Í minningu skáldlæðu

Í gær barst sú frétt að látin væri skáldlæðan Jósefína Dietrich á Akranesi, sem er vísnaunnendum að góðu kunn og hafa verk hennar ratað á bók. Mörg minnumst við hennar fyrir smellnar tækifærisvísur og glögga sýn á samfélagsmál. Kvöld eitt í febrúar 2016 kváðumst við Jósefína á í drjúga stund og er afrakstur þeirrar viðureignar hér meðfylgjandi:

Jósefína Dietrich:
Skagafjarðar fríðust við mér fjöllin blasa.
Það lifnar margt í leyndum taugum
ef lít þau gulum kattaraugum.

G::
 Skagafjarðar skakkir tindar skera í augu
frekar vil ég flatneskjuna
á Fíatinum þangað bruna.

 Jósefína Dietrich:
Á Fíat bílnum fara mátt en fjandakornið,
mala ég, þú mátt ei gleyma
að manni er best að sitja heima.

G:
Kann að meta kvæði góð sem köttur yrkir
heyra má í lokalínu
ljúfast mal í Jósefínu.

Jósefína Dietrich:
Kát ég teygi klónna milli kvæða lopann,
þæfi hann í þykkan flóka
það má Gísli alveg bóka.

G:
Mínir kettir mey á Skaga mættu þekkja
við aðra ketti æstir glíma
ekki kunna mal að ríma.

Jósefína Dietrich:
Siðprúð mjög og settleg er í sínu ríki
og hirðir lítt um högna þína
hefðarkisan Jósefína.

G:
Mína högna meinleysingja mætti kalla
inni í bæli una glaðir
– einu sinni voru graðir.

 Jósefína Dietrich:
Ellin leikur ýmsa grátt og okkur köttum
 – vel er þekkt í þjóðar minnum
 – þyrmir bara átta sinnum.

G:
Eitt er lífið okkur gefið alla daga
með það illa margir fara
mættu óhóf gjarna spara.

Jósefína Dietrich:
Meðal þess sem mætti af okkur mannfólk nema
er meiri svefn í mjúku fleti
og miklu betri skammt af leti.

G:
Höfði mínu halla þarf og huga að draumum.
Kveðju góða kettir senda
kvæðarófu þarf að enda.

Ein athugasemd við “Í minningu skáldlæðu

  1. Bakvísun: Í minningu skáldlæðu | Kvennablaðið

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.