Adda drullar upp á bak

Barnabækur æsku minnar þættu ekki krassandi nútildags. Ég las ævisögu Tom Swift mér til óbóta þar sem hann var átján ára í tíu bókum og smíðaði alls kyns maskínur á einu ári sem venjulegt vísinda-og verkafólk er áratugi að koma á koppinn.Fimm-bækurnar voru ekki mikið skárri þar sem börnin eltust mjög hægt, fóru oft í sumarfrí á sama árinu og fengu ekki flóafrið fyrir misyndismönnum, líkt og börnin í Ævintýrabókunum. Öddubækurnar tíndust inn jól eftir jól og Adda óx úr grasi, byrjaði í menntaskóla og þar var hún í lokabindi ritraðarinnar…. „Adda er langt komin með menntaskólanámið og vinnur á sjúkrahúsi í heimabyggð sinni í sumarleyfum. Þar endurnýjar hún kynni sín við lækninn Pál — og ástin kviknar í brjóstum þeirra.“ (úr lýsingu á bókarkápu)

 Eftir sátu lesendur í nagandi efa. Hvað varð um Öddu? Lauk hún stúdentsprófi? Lagði hún námsbækur á hillu og gerðist heimavinnandi húsmóðir meðan Páll læknir skar upp mann og annan, vann nokkra sólarhringa í beit og sarð sjúkraliða inni í geymslu?  Var það lögmál á þessu blómaskeiði barna-og unglingabóka að þegar stúlka trúlofast er lífi hennar í raun lokið, hún gengur feðraveldinu á vald, eins og Öddur miðalda gengu í klaustur? Adda verður viðhengi mannsins síns og þá er ekkert söguefni eftir. Hvernig hefði Guðrún frá Lundi fjallað um Öddu? Hvað með Enid Blyton? Stella Blómkvist hefði látið hana myrða einhvern, hjá Arnaldi hefði hún fundist látin við dularfullar kringumstæður en góðviljaður höfundur hefði látið hana rannsaka sakamál milli skutlferða á leikskóla, ballett, íþróttaæfinga og heimsókna í stórmarkaði.

Með hjálp Fésbókarinnar var þetta rætt í tætlur og niðurstaðan varð listi yfir óritaðar Öddubækur sem komu til greina. Eflaust vantar einhverjar á listann. Þarna er óplægður akur fyrir höfunda sem vilja rétta hlut Öddu okkar.

Adda drullar upp á bak.

Adda verður aðgerðasinni.

Adda í átaki.

Adda fær greiningu.

Adda gerist áhrifavaldur.

Adda fyrir Héraðsdómi.

Adda hættir á samfélagsmiðlum.

Adda í afplánun. 

Adda brennur út.

Adda fer í meðferð.

Adda kemur út úr skápnum.

Adda verður femínisti.

Adda og tíðahvörfin.

Adda og beinþynningin. 

Adda á Grund.

Adda gengur aftur.

 

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.