Fjáraustur og spilling

dollar Íþróttaáhugi minn leiddi til gúgls og eftirfarandi samantektar. Þeir sem hafa ekki áhuga á íþróttum, geta hætt að lesa hér með.

Þessi frétt á Visir.is leynir á sér. Þar kemur fram að Vetrarólympíuleikarnir 2022 verða ekki í Osló, sem sætir tíðindum því Norðmenn voru komnir mjög langt í umsóknarferlinu, eins og segir í greininni: „Óslóarborg hafði þegar varið um tveimur milljörðum íslenskra króna í umsóknina og um 1,5 milljarði til viðbótar vegna framkvæmda og áætlanagerðar vegna ýmissa framkvæmda í borginni í tengslum við mögulega Ólympíuleika.“

Umsóknarferlið hófst 2012 og þá bárust umsóknir frá mörgum borgum, því mikill vegsauki þykir að hreppa þetta hnoss og þótt það kosti að bera þurfi fé á fulltrúa í Ólympíunefndinni, færa þeim dýrar gjafir, bjóða í heimsókn og stjana við þá á alla lund, sætta margir sig við það. Eins og sést hér að ofan höfðu frændur okkar Norðmenn þegar eytt 2 milljörðum, bara í umsóknina og kostnaðinn við hana. Þar á bæ vantar hvorki snjó né reynslu af mótahaldi. Allt benti til þess að þeir myndu hreppa hnossið.

En í skoðanakönnun (leiðrétting) voru 55% kjósenda andvígir þessu og þar með náði umsóknin ekki lengra. Í hópi umsækjenda voru borgir eins og Kraká þar sem andstaðan var öllu meiri og umsóknin dregin til baka fyrir vikið. Sama var upp á teningnum í Þýskalandi og Sviss sem höfðu hugsað sér Munkaþverá og St. Móritz fyrir keppnina. Stokkhólmur kom einnig til greina en stjórnvöld neituðu að fjármagna. Þjóðverjar skýrðu sína afstöðu á þessa leið:

„Við erum ekki á móti íþróttinni heldur skorti á gagnsæi og gróðafíkn AÓL…. Að óbreyttu munu Þjóðverjar ekki sækjast eftir að halda Ólympíuleika fyrr en breytingar hafa orðið á AÓL.“

Kazakhstan-mapEftir eru Beijing og Almaty í Kasakstan. Í Beijing eru engin skíðahæf fjöll innan 200 km radíuss frá borginni. Með íslenskum mælikvörðum væri þetta eins og að halda allar alpagreinarnar í Vík í Mýrdal en láta keppendur og áhorfendur hafast við á Akranesi. Eftir stendur þá Almaty þar sem ekki skortir fjöll eða snjó. Og nefndarmenn, sem eru vanir sukki og bílífi á kostnað umsóknarborga, sjá nú fram á íburðarminni daga. Þessi staða er ekkert annað en vantraust á AÓL og löngu tímabært að segja nefndarlimum að troða löngum kröfugerðum sínum um gjafir og aðbúnað þangað sem sólin skín aldrei.

Í þessari grein er farið yfir stórfellt tap mótshaldara fyrr og nú. Þar römbuðu sumar borgir á barmi gjaldþrots og eiga enn langt í land. Spár um fjölgun ferðamanna, auknar og afleiddar tekjur standast ekki. Víða standa mannvirkin ónotuð og í niðurníðslu, dapurlegur minnisvarði um íþróttakeppni sem á að snúast um heilbrigða sál í hraustum líkama. Þetta er nöturlegur lestur og torskilið af hverju íþróttahreyfingin hefur sætt sig við þetta fyrirkomulag svona lengi.

Höfundur þessarar greinar vandar AÓL heldur ekki kveðjurnar.

„Kröfur nefndarmanna eru fáránlegar. Þeir vilja sérinngang á flugvellinum, sérstaka akrein fyrir sig og forgang á umferðarljósum. Fimm stjörnu hótel er ekki nóg því sérstaklega er tekið fram að fagna skuli þeim með brosi við komuna þangað.

En þess í stað er þeim nú sýnd langatöngin.  Eftir í pottinum eru Kínverjar og Kasakar, síðustu aular heimsins sem eru enn með í skrípaleiknum. Önnur þessara þjóða verður heppin og fer með sigur af hólmi. Hin fær að halda Vetrarólympíuleikana 2022.“

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s