Skotleyfi og persónuníð

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.“

Þetta er fyrirvari á vef DV við fréttir þar sem ritstjórnin telur rétt að bjóða lesendum að tjá sig. Seinni hlutinn gefur til kynna einhvers konar ritstýringu, sem er vel, því góð athugasemd bætir við efni fréttarinnar, opnar á spurningar og vangaveltur, bendir á aðrar hliðar, vísar í nýjar heimildir, o.s.frv. Lesendur njóta góðs af virkri þátttöku og miðillinn verður betri fyrir vikið.

Lífssýnasöfnun Kára Stefánssonar og DeCode hefur fengið marga til að tjá sig á samfélagsmiðlunum. Fólk er ýmist hrifið eða finnur ótal vankanta. Sumir henda gaman að, kalla söfnunarfólkið slefbera og þykjast ætla að senda sýni úr heimilisdýri. Ég kvaðst t.d. hafa skafið góm kattarins hér á bæ og sett í hólkinn. Aðrir hafa nefnt páfagauka og hunda í þessu sambandi og má  hverjum með gripsvit vera ljóst að þarna er grín á ferðinni. DV hefur löngum vakað eins og fálki yfir víðlendum fésbókar í fréttaleit sinni og tók eftir einni hugmynd af mörgum:  „Viðar Þorsteins sagðist ætla að skila saursýni. “ (feitletrun mín) Þetta er sagt í löngum umræðuhala og sjálfsagt hefur saursýni verið nefnt víðar inn á milli rökstuddrar gagnrýni á þessa upplýsingasöfnun einkafyrirtækis í gróðaskyni. Og einhvers staðar á netinu hefur Hildur Lilliendahl tekið undir með Viðari.  Það fannst DV efni í frétt. Málefnaleg gagnrýni og græskulaust grín annarra komst ekki á blað. En HL er gott smellafóður og virkir í athugasemdum opnuðu flóðgáttirnar:

„Hatrið í þessari konu er endalaust..-feministi ársisins? Eða var það hálviti ársins? Whatever-það vill einginn hlusta á þig leingur, svo ég mundi bara loka munninum. Þú ert þjóðini til skammar.-Éttu bara skít sjálf Hildur.-Hún þyrfti nu bara að hrækja i bolla enda bara skitur sem kemur úr henni.-Hidur, ég ráðlegg þér að kynna þér málin áður en þú kemur með yfirlýsingar og sleggjudóma!!-

Þessar athugasemdir skipta tugum og eru margar verri en það sem hér er tilfært. Sú síðasta er feitletruð. Henni hefði vel mátt beina til þeirra sem tóku þátt í þessu skítkasti í boði DV, lásu bara fyrirsögnina og létu svo allt vaða sem upp úr þeim vall.  Skoðanir HL hafa löngum vakið mikil viðbrögð og DV hefur fengið tugi þúsunda smella fyrir umfjöllun sína um þær. En hér er tilgangurinn annar og öllu verri, einkum sá að gefa virkum í athugasemdum skotleyfi á persónuna. Ef Viðari Þorsteinssyni verið slegið upp með mynd og tilheyrandi, hefðu viðbrögðin orðið svipuð? Hann átti þessa hugmynd og úr því að DV vildi koma henni á framfæri, hefði verið einboðið að láta hann njóta heiðursins. En það hefði ekki fært DV ámóta smellafjölda og ekkert hefði orðið úr persónuníðinu því Viðar er ekki umdeildur.

Skoðanir HL eru þekktar, einkum á jafnrétti, femínisma, mannréttindamálum, netníði, svo eitthvað sé nefnt. Ég er henni oftast sammála, stundum ekki og stundum mjög ósammála. Ég ætla að vona að mér takist jafnan að greina á milli persónu fólks og skoðana þess og fara í boltann en ekki manninn. Facebook er fjölmiðill, opinber vettvangur og DV, FB og MBL taka oft upp mál og mola sem þar koma fram. En þegar lúsaleit blaðamanna snýst upp í persónulegar ofsóknir og sértilboð á ærumeiðingum, er mál að linni.

Netmiðill, sem getur ekki staðið við eigin fyrirvara og lætur ærumeiðingar og ósæmileg og rætin ummæli um nafngreinda einstaklinga standa óhreyfð, setur niður og tapar trúverðugleika. DV hefur staðið sig vel í fréttaflutningi og verðskuldar lof fyrir. En að skapa vettvang fyrir persónuníð ber vott um „grimmt og guðlaust hjarta.“

Viðbót kl. 14:00.

Við „fréttina“ á DV stendur nú þetta:

Athugasemdir eru ekki leyfðar við þessa frétt

Viðbót II: 15:20
Ummæli HL af vegg HK
Almennt er litið svo á að séu færslur/innlegg/glósur á FB stilltar á public/opinbert, sé heimilt að vitna í þær sem slíkar. Allt annað hlýtur að vera háð heimild.

Ummælin sem urðu DV efni í þessa „frétt“ voru á læstum vegg Hildar Knútsdóttur. Hún sagði af þessu tilefni: „Ég sé ekki betur en að þessi ummæli Hildar séu tekin upp af þræði á Facebook-veggnum mínum, sem er nótabene alveg harðlæstur og því alls ekki opinber vettvangur. Og mér finnst ansi harkalegt ef Hildur Lilliendahl Viggósdóttir má hvergi vera án þess að vera undir smásjá fjölmiðla.“

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s