enda tilbiðja þeir þurrmatarsekki og blautmatarkassa og ganga reglulega til altaris við eldhúsbekkinn.

Ég hef orðið var við nokkrar áhyggjur hjá þeim félögum um að komast ekki í feldinn þegar líður að kveldverði á aðfangadag og er ekki laust við að gæti áhrifa átakspostula sem kunna að skafa eða sjúga mör af fólki til að það geti troðið sér í einhverjar tilteknar flíkur fyrir jólasteikurnar. Sú var tíðin að jólabuxurnar mínar voru númer 30. Þegar ég komst ekki í þær í byrjun desember eitt árið og sá fram á harðræði, svelti og korsilett í gúlagkenndu megrunarátaki, fékk ég hugljómun og keypti buxur númer 32. Þessi tala hefur síðan hækkað. Enn er ekki komið að því að átakið „Sjáðu tólin fyrir jólin“ höfði mögulega til mín en ég hef einnig fyrirhafnarlausa lausn á því vandamáli. Ný gleraugu eða lengri handleggir.

Allt þetta útskýrði ég fyrir köttunum núna áðan með þeim árangri að nú eru þeir næsta vissir um að komast í jólafeldinn. Þessu var fagnað með millimálabita úr gula pokanum og síðan lögðu þeir sig. Engin vandamál. Bara lausnir.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.