WOW-hrifin -1. kafli

Mynd fagnaðarerindi Ég er kominn í sumarfrí og þá er einboðið að rifja upp ævintýri sumarsins sem fólst í því að hjóla fjórðung af hringveginum (330) á tæpum tveimur sólarhringum ásamt góðum félögum í WOW-Cyclothon. Trausti Valdimarsson gaf liðinu nafnið Járnafar og kjörorðin sem sjást á meðfylgjandi mynd. Með okkur voru Pétur Helgason og Sigurður Sigurðarson. Við ákváðum þetta í vetur og reyndum að æfa vel, því markmiðið var að klára með bros á vör, án þess að ganga of nærri sér. Það gekk eftir og við erum nógu ánægðir með árangurinn að vilja endurtaka þetta einhvern tíma. Hér verður stiklað á stóru.

Kostnaður: Þátttökugjald er 50 þúsund. Bíll, kerra, eldsneyti og matur eru á bilinu 200-350 þúsund, eftir því hvað leigður er veglegur bíll. Við vorum heppnir að fá TRI.IS sem bakhjarl og fengum hjólajakka og boli. TRI styrkti fleiri lið með ýmsum hætti, sbr. þetta: „TRI-hugsjónin er merkjanleg á marga vegu en hún kemur einna helst fram í hjólreiðum, hlaupi og sundi. Þrátt fyrir þessar áherslur þá snýst hugsjónin um að hvetja til hreyfingar og skemmtunar almennings, hvort sem er í þessum þremur greinum eða öðrum.
Hugsjón okkar mun standa fyrir aukinni hreyfingu ungliða í hjólreiðum og þríþraut þar sem við viljum efla og kynna þær nýjungar sem þar hafa orðið á síðastliðnum árum.“

Búnaður: Smárúta með 8 sætum og plássi fyrir dýnu og töskur fyrir aftan. Hestakerra fyrir sex hjól. Við rennihurð á hliðinni var pláss fyrir hjól þess sem næstur var í röðinni hverju sinni. Við höfðum 4 götuhjól, 1 CC-hjól og 1 fjallahjól fyrir Öxi.

Framkvæmd: Við skiptumst á að hjóla og meðan við vorum í samfloti við önnur lið, var hver áfangi um 25 mínútur. Á þeim tíma er hægt að hjóla allt að 14 km ef veður og vegur leyfa, en upp brekkur eru kílómetrarnir færri. Hvíldin var því rúmur klukkutími milli spretta og þá er hægt að borða, drekka og jafnvel blunda, sem gekk furðu vel. Við skiptingar var ekið fram úr þeim sem var úti, fundinn góður staður og næsti maður settur út sem hjólaði af stað og lét hinn ná sér til að eyða ekki óþarfa tíma í skiptingu. Þegar á leið og við fórum að þreytast, fengu allir að hvíla einn áfanga eða tvo og gátu þá sofið svolítið á dýnunni. Heildarvegalengd á mann var um 330 km.

Veður: Við unnum í veðurhappdrættinu. Lagt var af stað í roki og rigningu en í Hvalfirði var þurrt og vindurinn skárri og á Holtavörðuheiði var logn. Á Akureyri sá til sólar og Mývatnsöræfi voru hjóluð í 20 stiga hita. Á Jökuldal og við Egilsstaði var rok og leiðinlegur vindur, þoka á Öxi en logn í Berufirði og eftir Höfn var meðvindur að Selfossi. Í Kömbunum var hellirigning sem skolaði af okkur tveggja sólarhringa svita.

Bílstjórar: Í svona ferð skiptir öllu að hafa góða bílstjóra. Stefán og Freyr gættu tímans, tóku út hjól, gengu frá hjólum og snerust kringum okkur þess á milli. Þeir færðu til bókar tíma og vegalengdir hvers og eins.

Matur og drykkir: Pétur útvegaði kók og Hámark frá Vífilfelli. Með þessu voru etnar samlokur (Siggi), kjötbollur (ég steikti nokkur kíló), smjörsteiktar kótilettur (Pétur). Ég hafði enga lyst á sætindum sem voru meðferðis.

Samferðafólk: Á langri leið er gott að vera í samfloti með öðrum. Fólk skiptist á að taka vindinn og gefa öðrum skjól. Þannig er farið hraðar yfir og í miklum mótvindi er afar lýjandi að hjóla alltaf einn. Sex lið lentu saman í Hvalfirði og hjóluðu norður og austur.
Team RISK (44:08 lokatími), Landsvirkjun og Team Kraftaverk (44:09),Team Herbalife (44:10)vildu fara hraðar eftir Öxi og gerðu það. Við Afarnir (44:44) vorum samferða Medical Racing Divas (44:47) að Hveragerði þar sem endaspretturinn hófst. Við Rauðavatn var komið í mark og þar föðmuðust allir.

Þetta er það helsta. Í næstu færslum verður fjallað um það sem upp á vantar.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s