Jafnrétti Orkuveitunnar

JafnrettisradJafnréttisráð veitti viðurkenningar sínar í gær og í tilkynningu um það frá velferðarráðuneytinu kemur margt merkilegt fram. Þetta er gott mál og þeim líður vel sem fá lof og blómvendi fyrir vel unnið starf.  Jafnréttisráð tekur við rökstuddum tilnefningum og velur. Mér skilst að margar hafi borist. Þetta varð niðurstaðan. Hér verður staldrað við eitt atriði, sem er jafnréttisviðurkenning Orkuveitu Reykjavíkur. Rökstuðningurinn er svohljóðandi:

„Orkuveita Reykjavíkur er þjónustufyrirtæki þar sem starfa að jafnaði um 400 manns. Orkuveita Reykjavíkur hlaut jafnréttisviðurkenninguna árið 2002 en þykir vel að henni komin aftur. Hjá fyrirtækinu hafa á þeim tólf árum sem liðin eru orðið töluverðar breytingar á innviðum og starfsemi en augljóst er að stjórnendum hefur á tímabilinu orðið ljós gagnsemi þess að hafa jafnrétti kynjanna ávallt að leiðarljósi. Í ljósi þess að orkugeirinn er karllægur geiri var fyrir þrem árum tekin sú ákvörðun hjá stjórnendum fyrirtækisins að gera breytingar í þá veru að nýta starfskrafta beggja kynja jafnt, meta kynin jafnt og veita kynjunum jafna möguleika. Fyrirtækið vildi vera öðrum fyrirtækjum í geiranum fyrirmynd, standa vörð um hlut kvenna og breyta viðhorfum til staðalmynda kynjanna. Í því skyni hefur fyrirtækið unnið að almennri kynjasamþættingu í starfseminni auk þess að uppfylla lagaskyldur og hafa í gildi metnaðarfulla jafnréttisáætlun með aðgerðum sem tryggja starfsfólki réttindi samkvæmt lögum. Með kynjasamþættingu er tekið mið af jafnréttissjónarmiðum við stefnumótun og stærri ákvarðanir og unnið er að því að efla jafnréttisvitund starfsfólks. Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa með ábyrgri ákvörðun um breytingar sýnt hvernig slík ákvörðun getur orsakað viðhorfsbreytingu, haft áhrif í fyrirtækinu sjálfu og samfélaginu almennt.“

Þessi texti virðist tekinn beint upp úr tilnefningu OR til viðurkenningarinnar því ég á bágt með að sjá hvernig Jafnréttisráð hefur komist að þessari niðurstöðu án ítarlegrar úttektar á þeim breytingum sem virðast hafa verði gerðar hjá fyrirtækinu. Orðalagið er mjög almennt og merkingarlítið, svipað og maður rekst á í stefnu ríkisstjórnar eða stjórnmálaflokks, nógu loðið til að virka sannfærandi en samt er fátt handbært. Gaman hefði verið að fá tölur og dæmi og eitthvað er tínt til á síðu OR á netinu og ekki efast ég um góðan vilja þar á bæ að standa sig. En samt er ekki annað hægt en að staldra við nokkur atriði í tilefni dagsins (Föstudagur um land allt):

1) OR fékk viðurkenninguna 2002 fyrir „frumkvæði og markvisst starf í jafnréttismálum“ (Ársskýrsla OR 2002). Árið  2006 voru konur 19% stjórnenda. Í ljósi þess hve margar breytingar hafa að sögn verið gerðar síðan og að stjórnendur uppgötvuðu á þessum tíma gagnsemi þess að hafa jafnrétti að leiðarljósi, vaknar spurningin: Var viðurkenningin 2002 verðskulduð?

2) OR er talið til tekna að fara að lögum. Þ.e. „nýta starfskrafta beggja kynja jafnt, meta kynin jafnt og veita kynjunum jafna möguleika.Fyrirtækið vildi vera öðrum fyrirmynd…“ Einnig kveðst fyrirtækið uppfylla lagaskyldur, sem ætla mætti að væru sjálfgildið í rekstrinum og ekki þurfi að taka það sérstaklega fram. Skilaboðin eru: Farið að lögum og fáið viðurkenningu fyrir það. Þetta er eins og að fá Fálkaorðuna fyrir að mæta í vinnuna.

3) Jafnrétti OR í tölum: Konum í hópi stjórnenda hefur fjölgað í 42%. Óútskýrður launamunur er enn 4%. Tölur vantar um skýrðan launamun. En þessum óútskýrða stendur til að eyða. Þá er einboðið að fyrir það komi viðurkenning. Jafnvel frá Jafnréttisráði.

4) OR vill gjarna vera fjölskylduvænt fyrirtæki en viðurkennir að í þeim efnum sé „talsvert enn í land.“ Þar getur verið við ramman reip að draga en viðleitnin er lofsverð. Fjölskylduvæn fyrirtæki eru til fyrirmyndar. Þegar settu marki er náð, má íhuga viðurkenningu.

Jafnrétti Orkuveitunnar er reyndar svo augljóst að ekki þarf á að benda, en ég geri það samt. Í gjaldskrá er ekki gerður greinarmunur á kynjum. Konur og karlar borga sama verð fyrir orku og hafa þar að auki sama aðgang að henni og möguleika á svipuðum afnotum.  Þegar óskað verður eftir tilnefningum til jafnréttisviðurkenningar Málbeinsins, kemur OR sterklega til greina.

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Jafnrétti Orkuveitunnar

  1. Bakvísun: Jafnrétti Orkuveitunnar -framhald | Málbeinið

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s