Spítalalíf

Endur fyrir löngu voru þættirnir  Spítalalíf (M*A*S*H) í sauðalitunum í sjónvarpinu okkar. 22 mínútur í senn, einu sinni í viku. Þá var oft hlegið í baðstofunni.

Áratugum síðar hófst Spítalalífið á sjónvarpsstöðinni Sýn og ég fékk að þýða alla þættina. Þeir voru 225 talsins, einn á dag, alla virka daga. Mér fannst Alan Alda (Hawkeye Pierce) bestur ásamt Gary Burghoff (Radar). Þetta voru ærslafullir þættir með kaldhæðnum undirtóni og ádeiluívafi sem jókst smám saman þegar á leið og lokaþátturinn, sem var 2 tímar hefur sjálfsagt kallað fram tár og bros í jöfnum hlutföllum.

Þegar þættirnir kláruðust var komið að upphafinu sem er kvikmynd Roberts Altman frá 1970 og enn voru þiðnir skjátextar á kontórnum. Mér hafði alltaf þótt upphafslagið fallegt og þarna er það sungið með þúnglyndislegri raust.

Through early morning fog I see
Visions of the things to be
The pains that are withheld for me
I realize and I can see

That suicide is painless
It brings on many changes
I can take or leave it if I please

Í morgunþoku margur sér
myndir þess sem vænta ber
í framtíðinni falið er
ég finn að svarið þetta er:

Dásamlegi dauði
að dvelja í örmum þínum
er kostur sem ég kannski vel í dag.

Það gladdi mig að sjá þennan texta birtast á skjánum í heild sinni í gærkvöldi. Að öðru leyti hefur myndin elst illa og fölnar í samanburði við þættina. Hún líður einkum fyrir spunakennt handrit og ruglingslegt, ekki vottar fyrir ádeilu og karlremba og kvenfyrirlitning er svo yfirgnæfandi að hrollur fer um áhorfandann. Til að gefa kost á samanburði er hér fyrir neðan slóð á lokaþátt Spítalalífs sem fékk mesta áhorf í sögu sjónvarps vestanhafs. Þarna er vandað til verka og áhrifin miklu meiri en af þessari langloku gærkvöldsins.

Ein athugasemd við “Spítalalíf

 1. Fyrir rúmum áratug síðan var ég andvaka í Ástralíu, og reyndi þá við að þýða þennan texta líka, enda eitt af mínum uppáhaldslögum:

  Sjálfsmorð ei mig særir

  Í þokunni ég þykist sjá
  það sem brátt mig muni hrjá
  er finn ég verkinn fara á stjá
  fljótlega ég hugsa þá

  að sjálfsmorð ei mig særir
  það sanna kosti færir
  og víst ég get það valið ef ég vil.

  Ég reyni að finna rétta leið
  sem reynist litlum brosum greið
  og hunsa þetta hatursskeið
  en hér ég allt of lengi beið

  og sjálfsmorð ei mig særir
  það sanna kosti færir
  og víst ég get það valið ef ég vil.

  Lífsins reglur lítt ég skil
  og leið til sigurs engin til
  er legg ég út mitt lægsta spil
  að lokum þetta segja vil

  að sjálfsmorð ei mig særir
  það sanna kosti færir
  og víst ég get það valið ef ég vil.

  Með svindli þó ég sigri næ
  og sjálfur öllu kasta á glæ
  og öðrum sætið auða fæ
  á alla verki þannig slæ

  því sjálfsmorð ei mig særir
  það sanna kosti færir
  og víst ég get það valið ef ég vil.

  Og brandur tímast brýtur skinn
  í byrjun engan verk ég finn
  er dregur hann svo dýpra inn
  úr dróma vaknar sársaukinn

  en sjálfsmorð ei mig særir
  það sanna kosti færir
  og víst ég get það valið ef ég vil.

  Mig djarfur maður innti að
  hvort ansað gæti ég um það
  hvort allt hér verði, eða hvað?
  en ekkert gat ég fest á blað

  því sjálfsmorð ei mig særir
  það sanna kosti færir
  og víst ég get það valið ef ég vil.
  Og kjósir þú þann kostinn ég það skil.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.