Óhæfur þýðandi

Amanda Gorman hreif alla við innsetningu Joe Biden í embætti forseta BNA þegar hún flutti ljóðið „The Hill We Climb“. Það er best í flutningi höfundar en einnig áhrifamikið aflestrar og freistandi viðfangsefni þýðenda víða um heim, enda standa nú yfir tilraunir hér og þar að snara því á önnur tungumál. En það er þrautin þyngri.

Katalónski þýðandinn, Victor Obiols, hefur nú verið leystur frá störfum því kenniskrá (profile) hans er ekki rétt. Hann er ekki sá eini því í Hollandi hætti skáldkonan Marieke Lucas Rijneveld þýðingunni eftir að gagnrýnt var að þeldökkur þýðandi var ekki valinn. Um þetta er fjallað í Guardian og þar segir m.a. í lauslegri þýðingu.

Mér var sagt að ég væri ekki hæfur til að þýða ljóðið“ sagði Victor Obiols í viðtali við AFP á miðvikudaginn. „Hæfileikar mínir voru ekki dregnir í efa, heldur þurfti þýðandinn að vera ung kona, aðgerðasinni og helst dökk á hörund“.

Amanda Gorman er 23 ára, afrísk-amerísk að uppruna hlaut einróma lof fyrir flutninginn og ljóðið en innblásturinn var árásin á þinghúsið og þar er fjallað um hvernig „lýðræðið getur aldrei verið yfirbugað til fulls. “ Hún er líka sú yngsta sem les ljóð við innsetningu forseta en það gerði Robert Frost fyrstur skálda árið 1961 við innsetningu John F. Kennedy. Ljóðið rímar líka vel við miklar deilur í Bandaríkjunum undanfarin ár um langvarandi hatur hvítra á svörtum íbúum landsins og arfleifð þrælahaldsins.

Victor Obiols hefur þýtt verk Shakespeare og Oscar Wilde. Útgáfufyrirtækið Univers í Barselónu óskaði eftir því fyrir þremur vikum að hann þýddi ljóð Amöndu Gorman á katalónsku ásamt formála Oprah Winfrey. Að verki loknu fékk útgefandi hans skilaboð þess efnis að hann „væri ekki rétti maðurinn“ að sögn Obiols. Ekki er vitað hvaðan þessi höfnun kemur upphaflega.

„Þetta er afar flókið mál og ber að taka það alvarlega “ sagði Obiols. „En ef ég get ekki þýtt verk skálds af því að hún er kona, ung, svört og tilheyrir 21. öldinni, þá get ég ekki þýtt Hómer því ég er ekki Grikki áttundu aldar og heldur ekki verk Shakespeares því ég er ekki Englendingur 16. aldar.“

Á rúmlega 30 ára þýðingaferli hef ég komið nokkrum ljóðum yfir á ástkæra ylhýra og veit að þetta getur verið snúið og ekki á færi viðvaninga. Ljóð Amöndu er freistandi verkefni og ætti að vera til á íslensku. En ef marka má þróun mála undanfarna mánuði verð ég ekki valinn til verksins. Ég er hvítur, miðaldra, karlkyns og búsettur í Hafnarfirði nálægt Sædýrasafninu.

3 athugasemdir við “Óhæfur þýðandi

 1. Ég er sammála þeim sem finnst þetta ekki vera rétta leiðin að jafnrétti óháð uppruna.
  Og þó … þó er þetta flókið eins og stendur hér að ofan.

  Samlíkingin við að þýða forn rit er frekar slöpp. Alt fólkið sem var uppi þá er liðið. Já, ég skil að punkturinn sé sá að þýðendur séu að öllu jöfnu að „öðru sauðahúsi“ en höfundur.

  En …. ef ske kynni að til væri góður þýðandi frá ensku yfir á katalónsku sem væri ungur aðgerðarsinni, þá gæti það _hugsanlega_ bætt einhverju við þýðinguna. Mér finnst kannsi mikilvægari að leita að aðgerðarsinna og einhver sem hefur virkilega fundið mismunun á sínum líkama. Frekar en að setja skilyrði um að þýðandi væri kona og dökk á hörund. Þeas í þessu dæmi, ef ég væri spurður. En það er bara ég…

  Hins vegar er að sjálfsögðu óvinnandi vegur að _krefjast_ að þýðendur líkjast höfundunum. Gefur auga leið.
  Maður vonar að fólk áttar sér….

 2. Einnig þetta:https://www.bbc.com/news/world-europe-56334369
  Þar kemur fram það álit Janice Deul í Volkskrant að henni þótti óskiljanlegt að valinn skyldi hvítur þýðandi en ekki ung svört kona sem væri fær í orðsins listum.
  „Svartir geta þýtt verk hvítra og öfugt“ sagði JD.“Bara ekki þetta tiltekna ljóð þessa tiltekna mælanda á þessu BLM svæði. Það er kjarni málsins.“

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.