
Eitt af mörgu sem hefur glatt mig í sjálfskipaðri sóttkví er að kynnast Sérríði Indriðadóttur sem er nú til heimilis í einni Skipalónsblokkinni hér í bæ, í hárri elli en er afar ern og hagmælt eins og hún á kyn til. Sérríður flutti úng frá Kraunastöðum með gott brageyra og tíu á fullnaðarprófi í móðurmáli, gerðist kaupakona norður í landi en á því heimili var fólk með þolfallssýki fyrirlitið og þágufallið eitt ríkjandi. Sérríður streittist lengi vel á móti en eftir að hún giftist elsta syninum á heimilinu, gafst hún upp og skrifaði nafn sitt að hætti heimamanna. Þau Natan eignuðust eitt barn, dótturina Sérrúnu, sem tók við búinu þegar Natan lést fyrir rúmum áratug.
Sérríður er ekki á fésbókinni en hefur gaman af að yrkja um málefni líðandi stundar. Hún fylgist vel með þjóðmálum, hringir reglulega í Útvarp Sögu og hefur haldið sínu næma þíngeyska brageyra, að eigin sögn.