Vínandi vísindaferðanna

bjordos í lófaVið sem heima sitjum erum ekki alltaf syndandi í sýrunum, eins og Megas kvað, heldur leggjum við mikið upp úr því að skapa virðulega ímynd af fyrirtæki í bærilegum rekstri. Hér er kontór og kontóristi og hér eru kettir til að verja bókalagerinn fyrir músum. Undirverktakar og lausamenn eru nokkrir og nefna má Má Högnason, dr. Rigor Mortis, D. Sigurð Högnason og Guðbrand B. Þetta skapar mynd af blómlegum rekstri og þokkalegri ársveltu og það eina sem vantar er 25 milljóna ofurjeppi á bílastæðið. En af því getur orðið þegar fyrirtækið hefur skipt um kennitölu.

Því lyfti ég ekki brúnum þegar til mín barst beiðni um vísindaferðarheimsókn nema í virtri grein í HÍ. Nokkuð er um liðið síðan ég var ölkær og skrópgjarn stúdent í Árnagarði og þá voru vísindaferðir ekki á dagskrá. En netið leiddi mig í allan sannleika um þessa snjöllu leið háskælinga til að útvega sér áfengi i vikulokin.

Nemendafélög Háskóla Íslands sjá um að skipuleggja sem flestar vísindaferðir fyrir stúdenta síns félags, sem eru vanalega farnar öll föstudagseftirmiðddegi og standa fram eftir kvöldi….
Vísindaferðir ganga þannig fyrir sig að rútur sækja nemendur í heimabyggingu þeirra á háskólasvæðinu og keyra í eitthvert fyrirtæki eða stofnun sem tekur á móti þeim. Oft tengjast þeir aðilar eða fyrirtæki sem bjóða til vísindaferðar þeirri námsgrein sem stúdentarnir leggja stund á.
Til dæmis er algengt að nemendur í hagfræði sæki Seðlabankann heim, náttúru- og líffræðinemar lenda yfirleitt í heimboði hjá Náttúruvísindastofnunum og guðfræðinemar í vel völdum kapellum og kirkjum.
Í vísindaferðum bjóða viðkomandi stofnanir eða fyrirtæki upp á fyrirlestur um starfsemi þar á bæ og helstu viðfangsefni, léttar veitingar og veigar.“

Heimildarmaður minn hafði þessa sögu að segja af velheppnaðri vísindaferð í ónefnt fyrirtæki á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu.

„Þetta var sirka ein rúta og þau fengu pítsur og bjór. Nokkrir starfsmenn sáu um afgreiðslu veitinga meðan forstjóri fyrirtækisins reyndi af veikum mætti að segja frá starfseminni í samræðuklið sirka 50 gesta, sem sýndu ekki merkjanlegan áhuga og þótti miður að geta aðeins fengið einn bjór í einu, því helst vildu þeir stinga dósum í vasa. Andaði því köldu í garð afgreiðslumanna. Þetta tók rúman klukkutíma og þá sótti rútan hópinn sem átti bókaða heimsókn í annað fyrirtæki með álíka dagskrá. Þá tókum við til, átum það sem eftir var af pítsum og fengum okkur eina dós með.  Mig minnir að ekki hafi komið til tals að taka aftur á móti vísindaferð eftir þetta.“

Ég ímynda mér að guðfræðinemar heimsæki Oblátugerðina, kynni sér framleiðslu á messuvíni hjá ÁTVR, fari á saumastofur til að skoða nýjustu tísku í síðhempum og rykkilíni og heimsókn í vatnsveitu er bráðnauðsynleg því mikilvægt er að nota gott vatn við skírnarathafnir. En að öllu gamni slepptu, fannst mér dagskrá viðskiptafræðinema merkilegust frá pólitísku sjónarhorni og því er hún birt hér. Mig langar líka til að taka skattaréttinn föstum tökum með lögfræðinemum.

vísindaferð viðskiptafræðinema
Vísindaferðir Lögrétta

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.