Áhrifabækur í lífi mínu

Á vettvangi Fésbókar gerir fólk sér nú til gamans að tilgreina bækur sem hafa snert það á einhvern hátt. Mér væri í lófa lagið að snúa út úr þessu og segja frá heimasmíðuðu bókahillunni minni sem hrundi ofan á mig og þá snertu margar bækur mig frekar harkalega. En þar sem þetta er alvörumál og áhugamál mín eru eins og hjá nýbakaðri fegurðardrottningu, þ.e. ferðalög og lestur góðra bóka er einboðið að segja frá þeim helstu sem höfðu áhrif á mig í bernsku. Ég var orðinn læs vorið sem ég varð fimm ára og að vetrarlagi í sveit er fátt annað að gera milli mjalta og gegninga en að lesa ef veðrið var leiðinlegt. Í góðviðri vorum við auðvitað úti. Mikið var til af bókum á heimilinu og engar hömlur á bókavali sem skýrir af hverju ég hafði lesið þessar bækur áður en ég varð sjö ára.

GagnoggamanGagn og gaman: Í janúar 1960 dró pabbi fram þessa bók. Við sátum á dívaninum inni í herbergi, ég með bókina á hnjánum og fylgdi línunum með vísifingri en fyrir aftan okkur kraup Páll bróðir, heltekinn af lestraráhuga og fylgdist gjörla með yfir öxl mína. Lesin var ein opna og að því loknu var bókin sett upp í efstu hillu þar sem ég náði ekki til hennar. Stranglega var bannað að handfjatla bókina utan lestrartíma. Þrír stuttir lestrartímar voru á dag, að morgni eftir mjaltir, eftir hádegismatinn og áður en farið var í fjósið um kvöldið, alltaf með sama sniði. Vegna þrábeiðni var þeim fjölgað eftir fyrstu vikuna en þá vorum við farnir að stauta gegnum myndasögur í Tímanum. Seinna heftið af Gagni og gamni var tekið fyrir að því fyrra loknu og um mánaðarmót var ég útskrifaður læs. Páll fékk sömu meðferð en styttri þar sem hann varð eiginlega læs í þessu hlutverki áhorfandans.

Pelagra-sintomasHeilsurækt og mannamein: Læknisfræði nútímans fyrir almenning. Þessi bók fjallar um alla helstu sjúkdóma og var nauðsynleg til sveita á þessum árum þegar ekki var auðhlaupið til læknis nema í neyðartilvikum. Við bræður lásum þessa bók saman og athuguðum jafnharðan hvort við hefðum viðkomandi einkenni. Til stuðnings voru litmyndir og ekki allar við hæfi barna, einkum af lokastigi sýfilis og holdsveiki, sem við töldum ólíklegt að við fengjum, enda engir sýktir í Reykjarfjarðarhreppi á þessum árum. En um vorið þóttumst við vissir um að við hefðum fengið sjúkdóminn beri-beri og tengdum rauðar og sprungnar hendur okkar ekki við vatnssullið í læknum fyrr en pabbi benti okkur á það. Sama vor var farið með okkur að næsta bæ og við látnir heilsa jafnaldra okkar sem var með mislinga. Smitunin mistókst en við fengum jólakökusneið og mjólk.

En áhrif sjúkdómslýsinganna sátu lengi í mér. Þegar ég fékk hettusóttina var ég viss um að ég yrði geldur eða náttúrulaus. Á fullorðinsárum rauk ég til læknis af minnsta tilefni og þá bætti ekki úr skák hvað heimilislæknirinn var lyfjaglaður og örlátur á skammtana. Það var fyrst upp úr þrítugu sem þetta bráði af mér. Síðan hef ég verið lyfjalaus að mestu leyti.

Kristmann-G-minniÆvisaga Kristmanns Guðmundssonar í fjórum bindum (Ísold hin svarta, Dægrin blá, Loginn hvíti og Ísold hin gullna). Kristmann var sveitadrengur og náði að sveipa lífið í þann rómantíska bjarma sem skorti átakanlega í innanverðu Ísafjarðardjúpi á árunum eftir 1960. Ég vildi verða skáld eins og Kristmann og hóf dagbókarskrif en tilbreytingarleysið og andleysið gerðu færslurnar frekar stuttar. Ég vildi verða kvennamaður eins og Kristmann og æfði seyrulegt augnaráð fyrir framan spegil, greiddi mér með mjólk til að halda greiðslunni rennisléttri og stífri en mamma fussaði yfir þeirri vitleysu og skolaði úr mér stívelsið. Mamma rifjaði reyndar upp um daginn að við bræður hefðum kunnað nöfn eiginkvenna Kristmanns í réttri röð (þær voru 8 þegar síðasta bindið kom út) og þegar saumaklúbbur var haldinn í Þúfum veturinn 1962 lét hún okkur fara með þessa þulu, konunum til skemmtunar, sem munu hafa misst niður lykkjur af hrifningu.

200-merkt-lambMarkaskrá Reykjarfjarðarhrepps. Páll afi var ritstjóri markaskrárinnar og við síðustu útgáfu hennar var ég munstraður sem lesari. Afi var vandvirkur og við fórum svo oft yfir handritið að ég kunni skil á flestum mörkum í hreppnum að því loknu. Ég átti mark sem var notað á mínar kindur (biti og fjöður aftan vinstra) sem mér fannst aldrei fallegt. Páll bróðir átti sneitt og bita sem var miklu auðveldara að klippa með markatönginni í eyru skrækjandi lamba.

Aevintyradalurinn Enid BlytonÆvintýradalurinn eftir Eníd Blæton. Þar urðu söguhetjurnar innlyksa í eyðilegum dal og elduðu dósamat sér til viðurværis. Vorið eftir að þessi bók kom á heimilið reistum við börnin kofa uppi á hjalla og fengum að kveikja undir gamalli pönnu, steiktum gras og njóla sem enginn vildi jeta, ekki einu sinni Lappi heimilishundur. Þetta var líka vorið sem kviknaði í kofanum. En við lestur þessarar bókar vaknaði áhugi minn á matreiðslu sem hefur frekar aukist með árunum. Lengi býr að fyrstu dós.

Horfnir góðhestar eftir Ásgeir Jónsson frá Gottorp: Tvö bindi, bæði þykk og það fyrra var ljómandi skemmtilegt framan af en þegar á leið urðu frásagnirnar eintóna og svo óspennandi að ég missti allan áhuga á hestum við lesturinn og hef síðan eingöngu lagt mér þá til munns.

Auglýsingar

Ein athugasemd við “Áhrifabækur í lífi mínu

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s