Rannsóknarritgerð fyrir sundstofu

sundmyndÉg heillaðist gersamlega af spurningalista Sundstofunnar á sínum tíma og sá sundiðkun mína í nýju ljósi. Þennan lista gefur að líta hér og óhætt að hvetja lesendur til að taka þátt. Þar segir á forsíðu:

Sundstofan er nýstofnaður þverfaglegur vettvangur fyrir rannsóknasamstarf þriggja háskólakennara og nemenda þeirra við Háskóla Íslands.  Markmiðið er að efna til rannsókna á félagslegri notkun heits vatns og líkamsmenningu í opinberum rýmum, m.a. í sundlaugum.

Ég er mjög hlynntur félagslegri notkun á heitu vatni og tel mig vera virkan þátttakanda í líkamsmenningu í opinberum rýmum. Þjóðfræðileg og atferlistengd greining og rýni á atviki sem varð á morgunsundæfingu 3SH reynist svo margtúlkanleg að ég sé B.A. ritgerð í hillingum. Hún verður byggð á eigindlegri rannsókn minni á mér sjálfum og öðrum syndurum. Upphafið að þessu stórvirki andans á sviði þjóðfræða er þetta:

Ég eignaði mér skáp nr. 166 þegar 3SH hóf æfingar í Ásvallalaug. Við erum flestir 30 í klefanum samtímis og getum valið úr 70 skápum og sirka 30 snögum.  Þetta heimatilbúna eignarhald hefur gengið svo langt að ég hef látið mann fjarlægja allt sitt hafurtask úr skápnum „mínum“ og færa sig. Við tveir sem mætum fyrstir, höfum það fyrir reglu að sá sem er á undan inn í félagslega notkunarrýmið, blandar sturtuna fyrir hinn. Við erum alltaf á sama stað við þessa iðju. Núna í morgun var þriðji morgunhaninn mættur og stóð undir sturtunum okkar. Við skildum að honum var ekki kunnugt um óskrifaðar reglur örsamfélagsins sem stundar félagslega notkun á heitu vatni á þessum tíma dags og var honum vísað á aðra sturtu fjær og málið útskýrt. Að æfingu lokinni komst ég að því að ég hafði sett fötin mín í nr. 167. Mér varð svo mikið um að ég gleymdi að þurrka ójónað og hrjúft vatnið af rennvotum búk mínum.

Þetta er álíka verðugt rannsóknarefni og táknfræði segla á ísskápum. Er skápurinn tákn um þráhyggju mína eða síðmiðöldrunartengd sérviska? Get ég gert kröfu um að vera alltaf í sömu sturtunni?  Eiga nýliðar að laga sig að örsamfélagi um félagslega notkun á heitu vatni og líkamsmenningu eða á samfélagið að taka tillit til þeirra í aðlögunarferli og sveigja óskrifaðar reglur og viðhorf? Er skápurinn tákn um öruggt skjól sem ég leita að undir niðri, líkt og aðrir leita í trúarsöfnuði til að öðlast hugfró? Er sundfélagið mitt ígildi safnaðar þar sem við hlýðum á boðskap leiðtoga okkar (Þjálfi) og förum eftir honum í einu og öllu? Ef svo er: Er sturtan ígildi syndaaflausnar? Svo margar spurningar…

Sumarstarf hjá Sundstofu er inni í myndinni. En þangað til helli ég mér í rannsóknarvinnu og ritgerðarsmíð.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s