Stóra hringferðin á pulsuveginum gerð upp

pjakkuppbrekkuwow

„Ég er á vesturleiðinni, á háheiðinni“ á sígildum pjakkhraða.

WoW-Cyclothon er boðsveitarkeppni á hjólum kringum landið og fer fram í júní ár hvert. Við Járnafarnir fórum fjórir saman þennan hring 2014, fannst mjög gaman og ákváðum að fara aftur þegar við værum orðnir langafar. Þess vegna var ferðin í ár ekki á dagskrá en mánuði fyrir ræsingu urðu forföll í liðum og þá var farið að leita að nýjum mönnum. Ég var einn þeirra sem bauðst sæti í 10 manna liði þar sem einn Járnafi var fyrir og viku síðar vísaði ég harðsnúnu liði á hina Járnafana. Svo var æft og skipulagt og steiktar kjötbollur í nesti.

Og þess vegna stóð ég með hroll í búknum við hjólið mitt inni í Hvalfirði að kvöldi 15. júní, kílómetra fyrir innan Tíðaskarð. Lengsta húsbílaröð sögunnar hafði myndast með fram veginum. Beðið var eftir 90 hjólreiðamönnum sem lagt höfðu af stað frá Egilshöll klukkan 18:00. Skammt frá mér stóðu félagar mínir í liðinu Skattur og bókhald og rýndu eftir veginum því það er þrautin þyngri að koma auga á einn mann í svona stórum hópi sem fer þar að auki á rúmlega 40 km hraða eftir veginum. Við vegbrúnina stóðu tugir manna í sömu sporum og ég. Spennan var mikil. Allt valt á hraðanum inn Hvalfjörðinn til að losna úr mestu þvögunni.

Fyrsti hópurinn fór hjá, um 30 manns, og síðan kom næsti. Í þeim þriðja sá ég kunnuglega stellingu á hjóli, kenndi þar Hebba, og stökk á bak Svarta folanum og af stað í þægilegum meðvindi sem átti þátt í 63 km hámarkshraða inn eftir og rétt um 40 í meðalhraða. Skömmu fyrir innan Laxá í Kjós tók næsti maður við og síðan koll af kolli. Eftir Hvalstöðvarbrekkuna fór að teygjast á röðinni og undir Hafnarfjalli var nóg pláss við vegbrúnina til að athafna sig, klára hvern hjólalegg, setja nýjan mann út og bruna áfram. Nú var fyrirhjólsspennan að mestu farin úr skrokknum og endorfín svall í æðum. Allir tóku vel á og nutu þess að hjóla. Eftir þetta gekk allt smurt.

skiptingundirbúin

Skipting undirbúin eftir Selfoss.

Við höfðum skipt okkur í 2 fimm manna hópa, A og B. Hugmyndin var að meðan annar hjólaði, gæti hinn hvílt sig og nærst. A lagði af stað og B tók við í Borgarnesi. A-liðar átu og drukku og fóru svo að rótum Holtavörðuheiðar og tók við af B sem hafði rúllað vel uppeftir. Við fórum yfir heiðina og að Víðigerði. B fór þaðan að Varmahlíð og við frá Varmahlíð að Ljósavatnsskarði. B hjólaði austur yfir brúna á Jökulsá þar sem A tók aftur við og fór niður í Jökuldal, yfir Öxi og að Djúpavogi. B fór þaðan og að Höfn og drjúgan spöl í átt að Skaftafelli. A tók við og fór um hálfa leið að Klaustri en síðan tók B við og fór að Vík. A fór frá Vík að Selfossi og eftir það hjóluðu báðir hópar saman með blönduðum skiptingum það sem eftir var. Nokkru frá Skaftafelli höfðum við hitt lið Sensa sem varð okkur samferða eftir það, öllum til mikillar ánægju.

Við byrjuðum með 20 mínútum á mann en styttum það í 15 mínútur eftir Borgarnes og síðan í 12 og að lokum í 10. Smá þreyta var komin í alla, því svefninn var lítill en allt slíkt gleymist í hita leiksins.

Ég hafði reiknað út að við yrðum 46 tíma að þessu og það gekk eftir því við kláruðum á 45:56. Við vorum ekki síðust í mark, kláruðum glöð og ánægð og erum strax farin að ræða um að endurtaka leikinn að ári. Þetta var fyrst og fremst gaman og fólk á að leika sér svona meðan það getur.

ímarkinueftirwow

Við vorum eiginlega alltaf í svona góðu skapi alla leiðina

 

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s