Svanasöngur

Kvikmyndin Svanurinn var sýnd í sjónvarpinu meðan fólk var enn í ofáti og lá á meltunni. Hér á bæ var horft með athygli framan af og eyru sperrt því hljóðið var takmarkað og annað hvort töluðu persónur lágt eða óskýrt. Margt í atburðarásinni var óljóst og því var leitað á náðir netsins til að finna skýringar. Sú leit skilaði kvikmyndarýni RÚV sem hlekkjað er á hér fyrir ofan. Þar er margan konfektmolann að finna og ýmsum spurningum er svarað.

Óljós atburðarás er skýrð svona: “ „Eitt það skemmtilegasta við myndina er að sögumaðurinn er ung stúlka og við upplifum drama gegnum hana, frá hennar augum og erum ekki með allar upplýsingarnar sem við þurfum til að skilja hvað er nákvæmlega í gangi. “ Þetta hjálpaði áhorfandanum mér ekki mikið og óneitanlega tekur sig upp athyglisfrestur á svona stundum.

Hrifning gagnrýnenda leynir sér ekki og stundum er seilst frekar langt til að finna ljósa punkta. Einhvers staðar í kynningu er nefnt að Hilmir Snær leiki í myndinni og um hans hlut er sagt: “ Það má til dæmis nefna að Hilmir Snær er alveg kostulegur í hlutverki leikarans, það er mjög fyndið þegar hann leikur leikara á hestamannamóti.“ En Hilmir sést í mýflugumynd úr fjarlægð, tal hans er lágstemmt og óljóst og hann er í mynd rúmar tíu sekúndur. Það þarf snilling til að sýna stórleik á svo stuttum tíma.

Annars er margt gott í myndinni. Sveitin er falleg, veðrið er gott, taða ilmar á túni og hænur gagga í varpa. Ég man eftir svona sveit. Þarna er líka krúttlegur kálfur sem er slátrað og hann jetinn. Til þess eru vorkálfar. Þeir eru góður matur í byrjun sláttar þegar kjötið er hæfilega þétt. Allt þetta góða er sýnt í frábærri myndatöku sem er aðalkostur Svansins. Það er ekki sama hver heldur á myndavélinni.

Í myndina vantar jarðarför sem er ómissandi í svona íslenskri sveitalífsmynd, sem í raun eru allar eins. Þegar Þorvaldur Davíð er sauðdrukkinn á hestbaki á leið heim af samkomunni, hrindir Þuríður Blær honum ofan í læk þar sem ég held alla vega að hann hafi drukknað og ég fór að velta fyrir mér hver myndi leika prestinn. En svo varð ekkert úr því og áhorfendur vita ekki hvort Þorvaldur var lífs eða liðinn eftir þetta fyllerí. Þarna missti leikstjórinn af góðum fimm mínútum með dramatískri tónlist undir.

Niðurstaðan: Hefði ég séð kvikmyndina í bíósal með poppi og öllu, hefði ég farið heim í hléinu. Ef ég skil ekki atburðarásina, heyri ekki í leikurunum og dotta yfir letilegri framvindu, er betra að vera annars staðar. Þess vegna var gott að fá myndina í sjónvarp. Þar missir maður ekki af neinu þó maður rölti fram í eldhús, fái sér svaladrykk og jeti kökur í drjúga stund. En hér ber að hafa í huga að ég er smáborgari búsettur við Sædýrasafnið og hef ekki nógu mikið vit á kvikmyndum til að skálda upp gagnrýni eins og vitnað er í hér að framan.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.