111. meðferðin

Hafnfirðingar hafa ýmislegt á samviskunni. Við sem búum í hlaðvarpa Sædýrasafnsins erum reglulega spurð hvar apabúrið sé og hvort kengúrunum sé kalt. Spyrjendur eru á hafnarfjarðarbrandarastiginu og hlæja mest að eigin fyndni en heimamenn víkja talinu að öðru. Þetta var smánarblettur á orðstír bæjarins og á ekki að gleymast.

Engu að síður eiga miðaldra Hafnfirðingar erfitt með að heimsækja Húsdýragarðinn í Reykjavík. Þar una mörg húsdýr hag sínum vel, hafa nóg að jeta, eignast afkvæmi sem vonandi fá að fara í sveitina og verða fullorðnar skepnur, nytháar og kynsælar. Allt við þetta er krúttlegt og leikskólavænt þar til kemur að selunum. Þeir eru eins og hvert annað kýli á ímynd garðsins.

Þetta er selalaugin í Húsdýragarðinum. Hún er örlítið stærri en umráðasvæði Keikós meðan hann hjet Siggi og bjó í Hafnarfirði. Þarna býr fullorðið selapar sem eignast kópa á vorin. Það þykir barnvænt að sýna börnum kópana því þeir hafa barnsaugu. Ekki þykir við hæfi að sýna börnum hvernig kópunum er slátrað á haustin, þótt einboðið væri að sjóða ketið á bakkanum og gefa gestum að smakka. Það þykir jafnan aðdráttarafl að fá ókeypis matarbita einhvers staðar. Þarna er sóknarfæri fyrir rekstraraðila.

Nú skilst manni að bæta eigi aðstöðu selanna fyrir 100 milljónir. Safnað er undirskriftum til stuðnings því að selirnir fái að fara í sjávardýraathvarf. Það þykir skynsömum Hafnfirðingum sem enn hafa samviskubit vegna Sædýrasafnsins vera óþarfi og vilja helst sleppa selunum í hafið. Ef áhyggjur eru af því að þeir kunni ekki að veiða sér til matar, er einboðið að slátra þeim og breyta lauginni í heitan pott fyrir gesti og gangandi. Þannig er hægt að sleppa 100 milljóna bruðli, fjölga pottum á Stór-Hafnarfjarðarsvæðinu og láta Húsdýragarðinn standa undir nafni.

Selur er ekki húsdýr. Selur á heima í sjó þar sem veiði er nóg og hægt að synda með öðrum sjávarskepnum. Milli máltíða og sundæfinga er tilvalið að skríða upp á sker og leyfa aðvífandi ferðamönnum að taka myndir með aðdráttarlinsu.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.