Osteostrong-snákaolían

„OsteoStrong er byltingarkennt kerfi sem hjálpar fólki að styrkja vöðva, minnka verki í liðum og stoðkerfi, styrkja bein og auka jafnvægi með góðum árangri.“ Texti á forsíðu fyrirtækisins.

Ástundun OsteoStrong tekur mjög stuttan tíma eða um 10 mínútur í viku. Fólk mætir í venjulegum fötum, tekur á, svitnar ekki en getur fylgst mjög vel með styrktaraukningu.

„Styrktaraukning er mjög hröð hérna og fólk er að meðaltali að bæta sig um 73% á ári. Eftir að þessum 10 mínútum lýkur er fólki svo boðið að leggjast á PEMF bekki í slökun sem hjálpar blóðflæði og dregur úr bólgum í líkamanum,“ Auglýsingarviðtal í Fbl.

Ég stóðst ekki þessar fullyrðingar og fór í 45 mínútna heimsókn í Borgartún 24 þar sem stöðin er til húsa. Þetta er stór salur með 4 tækjum, jafnvægisþófum og 5 ruggustólum með rafsegulbylgjaábreiðu. Ég fyllti út spurningablað og eftir viðtal var ég látinn taka á tækjunum. Þau eru svipuð og sjást í ofangreindu myndbandi.

Ég svitnaði ekki, tók ekki mikið á, enda tækin aðeins fjögur en í fótapressu, sem ég þekki ágætlega úr ræktinni, mældist átakið hjá mér 468 kíló. Áreynslan var í sirka 5 sekúndur og án þreytu. Talskona Osteostrong kvaðst vera komin í 1000 kíló í téðu tæki og spúsi hennar væri í 1800, enda hraustmenni. Aðrar átakstölur hjá mér voru álíka lygilegar. Þetta gat ekki staðist.

Ég hef stundað íþróttir síðan 1985, lokið 40 maraþonum, 3 járnmönnum, hjólreiðakeppnum og ofurþonum og hafa æfingar verið í samræmi við það á þessum 35 árum. Mér finnst ég hafa forsendur til að tjá mig um þetta. Ég fullyrði að tíu mínútum á viku fylgja ekki framfarir samkvæmt fullyrðingum rekstraraðila hér efst í færslunni. Rekstraraðilar hafa einnig verið rukkaðir um niðurstöður rannsókna sem styðja fullyrðingar þeirra í viðtali í Mbl. „Rann­sókn­ir hafa sýnt að með reglu­legri ástund­un OsteoStrong losn­ar fólk við mikið af verkj­um í stoðkerf­inu, hnjám og baki.“

Svör rekstraraðila voru ófullnægjandi og hafa þau, sem og athugasemdir á FB-síðu fyrirtækisins, verið þurrkuð út. Téðir rekstraraðilar eru viðskiptafræðingur með markþjálfanám að baki og kjötverkunarrekandi sem lærði hönnun.

Verðlagning Osteostrong er engu lík. Prufutíminn er ókeypis, en mánaðarkort kostar 24.900 og í því felast 10 mínútur á viku í stöðinni, alls 40 mínútur á mánuði sem þýðir að heill klukkutími kostar um 37 þúsund krónur. Ekki er ætlast til að fólk komi oftar, nema hugsanlega að greiða aukalega fyrir það. Þetta er mikið verð en fólk með lyfleysuáhuga opnar sjálfsagt budduna eða greiðslukortið.

Um stofnanda Osteostrong fannst þetta á netinu: „John Jaquish, amerískur vaxtarræktariðkandi kveðst hafa fundið upp Osteostrongaðferðina.. Hún mun felast í sérstakri stöng sem gefur einhvers konar sérstakt álag. John titlar sig doktor ef marka má þessar síður:  https://www.johnjaquish.com/ Þegar að er gáð þá er prófgráðan fengin í gerviskóla sem er með póstfang á götuhorni niðri við strönd á Grand Cayman. Það er ekki að finna eina einustu tilvísun í greinar eftir hann á PubMed/NCBI og allt bendir til þess að doktorsnafnbótin sé fölsuð enda virðist henni ekki vera flíkað lengur. Í markaðsefni fyrirtækisins er að finna tilvísanir í vísindagreinar en þegar að er gáð kemur í ljós að þær fjalla ýmist um eitthvað annað eða eru ekki marktækar ritrýndar vísindagreinar. “ (BL)

Ég mætti með opinn huga en meðan ég lá á rafsegulbylgnaábreiðunni sem mun hafa þau áhrif að losa sundur rauðu blóðkornin svo þau eigi greiðari leið um æðakerfið, fylltist ég efasemdum. Þó mér hafi verið tekið ákaflega vel og hlýlega, eru takmörk fyrir hvað er hægt að pranga inn á mann mikilli snákaolíu á 45 mínútum.

Ein athugasemd við “Osteostrong-snákaolían

  1. Takk. Var að spá í að skoða þetta en ekki fyrir 25 kall á mánuði. Mér þykir það sérstaklega slæmt þegar fyrirtæki keppist við að tala ekkert um kostnaðinn við „meðferðirnar“ hjá þeim. Svo þykir mér það furðulegt að ætlast til þess að maður trúi því að það sé ekki hægt að styrkja beinin með kraftlyftingum, hefur þetta lið ekki séð Haffa? Hann var mjór körfuboltaleikmaður og var svo tveimur árum seinna orðinn að mikilmenni, reyndar með súper vítamínum en það er sama.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.