Varað við löggildingarprófi

2015-09-13 13.21.04
Svona auglýsing birtist annað hvert haust. Ég fór í þetta próf 2014 og náði ekki prófinu þrátt fyrir rúmlegan áratug við þýðingu skjala, enda gerði ég eina vonda villu og verð að sætta mig við niðurstöðuna. Ég hafði þá ýmislegt við allt þetta að athuga og af því að ég ætla ekki að þreyta prófið aftur, er mér ljúft og skylt að segja hvað mér finnst athugavert við þetta

Prófið er tvíþætt. Stofupróf (þá er skrifað með penna, má ekki nota tölvur, en fletta upp í orðabókum) tekur 4 tíma og veitir ekki af, þótt aðeins eigi að þýða eina A4 síðu. Þetta þykir mér fornaldarlegt fyrirkomulag og ekki í neinu samræmi við vinnuumhverfi þýðenda nútildags en á móti kemur að við heimaprófið má nota öll almenn hjálpartæki.

Á námskeiðinu var okkur margsagt að prófið yrði sanngjarnt og laust við lúmskar gildrur. Reyndin varð níðþungur texti, bæði á heimaprófi og stofuprófi. Á meðfylgjandi mynd er heimaprófið og þar kom þýski textinn nokkuð á óvart. Hann skaut líka upp kollinum á stofuprófinu, þótt um væri að ræða þýðingu úr ensku.

Skylda er að sækja námskeiðið. Ég veit að það er ekki hægt að sérsníða það að þörfum hvers og eins en mér fannst einum degi illa varið í að kynna starfsvettvang þýðenda innan ESB og svo missti ég af fyrirlestrinum um dómtúlkun og annað enda er ég orðinn nógu heyrnarsljór til að gefa ekki kost á mér í þannig störf. Langar umræður um það hvernig prófið yrði, voru eftir á að hyggja óþarfar, því prófið var ekki í samræmi við það sem þar kom fram.

  1. LöggprofAðeins 5 náðu af stórum hópi sem þreytti prófið. Mikil gagnrýni kom fram í hópnum á námskeiðið, prófið og yfirferðina sem þótti smásmyglileg og geðþóttakennd. Margir voru óánægðir með námskeiðið, töldu það tímasóun því það hefði litlu bætt við háskólamenntun próftaka. Margir fengu aðstoð löggiltra þýðenda við heimaprófið en náðu samt ekki. Það er út af fyrir sig umhugsunarvert.

Við vorum hvött til að koma athugasemdum á framfæri við sýslumanninn á Hólmavík sem sá um að rukka námskeiðsgjaldið síðast. Það hefði engu breytt hvort sem er. Ég lét mér nægja að tjá mig í tölvupóstum sem ég veit að einn forsvarsmanna námskeiðs og prófs sá og las.

Nú er forræðið komið til Vestmannaeyja og gjaldið hækkað um 20 þúsund. Ég tími ekki að borga 120 þúsund fyrir endurtektarpróf sem mér finnst að hefði mátt bjóða þeim upp á sem náðu ekki á sínum tíma. Ég reikna með sama fyrirkomulagi og síðast, þrátt fyrir mikla gagnrýni. Líkur á að ná prófinu eru álíka miklar og að vinna í Lottóinu. Ég myndi ekki kaupa Lottómiða fyrir 160 þúsund.

Þessar reynslusögur rak á fjörur mínar í kjölfar prófsins.

„Ég tók þetta próf fyrir nokkrum árum. Ég gerði tvær villur, hafði orð sem í frumtextanum var í eintölu/fleirtölu bara í eintölu og skrifaði óvart 13:30 í staðinn fyrir 13.30. Fyrir þetta var ég felldur en í athugasemdum prófnefndar var ég hvattur til að þreyta prófið aftur. Ég hef nú ekki komið því í verk ennþá.“ (NN)

„Fyrir 17 árum flutti ég heim frá Danmörku með glóðvolgt meistarapróf í þýðingum á dönsku og spænsku. Ég skellti mér í löggildingarprófið í dönsku, þrátt fyrir að mér væri ráðlagt að gera það ekki („þeir fella alla“ var fullyrt við mig). Ég sendi m.a. dönsku textana mína til leiðbeinanda míns í meistararitgerðinni í háskólanum í Danmörku sem sagði textann vera „aldeles udmærket“ (ég hafði vel að merkja fengið næsthæstu einkunn fyrir ritgerðina). Ég var felldur og ákvað að taka því bara eins og hverju öðru hundsbiti. Hef haft yfrið nóg að gera við túlkun síðan (og tekið að mér eitt og eitt þýðingarverkefni). En löggildingarprófið verður ekki endurtekið…“ (NNN)

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.