Lamar og Klói

Lamarogklói

Ódomsríma -um ris, hnig og upprisu Lamars Ódom

Almennt er hugur minn fullur af ást og hlýju til samferðafólks míns, bæði hérlendis og útlendis. Snemma fékk ég áhuga á Kim Kardassían sem braust til frægðar með bakhluta sínum en Klói systir hennar er ekki síður áhugaverð. Báðar búa þær í einhverju smartlandshéraði og lifa viðburðaríku lífi. Maður Klói, langintesinn Lamar, var alla tíð duglegur að fá sér og ekki bara kaffi og meððí. Á dögunum eyddi hann smáíbúðarverði á vændishúsi vestanhafs í kókaín, koníak og rislyf.

Efnanotkun afar stíf
Ódom viti rændi
keypti bæði kók og víf
koníak og vændi.

Þetta gerði hann þar til þraut alla reisn og var þá komið að honum liggjandi í úrgangi sínum á stofugólfi. Hugur minn var þá einkum hjá Klói og börnunum en líka láglaunuðu ræstingarfólki sem þurfti að þrífa vettvanginn.

Bíða núna þernu þrif
þar á polli drullu.
Koníak og lostalyf
Lamar reið að fullu.

Af skiljanlegum ástæðum hafa áhrif ofneyslu rislyfja ekki verið rannsökuð til hlítar, vegna skorts á tilraunadýrum og sjálfboðaliðum. En þegar Lamar rís úr rekkju er einboðið að kanna það.

Ólyfjanin lamar Lamar
og lét hann detta.
Ætli hann ríði aldrei framar
eftir þetta?

Klói vék ekki frá beði Lamars þótt hann væri lítill félagsskapur í öndunarvélinni og þumbaralegur með afbrigðum. Nú mun hann laus úr maskínunni og með hjálp talmeinafræðings getur hann vonandi óskað fjölskyldunni gleðilegra jóla í fyllingu tímans. Ef ekki, þá páska.

Khloe situr kát við stokk
á kærleiksríkum degi.
Lamar eftir allt sitt fokk
er á batavegi.

Klói mælir við tíðindamenn slúðurmiðla:

Rjóð á kinn við rúmstokkinn
reyrir hjónabandið.
„Ódom minn fer ei um sinn
inn í sumarlandið“.

Hinn íllkvittni Perez Hilton gerði tafarlaust bragarbót, enda sá hann færi á nýju rímorði sem um leið gjörði vísuna alhenta.

Rjóð á kinn við rúmstokkinn
reyrir hjónabandið.
„Ódom minn fer ei um sinn
inn í dónalandið“.

Morgunstemmarinn hjá Lamari og Klói snýst um þarfir hans, aðallega til kviðar.

Af löngum svefni Lamar vaknar
langar mest í kók og snúð
koníaks í kaffið saknar…
Klói röltir út í búð.

Klói tekur virkan þátt í umönnun Lamars og nýtur aðstoðar fílefldra sjúkraliða, enda er Lamar bæði níðþungur og bjargarlaus í bælinu. Þetta er enginn hægðaleikur eins og um er getið í Ódomsrímu.

Klói leggur hönd á hupp
hjálpar nýtur sveina
Lærum saman lyfta upp
Lamar þarf að skeina.

Hreðjar lagar heldur snör
hún og púðri stráir
Bekken þvær með bros á vör
en búðarferðir þráir.

Drjúg eru morgunverki hjá Klói og fjölskyldu þar sem vaktaskipti eru við rúmstokk Lamars og gengur fólk í flest verk eins og fram kemur í margumræddri Ódomsrímu.

Sátu mörg við sjúkrabeð
sólin daginn gyllti
Klói fór á klóið með
kopp sem Lamar fyllti.

Þó sjúklingurinn hafi takmarkaða rænu og tjái sig varla, þykir fjölskyldunni nauðsynlegt að örva hann andlega. Eftir þrjá samfellda daga af bófarappi töldu læknar að honum hefði hrakað og var þá farið í bókasafn sjúkrahússins og fundið lesefni við hans hæfi.

Fékk í morgun mjólk í glas
og mola af brauði vænu
Klói fyrir Lamar las
um litla gula hænu.

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.