Sundlaugarsaga úr fortíðinni

Svipir fortíðar sækja að og gömul nemönd sendi mér skjáskot úr dagbók frá haustinu 1993.

Þarna erum við í skólabúðum að Reykjum í Hrútafirði. Með mér voru samkennarar mínir, sem gengu þá undir nöfnunum Skógarbóndinn og FHtröllið. Ég hafði farið áður og þóttist öllum hnútum kunnugur og við félagar undum okkur vel við kökuát, kaffidrykkju og brids flesta daga meðan börnin lærðu. Þetta var ævintýralega góð vika sem endaði á diskóteki og af því að við félagar súngum með, slæddist sú saga heim í Hafnarfjörð að við hefðum verið ölvaðir innan um börnin. En það er önnur saga.

En þarna var sem sagt miðvikudagur og frábært veður. Ég man ekki alveg hvernig þetta byrjaði en held samt að glaðbeittur piltur sem var þá kallaður Benni litli hafi óvart „dottið“ í laugina þar sem við vorum að kankast á bakkanum. Í kjölfar þess varð sundlaugin á Reykjum sneisafull af fullklæddum börnum og ég reyndi aðallega að sjá um að enginn væri beittur ofbeldi. Á því var raunar lítil hætta því þetta voru góð börn. Þarna undum við lengi við ýmsa leiki og létt slagsmál og þegar líða fór að kvöldverði voru börnin veidd upp úr og allir fóru að vinda fötin sín. Ég held að þeim hafi þótt þetta jafn gaman og mér.
Kennurum á Reykjum fannst þetta ekki eins fyndið. Við kvöldverðinn stóð Bjarni skólastjóri upp, þungur á brúnina og vildi vita hver hefði staðið fyrir því að menga laugina með því að fara í hana í fötunum. Nú yrði að tæma hana og þrífa og hún yrði ekki nothæf fyrr en eftir sólarhring. Til að börnin yrðu ekki skömmuð að óþörfu, rétti ég upp hönd, tók á mig alla sök með glöðu geði og við það datt botninn úr ræðu Bjarna, en við lukum síðan málinu yfir kaffibolla síðar um kvöldið.
Sundlaugin var síðan tæmd og fyllt og börnin náðu að fara í hana seint á fimmtudeginum svo þetta fór vel.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.