Þríþrautarsamband Íslands

þríþrautarnefndendurvakin2010Endur fyrir löngu, þ.e. haustið 2008 komu nokkrir þríþrautarkarlar á besta aldri heim eftir vel heppnaða þátttöku í Járnmanni í Köln. Frá því segir nánar hér og í öðrum færslum á sömu bloggsíðu. Við vorum uppfullir af eldmóði, smöluðum fólki á fund og stofnuðum þríþrautarsamband, sem reyndist hæfileg bjartsýni því sérsamband fæðist ekki alskapað eins og Aþena úr höfði Seifs. En í kjölfar þessa urðu til þríþrautarfélög hist og her og eftir fundahöld og samráð við ÍSÍ var þríþrautarnefnd ÍSÍ endurvakin formlega í ágúst 2010. Stofnuð var heimasíðan triathlon.is og þar segir um þríþraut á Íslandi:

Hérlendis er keppt í eftirtöldum afbrigðum:
Sprettþraut: 400 metrar sund, 10 km hjól, 2,5 km hlaup. Oftast fyrsta og síðasta keppni ársins. Sú fyrri haldin í Kópavogi við Kópavogslaugina og sú seinni við Vatnaveröld í Reykjanesbæ
Hálfólympísk þraut: 750 metrar sund, 20 km hjól, 5 km hlaup. Hefur farið fram í mekka þríþrautarinnar í Hafnarfirði við Ásvallalaug í júníbyrjun. Vasaþrautin á Ísafirði er svipuð vegalengd og er í byrjun september og synt er í lauginni í Bolungavík.
Ólympísk þríþraut: Í henni er keppt á Ólympíuleikum. 1500 metrar sund, 40 km hjól, 10 km hlaup. Síðustu ár hefur Íslandsmótið í þessari vegalengd farið fram á Laugarvatni og synt í vatninu en ekki í sundlaug. Einnig hefur verið haldin keppni í þessari vegalengd í Þingeyjarsýslu, fyrst á Húsavík árið 2003 og síðan á Laugum í Reykjadal undanfarin ár.
Hálfur járnmaður: 1900 metrar sund, 90 km hjól, 21,1 hlaup. Slík keppni hefur verið haldin í Hafnarfirði í júlí síðan 2008. Einnig hefur verið keppt í sömu vegalengd í Kjós þar sem synt er í Meðalfellsvatni og hjólað um Hvalfjörð.
Heill járnmaður (Ironman): 3,8 km sund, 180 km hjól, 42.2 km hlaup. Þykir erfiðasta fjölþrautakeppni heims og nýtur nú mikilla vinsælda. Hefur ekki verið haldin hérlendis ennþá en um 50 Íslendingar taka þátt í þessari vegalengd á hverju ári í keppnum viðsvegar um heiminn.

stofnþing Í gærkvöldi var síðan ÞRÍ (Þríþrautarsamband Íslands) stofnað formlega. Þetta er mikill áfangi sem þríþrautarfólk um land allt fagnar.
Sá sem þetta ritar var fyrsti formaður þríþrautarnefndarinnar. Síðan tók Stefanie Gregersen við formennsku og af henni Halldóra Matthíasdóttir sem nú er formaður nýja sambandsins.

 

Hvað viltu segja?

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.