Vitnisburðirnir

„Styttur má aðeins gera af dánu fólki en ég fékk styttu í lifanda lífi. Ég er þegar orðin að steini.

Þessi stytta var örlítill þakklætisvottur fyrir margþætt framlag mitt, eins og segir í textanum sem Vidala Frænka las upp. Yfirboðarar okkar höfðu falið henni þetta verk við litla hrifningu hennar. Ég þakkaði henni með eins mikilli  auðmýkt og mér var unnt og kippti svo í bandið sem losaði tjaldið sem huldi mig; það  bylgjaðist niður á gólfið og þarna stóð ég. Við fögnum ekki hér í Ardua Hall en eitthvað var um varfærið lófatak. Ég laut höfði.

Styttan mín er stór, eins og styttum hættir til að vera og sýnir mig yngri, grennri og í betra formi en ég hef verið í nokkurn tíma. Ég stend bein með kerrtar axlir, á vörum mínum er ákveðið en góðlátlegt bros. Augu mín stara á einhvern punkt í fjarskanum sem á að tákna hugsjónir mínar, óbilandi skyldurækni mína, staðráðin í að halda mínu striki þrátt fyrir hindranir. En styttan mín sér ekkert í fjarskanum því hún stendur í drungalegri þyrpingu trjáa og runna við göngustíginn fyrir framan Ardua Hall. Við Frænkurnar megum ekki vera of djarfar, ekki einu sinni sem steinar.

Í vinstri hönd mína heldur stúlka, sjö eða átta ára gömul, sem horfir á mig full trúnaðartrausts. Hægri hönd mín hvílir á höfði konu sem er í hnipri við hlið mér, með blæju yfir hárinu, lítur upp með svip sem annað hvort má túlka sem huglausan eða þakklátan -ein af Þernunum okkar -og bak við mig er ein af Perlustúlkunum mínum, albúin að hefja trúboðsstarf sitt. Í belti mínu er rafbyssan mín, vopnið sem minnir mig á bresti mína; hefði ég verið skilvirkari hefði ég ekki þurft svona áhald. Sannfærandi rödd mín hefði nægt.

Þessi hópur höggmynda er of stór og kemur ekki vel út. Ég hefði viljað hafa meiri áherslu á mér. En ég virðist þó vera heil á geði. Myndhöggvan aldraða -sanntrúuð og látin – átti  það til að setja útstæð augu á viðfangsefni sín sem tákn um trúarhita þeirra. Á brjóstmynd hennar virðist Helena Frænka vera óð, Vidala Frænka með ofvirkan skjaldkirtil og Elizabeth Frænka er við það að springa.

Við afhjúpunina var myndhöggvan kvíðin. Hafði hún gert nógu ásjálega mynd af mér? Var ég ánægð með hana? Myndi ég sýna ánægju mína? Ég íhugaði að gretta mig þegar tjaldið féll en hætti við það; ég er ekki laus við vorkunnsemi. „Lifandi eftirmynd mín“ sagði ég.

Þetta var fyrir níu árum. Síðan hefur styttan mín veðrast: dúfur hafa skreytt mig, mosi skotið rótum í rökum kríkum mínum. Tilbiðjendur hafa lagt fórnargjafir að fótum mér: egg fyrir frjósemi, appelsínur til að minna á fyllingu þungunar, smjördeigshorn sem tákna tunglið. Ég hunsa brauðmetið sem yfirleitt er vott af regni en tek appelsínurnar. Appelsínur eru svo hressandi.

Þessi orð eru rituð í einkaathvarfi mínu í bókasafninu í Ardua Hall -eitt fárra bókasafna sem lifa eftir ákafar bókabrennur víða um land. Rotin og blóðklínd fingraför fortíðarinnar verður að afmá til að skapa hreint svigrúm fyrir siðprúðu kynslóðina sem hlýtur að vera væntanleg. Það segir kenningin.

En meðal þessara blóðugu fingrafara eru okkar fingraför og þau verður erfitt að afmá. Ég hef á liðnum árum grafið mörg bein; nú fýsir mig að grafa þau upp – bara sem andlega upplyftingu, kæri óþekkti lesandi. Ef þú lest þetta, þá hefur þetta handrit allavega varðveist. En kannski eru þetta órar í mér: kannski eignast ég aldrei lesanda. Kannski tala ég bara við vegginn, á fleiri vegu en bara einn.

Nóg er letrað í dag. Mér er illt í hendinni, mig verkjar í bakið og mín bíður bolli af flóaðri mjólk eins og öll kvöld. Ég set þessa langloku á felustaðinn, forðast eftirlitsmyndavélarnar -ég veit hvar þær eru því ég setti þær sjálf upp. Þrátt fyrir þessar varúðarráðstafanir geri ég mér grein fyrir hættunni; skriftir geta verið varasamar. Hvaða svikræði, og síðan hvaða fordæmingar gætu beðið mín? Margar í Ardua Hall vildu gjarna komast yfir þessar síður.

Bíðið bara, ræð ég þeim í hljóði: þetta mun versna.“

Fyrirvari: Þessi þýðing á fyrsta kafla bókarinnar The Testaments er eingöngu gerð mér til yndisauka og er án heimildar. Frekari þýðing af minni hálfu er ekki fyrirhuguð.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.