Frá sófa í járnmann á 3 mánuðum

Þessir myndarmenn eru báðir í kjörþyngd.

Áður ég varð miðaldra og latur leiðbeindi ég byrjendum og lengra komnum á hlaupaæfingum. Mér fannst það gaman og held að svo hafi verið um lærisveinkur og sveina mína sem flest náðu sínum hóflegu markmiðum sem voru að klára skemmtiskokkið í RM og njóta þess, hlaupa undir aldurstölu í 10 km götuhlaupi eða fara Laugaveginn án þess að ganga frá sér. Ég hvatti fólk til að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi og sú hreyfing gat verið stutt og rösk gönguferð, sund og pottseta, hjóla lengri leiðina út í búð, fjallganga, hlaup, bara eitthvað til að temja sér lífsstíl hreyfingar. Reglubundnar æfingar voru þá 4 í viku, einn klukkutími hver æfing nema laugardagsæfingin þar sem miðað var við 90 mínútur af LSD. Þau sem urðu með tímanum svo hraðskreið að þurfa meira, fjölguðu æfingadögum og fóru jafnvel í aðra hlaupahópa þar sem þjálfarar kunnu meira og hraðinn var meiri.

Lærisveinkur mínar og sveinar kunnu vel að meta mat og drykk og þótt almennt væri áhersla á að borða hollt var mikið lagt upp úr sukkjöfnun á þessum árum. Við vorum öll í kjörþyngd skv. þeirri skilgreiningu að kjörþyngd væri sú þyngd sem maður hefði kjörið sér að vera í hverju sinni og þótt vinsælir viðmiðunarstuðlar (BMI)  gæfu til kynna að sum í hópnum römbuðu á barmi ofþyngdar, kom það ekki í veg fyrir að fólk kláraði sín maraþon og Laugavegi.

Nú þjálfa ég engan nema sjálfan mig en vegna forvitni horfði ég á íslensku útgáfuna af Biggest Loser í gærkvöldi, sem hefur sætt mikilli gagnrýni, Fyrirmyndin er fengin að utan og því ætti almenn æfingaharka, niðurbrot og grátur ekki að koma á óvart. Fólk veit út í hvað er farið. Að því sögðu sé ég þarna sóknarfæri fyrir alvöru æfingaprógramm sem ætti að svínvirka fyrir alla, sérstaklega byrjendur með metnað en ekki síður fyrir fólk með smá hreyfingargrunn. Samkvæmt þættinum er æft 4 sinnum á dag og ég geri ráð fyrir að hver æfing sé um 60-90 mínútur. Ef allt gengur upp, ætti mitt fólk sem skráir sig hjá mér, að geta bókað Ironman eftir jól, til vara í vor.

Dæmigerður æfingadagur yrði svona: 4 æfingar alla daga: Klukkutímasund, 90 mínútna hjól, 90 mínútna hlaup og síðasta æfing yrði valkvæð. Vikulágmark er 28 tímar á hreyfingu. Vilji lærisveinkur og sveinar sérhæfa sig í hlaupum er lítið mál að láta þau hlaupa 40 km á dag. Sama gildir fyrir hjólafíkla. Þetta er alls ekki of mikið því þaulvant og hámenntað fólk eins og liðsstjórar BL hafa skrifað upp á svona plan. Ég sé líka að ég hef verið of linur forðum daga og sparað niðurbrot og skammir því ég man ekki eftir að neinn hafi grátið eftir æfingar hjá mér og aðeins einu sinni kom sjúkrabíll að sækja þátttakanda en það var ekki æfingunni að kenna.

BL-prógrammið verður útfært nánar á næstu vikum. Árangur áfram, ekkert stopp!

 

 

Auglýsingar

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.