Hægristjórn kattanna

Í gærmorgun var hér lesið í fas kattar og ályktað að hægristjórn væri í eggjastokkunum. Brandur Brönduson kvað þetta einsýnt og fór um aðra á heimilinu, einkum mig sem fyrrverandi framsóknarfokksmann. Þótti mörgum þetta váleg tíðindi og þá einkum hefðarlæðunni skáldmæltu á Skaganum. Jósefína Meulengracht Dietrich sem mundaði stílvopn sín, sleikti kampana og kvað:

Ygglast mjög á Brandi brýn,
brennur glóð í augunum,
af því marar elda hlín
er að fara á taugunum.

Þessu var svarað snimmhendis:
Brandur sína brýnir kló
brúnir þúngar síga
ætlar bráðum út í mó
enda þarf að míga.

Full af ugg ég hengi haus
– hörmung, voði, mesta böl.
Og ekki sef ég óttalaus
– eymd og mikil pín og kvöl.

Brandur
Allir þurfa að færa fórn
og finna sína línu
Brandur heimtar hægri stjórn
-helst með Jósefínu.

Jósefína Meulengracht Dietrich 
Á það síst mun dregin dul
að dýrðleg verður hún og fín.
Held að kallist hægri gul
hefðarkattastjórnin mín.

Brandur
Efnahagsins illar spár
eru á færi katta
til að afla aukins fjár
á að hækka skatta
Jósefína Meulengracht Dietrich 
Hjá aumu fólki aukum svo
aðeins hungurlúsina.
til að baslið batni, sko,
er best að veiða músina.
Kætist bráðum kattaþjóð
kann að huga að sínu
færa munu fé í sjóð
frumvörp Jósefínu.

Jósefína Meulengracht Dietrich 
Ekki er margt sem milli ber,
mér finnst ganga allt í haginn.
Ríkisstjórnin okkar er
eiginlega klár í slaginn.
Hygla sínum hér um leið
högnum saman etja.
Jósefína ætlar Eið
í embætti að setja.

Til skýringar skal þess getið að Eiður Svanberg er herbergjaður hjá Jósefínu og er samband þeirra eins og hjá Hannesi og Davíð.
Galvösk mun ég mörgu að sinna
og muna eftir frænda þörfum.
Ég er vinur vina minna
þeir vænta góðs af mínum störfum.

Brandur

Depill situr hrifinn hjá
huga vill að feiti
matinn telur mestan fá
í músaráðuneyti.

Þegar hér var komið sögu sigu brúnir katta og geispar tóku við af rími.

Ríkisstjórnin fær nú frí
í fletið kettir slaga.
Brandur liggur bæli í
og breimar upp á Skaga.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.