Um bækur og brækur

PíkutorfanÉg tek nær aldrei þátt í fésbókarleikjum en gerði það þó fyrir nokkrum dögum þegar farið var fram á 10 bækur sem væru manni eftirminnilegar eða áhrifamiklar. Minn listi varð til milli kaffisopa og á honum var t.d. markaskrá Reykjarfjarðarhrepps, ævisaga Kristmanns og óútkomið handrit. Í kjölfarið varð til þessi listi yfir brækur og er helmingurinn á honum lygi.

Brækur sem hafa haft mótandi áhrif á líf mitt og eru eftirminnilegar:
1. Ullarbrók sem ég átti í sveitinni.
2. Hvít, frekar víð stuttbrók, sem ég notaði samfleytt í þrjár vikur í raflínulögninni forðum daga.
3. Aðskorin bómullarhlaupabrók með dónalegri mynd að framanverðu.
4. Svört hlaupanærbrók með mikið einangrunargildi.
5. Hjólabrók með þykkum setgeira.
6. Efnislítil Spídósundbrók sem ég hlífi nærsamfélaginu við að sjá.
7. Hippamunstursbrókin sem ég átti á Sigtúnsárunum.
8. Djókbrók með brandara að aftanverðu (sem verður ekki hafður eftir)
9. Svört boxerbrók sem rifnaði vegna þrýstings…
10. Bleik brók sem ég fór óvart í, endur fyrir löngu.

Aftur að bókunum. Tíu bækur eru eins og upp í nös á ketti, en vegna umræðna í kjölfarið ákvað ég að endurgera listann af meiri alvöru en áður og leyfði mér þann munað að hugsa. Þetta varð niðurstaðan:

Ísold svarta (Kristmann Guðmundsson): Þessi bók og aðrar sem flokkast undir ævisögu KG, var til í sveitinni og mótaði viðreynslutilburði mína við hitt kynið fram eftir aldri. Í þeim efnum er Kristmann annars verri en enginn. Eftir á að hyggja hefðu foreldrar mínir átt að taka þessar bækur af mér, barnungum og ómótuðum.
Heilsurækt og mannamein: (Ýmsir höfundar): Við bræðurnir urðum fyrir umtalsverðum sjúkdómsáhrifum af þessari bók og fengum beri-beri eitt sumarið, sem er annars hörmulegur hitabeltishúðsjúkdómur. Við vorum ekki sendir til læknis.
Brave New World (Aldous Huxley): Fyrsta erlenda bókin sem ég eignaðist (1971) og var allan veturinn að stauta mig í gegnum hana. Hún vakti áhuga minn á útópíum og dystópíum.
Brennu-Njálssaga: Finnur Torfi kenndi Njálu í MÍ á svo lifandi og skemmtilegan hátt að ég heillaðist gersamlega. Síðan hef ég lesið hana að jafnaði einu sinni á ári og endursagði hana nemendum mínum í Öldutúni. Sumir brynntu músum við að heyra örlög Þórðar Kárasonar.
Vegurinn til lífsins (A S Makarenko): Þorbjörg amma lét mig lesa bæði bindin og þessi saga af hugsjónamanni í gömlu Sovétríkjunum gerði mig þokkalega sósíalískan.
Barnæska mín (Maksím Gorkí): Amma benti mér líka á hana. Amma réði lestri mínum á menntaskólaárunum.
Vetrarbörn (Dea Trier Morch): Fyrsta bókin sem ég gaf öðrum. Þá voru börnin hér á bæ frekar lítil og þessi hugljúfa bók er snjáð af lestri.
Kvennaklósettið (Marilyn French): Á hana vantar kjölinn. Hún er marglesin og afar viðhorfamótandi. Seinna tók heimasætan við henni og las spjaldanna á milli með tilheyrandi áhrifum.
Píkutorfan:(Linda Norman Skugge, o.fl.) Krassandi femínistabók sem kom út um aldamótin.
Hungurleikaserían (Suzanne Collins): Fyrsta rafbókin sem ég eignaðist og varð svo hugfangin af aðalsöguhetjunni að ég keypti íslensku þýðingarnar jafnóðum og þær komu út og gaf dótturdóttur minni. Hún er jafn hrifin og ég.

Ég hef alltaf legið í bókum og margar hafa haft áhrif á mig, mismunandi mikil. Ég vona líka að minn lestur og bókablæti hafi haft áhrif á aðra í nærsamfélagi mínu. Þessi listi gæti hæglega náð í 100 en vegna aðvífandi smákökubaksturs verður nú látið staðar numið.

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Um bækur og brækur

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s