Ekkifréttir og réttlæting

spurningarmerkiSú var tíðin að ég fylgdist vel með íþróttafréttum. En vegna offramboðs á ekkifréttum um íþróttir hefur dregið úr áhuganum jafnt og þétt.  Kannski er ég líka latur að vinsa úr og kannski er lítil umfjöllun um greinar sem ég hef áhuga á, þ.e. þríþraut, hjólreiðar, hlaup og fleira því tengt.

Á Íslandi er íþróttum og umfjöllun um þær skipt í tvær fylkingar. Boltaíþróttir og allar hinar. Boltaíþróttir eru vinsælastar í umfjöllun og „það sem fólkið vill að fjallað sé um“ og líka þær íþróttir „sem fólk vill sjá.“ Gæsalappirnar eiga að sýna að ég gef lítið fyrir svona klisjur. Reikningsglöggir geta skemmt sér við að telja dálksentimetra í íþróttakálfum prentmiðla. Í boltanum eru líka „allir þeir bestu“ og það skýrir röðun íþróttafréttamanna í kjöri á íþróttamanni ársins. Í samtökum þeirra skrifa flestir mest um einhvern bolta.

Formaður Landróverklúbbsins útskýrði þetta í ræðu á hófi ÍSÍ og SÍ þegar íþróttamaður ársins var tilkynntur. Ég biðst fyrirfram forláts á því að kalla Samtök Íþróttafréttamanna þessu nafni en þetta er góðlátlegt grín og sennilega lélegt þar að auki. Ég samgleðst íþróttamanni ársins og er reyndar sammála flestu sem formaðurinn sagði. Þetta var góð ræða. Hana er hægt að lesa á vef SÍ, sportpress.is.
Formaðurinn fjallaði um aðstöðumun íþróttamanna og vitnaði í Þráinn Hafsteinsson frjálsíþróttaþjálfara hjá ÍR.

„Síðastliðin tólf ár hefur Íþróttamaður ársins komið úr aðeins tveimur íþróttagreinum – handbolta og fótbolta. Fyrir það hefur kjörið fengið nokkra gagnrýni og því er ekki að neita að þessi hópur er nokkuð einsleitur. En í stað þess að skella skuldinni á íþróttafréttamenn tel ég við hæfi að staldra við og skoða hvaða ástæður liggja þar að baki. Hvaða þróun hefur orðið í íslenskum íþróttum undanfarin ár og áratugi sem veldur því að afreksmenn í fótbolta og handbolta virðast standa öðrum íslenskum íþróttamönnum framar?

Þráinn Hafsteinsson, yfirþjálfari frjálsíþróttadeildar ÍR, ritaði nýverið pistil sem var víða birtur í fjölmiðlum og tel ég að orð hans eigi einkar vel við. Þar sagði hann: „Ef efnilegur íþróttamaður ætlar að verða afreksmaður í öðru en fótbolta eða handbolta þá er hann jafnframt að taka ákvörðun um að vera launalaus og fjárhagslega upp á foreldra eða aðra nákomna kominn meðan á afreksferlinum stendur og þar með slippur og snauður að ferli loknum.“ Orð að sönnu hjá Þráni og sorglegur vitnisburður um stöðu íslensks íþróttalífs.

Afreksmenn í fótbolta og handbolta gerast flestir atvinnumenn í sinni íþrótt og halda af landi brott til að fá stærri áskoranir og meiri samkeppni en þeir hefðu nokkru sinni átt kost á hér á landi. Það er veruleiki sem ekki er til staðar í langflestum öðrum íþróttagreinum. Að minnsta kosti ekki hér á landi.“

íþróttafréttiríhnotskurn

Þessar þrjár fréttir birtust með stuttu millibili á Fréttagáttinni og sýna að víða er fólk á vaktinni að fylgjast með ekkifréttum úr heimi íþrótta.

Ég hrasa hins vegar um réttlætingu formannsins fyrir því að þrettánda árið í röð hreppti boltaíþróttamaður eldhúskollinn (gripurinn sem kom í stað bikarsins góða). Um leið og boltaíþróttamaður kemst að hjá erlendu liði verður hann víst sjálfkrafa betri en hinir sem heima keppa að mati tíðindamanna, færist ofar í virðingarröðinni og á meiri möguleika en minni að komast á topp-30 listann í kjöri SÍ. Hljómar eins og náttúrulögmál. Mér er til efs að sigur á HM eða EM í einhverri jaðargrein dugi til að hnika þessu en veðja á Ólympíugull í einhverri grein frjálsra íþrótta.

Þeirri viðurkenningu að komast að hjá erlendu liði fylgir fréttaaukning hér heima. Þá þarf að greina frá leikjum viðkomandi liðs og gengi þess, án tillits til úrslita, deildar og lands. Ég hlustaði einu sinni á mjög langa upptalningu á úrslitum í 2. deild handboltans í Portúgal og skipti um rás þegar ég nennti ekki að bíða eftir tengingunni við einhvern íslenskan atvinnumann.

Jafnvel tapleikir fá sína umfjöllun. Allt verður að efni. Mér kemur í huga mynd af tveimur vörpulegum karlmönnum í fjölskyldualbúminu mínu sem hefur verið klippt saman með grófum skærum og glyttir í herðar þess þriðja á milli þeirra. Ég man ekki lengur hverjir sjást á myndinni því mest hefur verið rætt um þann sem er þar ekki, þ.e. Stefán Pálsson, afabróðir minn. Ég reikna ekki með að nokkur lesandi þessarar færslu hafi áhuga á honum því það væri álíka mikil ekkifrétt og margt sem gerist utanvallar í boltanum. Þetta eru fréttir með áhersluna á „ekki“ og fjalla um þá sem eru utan vallar af einhverjum ástæðum.

Þessar fréttir hljóta að svala einhverjum þorsta því nóg af af þeim. Leit að orðréttri setningu „Kom ekki við sögu í leiknum“ gefur 2150 niðurstöður. „Sat á varamannabekk“ gefur 7800 niðurstöður. „Var ekki í leikmannahópi“ gefur 6640 niðurstöður. Meiðsli eru tíunduð af kostgæfni, batavegur og meðferð, hvort viðkomandi hafi náð að skokka svolítið á æfingu eða verið í teygjum á kantinum og með tilkomu twitterfrétta er hægt að fá samantekt gullkorna kappanna. Þegar allt er tínt til, er mesta furða að öðru hverju skuli finnast pláss fyrir aðra íþróttaumfjöllun.

Til að gæta sannmælis þá eiga íþróttafréttamenn eða almennir fréttamenn oft góða spretti utan boltans. RÚV og mbl.is birta yfirleitt þau tíðindi sem ég hef sent af þríþraut. Það ber að lofa. En væru íþróttaekkifréttir aflagðar, væri meira rými fyrir fréttir og fróðleik. Jafnvel um greinar þar sem bolti kemur ekki við sögu.

 

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s