
Ég er alltaf opinn fyrir nýjum leiðum til að verða betri en ég er og þegar ég sá þessa auglýsingu á víðlendum fésbókar, fylltist ég áhuga. Ég var nýbúinn að gera Osteostrong-æfingu dagsins sem tók eina mínútu og sendi fyrirspurn til væntanlegs einkaþjálfara. Ekki stóð á svörum:
„Á 6 mánuðum færð þú betri (og jafnvel nýja) sýn á:
– sjálfan þig (aukið sjálfstraust, minna sjálfsniðurrif)
– fólkið í kringum þig
– lífið almennt
– á æskuna/fortíðina
– hugann þinn og lærir að temja hann betur (meiri hugarró)
– samskipti við aðra
og margt fleira!
Námskeiðið fer þannig fram að þú færð aðgang að innrasvæði og færð í hverjum mánuði mikilvægan fróðleik og verkefni að vinna með, ásamt ótal mörgu öðru efni til að koma þér í þitt allra besta andlega form. Þú vinnur þetta allt á þínum hraða og tíma, þú ert ekki mættur í skóla til mín og þarft því ekki að skila mér neinum verkefnum heldur er þetta allt fyrir þig gert
Þú færð síðan tvo 60 mínútna einkatíma sem fara fram í gegnum Skype/Messenger, tímarnir eru góðir til að fara dýpra í málin.
Verð:
6 mánuðir: 24.900 kr. (pr.mánuð x6)“ Heildarverð er 150 þúsund.
Námskeiðshaldari lærði fag sitt á þessu námskeiði sem heitir „Lærðu að elska þig“ Þetta er langur lestur en niðurstaðan er að maður lærir að verða besta útgáfan af sjálfum sér og er örlítið ódýrara en ofangreint verð, eða 216 þúsund fyrir pakkann ef allt er borgað strax. Um er að ræða persónulega einkaráðgjöf á Skype. 60 mín tími kostar kr. 17.000,- og 90 mín tími og kostar kr. 20.000,-. Þetta er gjöf en ekki gjald.
Ég efa ekki að fólk fái fyrir allan peninginn þarna og sjálfsagt flykkist Eflingarfólk á námskeið eftir ríflega launahækkun. Ef ég kaupi Osteostrong-snákaolíuna líka (24.900 á mánuði), fer á Kórónuveirunámskeið í Qi Gong (kostar 15.900 á mánuði) þá blasir við að ekkert er eftir af eftirlaununum og um 70 þúsund farin í sjálfsræktina á mánuði. Ég verð að sætta mig við sjálfan mig eins og ég er. Það getur orðið erfitt.
Vesalings eyminginn sem þú ert. ❤