Leikhús og jarðarför

Ég er með athyglisfrest. Ekki brest því þar með væri ég að eigna mér heilkenni annarra. Birtingarformið er takmarkað úthald við sjónvarpsgláp, skipti um útvarpsrás í miðjum lögum og kann því vel að sjá lokamínútur í glæpaþætti þar sem vondi gerandinn fær makleg málagjöld. Ég les bækur í skömmtum núorðið. Og í kvikmyndahúsi hef ég stundum hugleitt að viðra möguleika á heimferð í hléinu.

Leiksýning er skuldbinding. Ég færi ekki út í miðjum klíðum nema vegna aðsteðjandi niðurgangs eða álíka pestar. Sýningin má gjarna ögra áhorfendum, reyna á þolrifin og athyglisfrestinn og helst vekja áhuga eða aðrar tilfinningar. Það er gaman að hrífast á góðri sýningu. En ég nenni ekki að sitja undir tómum drepleiðindum.

Jarðarför er álíka skuldbinding. Maður fer ekki út eftir prédikun eða fyrir lokalagið. Atburðarásin er ekkert spennandi þannig séð en í góðri jarðarför vill maður hitta þá sem mæta og kveðja. Til þess er oft farið.

Ég gerði tilraun til að leika gagnrýnanda í útvarpinu um daginn. Ég fór á Núna í Borgarleikhúsinu, þrjá einþáttunga sem tengjast á sinn hátt og eru þeir sýndir með tveimur 20 mínútna hléum. Mér fannst, eins og ég sagði þarna, sýningin byrja vel og enda vel. Fyrsti hlutinn (Sumó) lofaði góðu en svo fór þráðurinn út í móa. Miðhlutinn fór fram hjá mörgum ef marka má spyrjandi leikhúsgesti í hléinu sem viðruðu varfærnislega við nærstadda um hvað þetta hefði verið. Við því fékkst ekki svar. Eftir þetta hlé fækkaði í salnum. Aðrir sáu sóknarfæri í tveimur hléum og fengu sér meira rauðvín og meððí. Stóri Björn var síðasti þátturinn og þá rigndi grófum klámmyndum yfir gesti. Ein kona gekk út. Þetta var samt langbesti hlutinn, vel skrifaður, frábær leikur og framsetning. Eins gott að ekki var farið út í seinna hléi.

Sú fundarsamþykkt hefur verið gerð hér á bæ að næst þegar okkur langar bæði til að láta gott heita í miðjum klíðum, þá verði farið heim eða eitthvert annað. Þetta hefðum við gert á verstu frönsku mynd fyrr og síðar í Paradísarbíóinu en þar er ekkert hlé og við vorum innikróuð á miðjum bekk. (Til minnis: Aldrei aftur mynd með Gerard Depardieu).

Halldóra er hægra megin á myndinni með öldruðum stjórnmálafræðikennara.

Á Don Kíkóta var ég hálfdauður úr leiðindum og vonbrigðum þegar hléið kom. Fyrirfram hafði nær eingöngu verið gert mikið úr því að Halldóra Geirharðsdóttir léki Don Kíkóta og það væri svo framúrstefnulegt og nýstárlegt og margt fleira. En leikgerðin var vond, leikurunum leiddist áberandi á sviðinu og í lokin féll tjaldið og ekki var gefið færi á uppklappi.

Ég er með athyglisfrest. Til að aga úthaldið ætla ég í fleiri jarðarfarir á næstunni. Eða í kvikmyndahús með órofinni sýningu.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.