Vondur matur

Vondur matur er smekksatriði. Þar sem vart varð við hneykslun á netinu vegna saklausra ummæla á Rás 1 um að lifur í gamla daga hefði verið vond, vaknaði í mér matarbloggarinn sem illu heilli hefur lengi legið á meltunni. Grænmetisætur og lifrarunnendur eru hér með varaðir við og þurfa ekki að lesa lengra.

Á borðum á æskuheimili mínu var stundum lifur, einkum í sláturtíðinni, því við áttum ekki frystikistu sem varðveitti nýmetið gaddfreðið fram eftir vetri og höfðum heldur ekki rafmagn til að knýja kistuna. Lifrin var skorin í hæfilega stóra bita, velt upp úr hveiti með salt og pipar, steikt á pönnu, soðin í einhvern tíma og hveiti sett í soðið til að úr yrði sósa. Mér þótti þetta aldrei góður matur og þurfti rabarbarasultu út á til að deyfa lifrarbragðið. En þetta jat ég samt því ég var svangur. Í sláturtíðinni var líka soðin lifrarpylsa/blóðmör þrim sinnum á dag og við bræður fengum alltaf að borða einn kepp úr hverri suðu. Við vorum því ekki vanhaldnir, frekar en önnur sveitabörn á þessum árum.

Stundum þurfti að fara af bæ til að sinna verkum og í það skiptið sem okkur var eftirminnilegt, var svengdin orðin allnokkur þegar kom að hádegisverði. Þar var á borð borin soðin, ókrydduð lifur í stórum bitum og með henni ósöltuð sósa. Ég náði að þvinga oní mig einum bita og hafði væntingar um eftirmat. Það var grjónagrautur eða sagógrjónagrautur, álíka bragðlítill og honum komum við ekki niður.

Svengdin var orðin mikil þegar við komum heim um kvöldið. Þá var mamma að sjóða slátur og við fengum sinn keppinn hvor. Þá var borðað þar til fylli var náð og sætti matarlystin nokkurri furðu þar til við útskýrðum málið.

Þegar ég fór að halda heimili var lifur ekki á boðstólum en öðru hverju var reynt að koma henni í mig og aðra í fjölskyldunni í von um að losa mig við fordómana. Ég viðurkenni fúslega að snöggsteikt lifur í sméri, hálfa mínútu á hvorri hlið, vel krydduð, bragðast ágætlega. En soðna lifrin situr samt í mér og ótilneyddur hef ég ekki eldað lifur á þessari öld.

Hvað viltu segja?

Please log in using one of these methods to post your comment:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.