Á tíæringi yfir Breiðafjörð

Ég fylgdist eins og fleiri með boðsundi Marglyttanna yfir Ermarsund og fagnaði þegar þær kláruðu það. Að synda í klukkutíma í einu í úfnum sjó, hvíla sig í fimm tíma og endurtaka klukkutímann er ekki auðvelt, hvað þá ef þriðji klukkutíminn fylgir. Ég hef mest synt 4 kílómetra í beit í útlenskum sjó og finnst það nægja. Hér heima er ágætt að gera út frá Nauthólsvík á sumrin og vera um hálftíma til klukkutíma á floti. Ég ber virðingu fyrir þeim sem leggja Ermarsundið á sig, ekki síst Söru Thomas maraþonsundkonu sem synti fjórar ferðir yfir sundið án þess að hvíla sig, var 54 tíma á leiðinni og hefur sennilega lagt um 200 km að baki því erfitt er að synda beina leið í straumum og öldugangi eins og meðfylgjandi mynd sýnir.  Boðsund milli landanna er fyrir venjulegt fólk en fjórföld vegalengd er fyrir ofurkonur. Það er alltaf gott að velta fyrir sér  samhengi hlutanna.

Ermarsundið er dýrt fyrir miðaldra og heimavinnandi kattareiganda því sundleyfi og fylgdarbátur kosta 3500 pund eða um 550 þúsund krónur( samkvæmt vitnisburði ensks sundkappa) og er þá óreiknaður kostnaður við ferðir og hótel fyrir mig og fylgdarfólk ásamt öllu sem til fellur og svo er eftir að kolefnisjafna flugferðirnar fyrir hópinn. Mig grunar að talan gæti farið vel yfir milljón og jafnvel ofar.

Ég viðurkenni fúslega að hafa borgað slatta fyrir ferðir mínar í járnið forðum daga því allt þetta brölt okkar miðaldra fólksins sem hefur komið upp börnum og borgað niður skuldir, kostar sitt og útgjöld eru valkvæð. Meðan ég hljóp sem mest og eyddi peningunum í viðhald og uppgjör á gömlu húsi, fór ég oft með möntruna: „Hollur er heimafenginn baggi“ og skipulagði með félögum mínum haustmaraþon og vormaraþon í mörg ár. Það kostar 7 þúsund og er ódýrt miðað við RM sem kostar 10 -16 þúsund. Þessi mantra á enn vel við og þess vegna viðra ég hugmyndina að Breiðafjarðarsundi.

Vegalengd yfir Breiðafjörð er um 60 km ef miðað er við siglingaleið frá Stykkishólmi til Brjánslækjar. Til að byrja með er einboðið að reyna boðsund yfir fjörðinn og til að vera umhverfisvæn og vistvæn og náttúruleg yrði sundhópnum fylgt á árabát. Best væri að fá góðan tíæring því það þarf að vera pláss fyrir alla og nestið sem er auðvitað í umhverfisvænum prjónapokum, jafnvel úr söluvoð, sem ku vera gott efni ef marka má lygasögurnar um Gretti Ásmundarson og meint sund hans frá Drangey til lands. En það er önnur saga.  Ég sé mörg sóknarfæri í þessari hugmynd, líkt og Bretum hefur tekist að gera Ermarsund að tekjulind. Hvort þetta verður að veruleika verður framtíðin að leiða í ljós. En ég er alla vega tilbúinn. Ég mun mæta í söluvoðarskýlunni og smyrja mig gæsafeiti.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.