Kvittað, lækað og deilt -Taka 2

2014-01-13 16.42.36„Ef þú kvittar, lækar og deilir, ertu komin(n) í pottinn.“ 

Ég skrifaði einu sinni um fésbókar „leiki“ sem ganga út á að láta fólk auglýsa vöru með KLD-aðferðinni.  Þetta var 2012. Þá setti úlpuleikur kenndur við ónefnda kaupsýslukonu allt á annan endann. Mér skilst að svona uppátæki hafi Súkkerberg og hans fólk bannað en bannið virðist ekki hafa náð inn á okkar litla markað og því er krökkt af svona „leikjum“ á víðlendum fésbókar. Gæsalappirnar eru viljandi settar því eingöngu er verið að virkja trúgjarnt fólk til að auglýsa vöru sem viðkomandi fyrirtæki gæti greitt nokkra þúsundkalla fyrir í auglýsingu í net-eða pappírsmiðli. Þetta er ódýr leið sem krefst ginningarfífla. Til að allt gangi upp þurfa þúsundir fésbókarnotenda að láta til leiðast svo að einn hreppi viðkomandi vinning. Þegar í húfi er pulsupakki með nokkrum beikonsneiðum, fæ ég allavega bjánahroll.

2012 hringdi ég í ónefnt fyrirtæki (tillitssemi) og spurði:  “Hvernig farið þið að því að draga? ” Svaramaður fyrirtækisins hváði og skildi mig ekki. Ég spurði þá hvort fésbókin yrði fínkembd og nöfn allra þúsund yrðu rituð á miða með tilheyrandi upplýsingum og svo dregið úr hatti að viðstöddum fulltrúa sýslumanns. “Ertu að gera at í mér” spurði þá svaramaðurinn eftir langa þögn. Samtalinu lauk án þess að ég fengi nánari skýringu.“

Þar sem þrír svona leikir birtust í fréttaveitunni minni fyrir tilstilli fésbókarvina minna núna í hádeginu ákvað ég að hringja og spyrja. Nú fékk ég svör sem voru nokkuð samhljóða í grunninn en viðmót svarenda var mismunandi. Ég veit núna að starfsmaður í viðkomandi fyrirtæki situr sveittur við að skrifa nöfn allra lækenda inn í excel-skjal. Endurtekin birting á sama leik getur þýtt þrískráningu á sama nafnalista, þar sem endurtekin nöfn eru svo tekin frá. Þegar lækendur skipta þúsundum, er þetta ærið verk. Að þessu loknu er Random-skipun beitt til að finna eitt nafn. Ég hef mínar efasemdir um þessa skráningaraðferð, einkum eftir að hafa lesið þessi skilaboð:
„Er ekki komin tími á smá leik …drögum út fimmtudaginn 18. sept sá heppni fær .. like-kvitt-deilt.
.og þú ert komin/nn í pottinn!
ATH vinningslíkur tvöfaldast einnig í HVERT sinn sem myndinni er deilt!“

Viðmælendur í fyrirtækjunum voru misjafnir. Best var konan sem sagði mér einlæglega allt um leikinn. Í öðru sæti lendir stúlkan sem bað um tölvupóst og síðan hringdi tiltölulega háttsettur starfsmaður í mig og vildi vita hvað mér gengi til með þessari fyrirspurn. Í þriðja sæti er konan sem taldi frá upphafi samtalsins að ég gengi erinda einhverra fyrirtækja með misjafnt í huga. Svo er ekki og því eru engin nöfn birt í þessari færslu.

Þeir sem læka, kvitta og deila þessari færslu mega koma og klappa kettinum á myndinni. Hann verður sparibúinn og viðmótsþýður.

Auglýsingar

2 athugasemdir við “Kvittað, lækað og deilt -Taka 2

  1. haha ég vann sko einu sinni í svona leik – alveg óviljandi og alls án þess að læka og deila, skrifaði athugasemd fyrir neðan svona mynd. Annars er ég hrikalega dugleg að tilkynna spam til Zúkka og félaga þegar ég sé svona auglýsingapósta.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s