Orðanefndin

orðanefndináfundi Fyrsta árið sem tölva var í skólanum mínum forðum daga, var ég aðalnotandi hennar og lék Pacman af svo miklu kappi að samkennari minn kveðst enn hrökkva upp um nætur í svitabaði með Pacman-stefið organdi í hausnum. Síðan rjátlaðist þetta af mér en við tóku aðrar dellur eins og Tetris og síðan skák, sem reyndist svo mikill tímaþjófur að ég sór þess dýran eið að byrja aldrei aftur á tölvuleikjum. En svo kom skraflið fram á sjónarsviðið á netinu fyrir rúmu ári og þá tók sig upp gamla þráhyggjan. Ég skraflaði í gamla daga á ensku og hafði gaman af, síðan á íslensku en löngu fyrir aldamót fór spilið upp í hillu og hefur verið þar síðan, nema þegar skraflkvöldin eru á Cafe Haíti.

Fyrst var vaðið á súðum en síðan fór ég að kynna mér herkænsku leiksins, las bókina Word Feud eftir Stefán Fatsis og hlustaði á leiklýsingar breska stórmeistarans David Webb á Jútjúb. Þetta skilaði sér í viðureignum og þó einkum á Íslandsmótinu í nóvember. Um skraflstrategíu mætti skrifa ógurlegan langhund og sennilega leiðinlegan fyrir aðra en skraflnerði. Það bíður betri tíma.

Framan af var Orðaleikur Norðmannsins Taral Seierstad alls ráðandi. En með tilkomu Netskraflsins sem Vilhjálmur Þorsteinsson hleypti af stokkum í haust, hefur skröflurum fjölgað gífurlega, því notendaviðmótið er aðlaðandi og þægilegt, þróast eins og konfektkassi því höfundur kynnir núorðið nýjan mola á hverjum degi og bragðast allir vel. Samhliða þessu vex Skraflfélagi Íslands fiskur um hrygg og á aðalfundi reyndist auðvelt að manna bæði stjórn og orðanefnd, þar sem ég á sæti. Orðagrunnur forritanna byggir á BÍN (Beygingalýsing íslensks nútímamáls). Þar eru ekki öll orð sem fólki eru töm á tungu og verkefni orðanefndar verður að ákveða hver þeirra fá inntöku í safnið. Þeim er einna helst komið til nefndarinnar á Fésbókinni í hópunum Netskrafl og Skraflarar. Þeir eru öllum opnir.

Tölvuleikir eru misjafnir. En skraflið krefst umhugsunar og heilabrota. Það er frábært kennslutæki og væri ég að kenna, fengju nemendur mínir að skrafla í móðurmálstímum þegar þannig stæði á. Skrafl eykur orðaforða, kennir málfræði og málnotkun, merkingar orða,  orðabókarnotkun, skapar umræður um rétt mál og rangt og svo mætti lengi telja. En ég kenni engum núorðið, nema köttunum að ganga við hæl og heilsa. Mér nægir að taka þátt í störfum orðanefndar og skrafla þess á milli við þá sem vilja. Ekki skortir andstæðinga á netinu.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.